Bændablaðið - 26.03.2015, Blaðsíða 6
6 Bændablaðið | Fimmtudagur 26. mars 2015
Málgagn bænda og landsbyggðar
Bændablaðið kemur út hálfsmánaðarlega. Því er dreift til allra bænda landsins og fjöl margra annarra er tengjast land búnaði.
Bændablaðinu er dreift ókeypis til þeirra er stunda búskap en þéttbýlisbúar geta gerst áskrifendur að blaðinu.
Árgangurinn kostar kr. 7.500 en sjötugir og eldri og lífeyrisþegar greiða kr. 3.750. Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands.
Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300– Fax: 562 3058 – Kt: 631294-2279
Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: 563 0339 – Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is
Blaðamenn: Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigurður Már Harðarson smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is
Auglýsingastjóri: Erla H. Gunnarsdóttir ehg@bondi.is – Sími: 563 0303 – Frágangur fyrir prentun: Prentsnið.
Netfang blaðsins (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Netfang auglýsinga er augl@bondi.is Vefsíða blaðsins er www.bbl.is
Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Landsprent og Íslandspóstur annast dreifingu blaðsins. ISSN 1025-5621
LEIÐARINN
Nú hækkar sól á lofti og maður fer
að komast í sólskinsskap. Samt er
stundum dapurt að fylgjast með
fúkyrðaflaumi og skítmokstri fólks
á fésbókinni.
Þar virðist ekki síst um að ræða
mjög vanstillt fólk sem telur sig
upplýstara en flesta aðra og setur
sig gjarnan á háan stall og þykist
langt yfir skítugan almenning
hafið. Nóbelsverðlaunastíla þessa
fólks mátti t.d. lesa eftir að opnuð
var fésbókarsíða Bændablaðsins í
vikunni. Sem dæmi þá varð þeim
ágæta manni Hrafni Jökulssyni á
að fara lofsamlegum orðum um
Bændablaðið í „kommenti“ sínu
um þessa síðu. Það var eins og við
manninn mælt að flóðgáttir upplýsta
fólksins opnuðust við skjall Hrafns
og út vall óhroðagröfturinn eins og
því fólki er öðrum betur lagið að
matreiða.
Þráinn Bertelsson skrifar:
„Heiladauður áróður og ofsóknaræði
gagnvart Evrópusambandinu
gegnsýrir þetta blað sem ég las að
staðaldri áður en það fór yfirum.“ –
Já, kannski spurning um hver hefur
farið yfir um?
Hin upplýsta fyrrv. þingkona
Samfylkingarinnar, Svanfríður
Jónasdóttir, bæjarstjóri á Dalvík,
setur inn fullyrðingu: „Ríkisstyrktur
áróður gegn ESB.“ Henni til
upplýsingar þá er Bændablaðið rekið
fyrir auglýsingatekjur en ekki með
fjármunum úr ríkissjóði.
Hinn mikli penni og fyrrv.
DV-ritstjóri og frístundabóndinn
Jónas Kristjánsson skrifar: „Allt á
kostnað skattgreiðenda.“ Það vafðist
samt ekki fyrir þessum frábærlega
pennafæra manni að leita ásjár
Bændablaðsins um árið. Þá þótti
honum blaðið frábær vettvangur
fyrir opnuumfjöllun enda þurfti
hann þá á því að halda að kynna fínu
hestabókina sína.
Egill Helgason skrifar:
„Leiðindablað.“ Egill, sem er eflaust
einn upplýstasti maður þjóðarinnar,
hefur samt ekkert farið dult með
að hann lesi aldrei Bændablaðið.
Hvernig veit hann þá að það sé
leiðinlegt?
Það voru samt miklu fleiri sem
skrifuðu jákvæðar athugasemdir um
Bændablaðið. Þannig skrifaði m.a.
Ágústa Ósk Jónsdóttir: „Gömul
bóndakona sendir þér þakkir, Hrafn.
Alveg gengur yfir mig hvað fólk getur
látið út úr sér ef minnst er á bændur.
Og hvenær varð Bændablaðið gefið
út á kostnað ríkisins? Sá má vera
laginn að ljúga sem lætur menn trúa.“
Með kærri kveðju til velunnara
Bændablaðsins sem og gagnrýnenda
með ósk um að þið megið öll eiga
gleðilega páska. /HKr.
LOKAORÐIN
Ár jarðvegsins
Sameinuðu þjóðirnar hafa ákveðið að helga
árið 2015 málefnum jarðvegsverndar og er
það virðingarvert. Það er að renna upp fyrir
heimsbyggðinni að til þess að fæða milljarða
manna í framtíðinni þarf að huga vel að
jarðveginum – moldinni og öllu því sem af
henni sprettur.
„Heilbrigður jarðvegur – heilbrigt líf“eru
einkunnarorð þessa framtaks Sameinuðu
þjóðanna. Jarðvegur er undirstaða stórs hluta
matvælaframleiðslu í heiminum hvort sem það
er ræktun matjurta eða búfjár.
Þurfum að taka okkur á
Afleiðingar aukins mannfjölda og umhverfisáhrif
vegna ræktunar og loftslagsbreytinga eru með
stærstu viðfangsefnum framtíðarinnar. Til þess
að jörðin sé byggileg þurfum við mennirnir að
taka okkur á og meðal annars finna lausnir til að
framleiða meiri mat. Þær lausnir mega þó ekki
vera á kostnað jarðarinnar.
Jarðvegurinn er undirstaða landbúnaðarins,
nauðsynlegur lífkerfinu og fæðuöryggi jarðarbúa.
Sjálfbær nýting og virðing fyrir því sem jörðin
gefur af sér er lykillinn að því að tryggja
fæðuöryggi til framtíðar.
Bændur um víða veröld berjast við vandamál
sem má meðal annars rekja til þess að ekki hefur
verið gætt nægilega vel að jarðvegsgæðum.
Loftslagsbreytingar og breytt veðurfar hafa
vissulega haft sitt að segja í því efni, en þær
breytingar eru líka af mannavöldum, þó með
öðrum hætti sé. Of mikið ræktunarálag, mengun,
ofnotkun á áburði, varnarefnum og einhæf ræktun
hafa víða leitt menn í ógöngur. Við höfum því
miður rýrt gæði jarðarinnar verulega og það er
eitt stærsta sameiginlega viðfangsefni okkar allra
að snúa þeirri þróun við. Það er og verður erfitt,
en ekki útilokað.
Hér á landi elds og ísa þekkjum við vel hvað
jarðvegurinn er mikilvægur og viðkvæmur.
Íslenskir bændur hafa gert sitt til þess að vernda
og byggja upp heilbrigðan og gjöfulan jarðveg. Þó
svo að hér sé nægt landrými til ræktunar, miðað
við þann landbúnað sem nú er rekinn í landinu,
þá verðum við að hafa í huga að við erum með
takmarkaða auðlind í höndunum og verðum að fara
vel með hana. Þar má nefna tvennt sem bændum
er hugleikið: landgræðslu og beitarstjórnun.
Saga skipulegrar landgræðslu á Íslandi nær aftur
til ársins 1907 þegar fyrstu lög um landgræðslu og
skógrækt voru samþykkt á Alþingi. Við þekkjum
öll árangur sem náðst hefur við að endurheimta
fyrri landgæði, til dæmis á Skeiðunum í Árnessýslu
þar sem nú er blómlegur landbúnaður en svartir
sandar ógnuðu búskap um tíma.
Bændur hafa tekið fullan þátt í baráttunni
gegn landeyðingunni
Íslenskir bændur hafa tekið fullan þátt í baráttunni
gegn landeyðingunni. Um 600 taka nú þátt í
landgræðsluverkefninu „Bændur græða landið“
með Landgræðslu ríkisins. Verkefnið hefur
verið starfrækt frá 1990, auk þess sem ýmsir
sinna afmörkuðum verkefnum í samstarfi við
landbótafélög, nágranna- eða sveitarfélög. Þessir
aðilar hafa með ötulu starfi á viðkvæmum svæðum
náð að hefta jarðvegseyðingu og klæða landið
gróðri á ný. Nú er talið að meira grói upp en
það sem eyðist og landið því í framför. Það er
mikið ánægjuefni. Bændur eru eins og að framan
greinir fjölmennur hópur landgræðslufólks
hérlendis. Miklu skiptir að það starf haldi áfram
og eflist. Því miður hefur oft komið upp núningur
á milli bænda og Landgræðslunnar í þessum
verkefnum eins og til dæmis hefur komið fram
á síðum Bændablaðsins. Það er höfuðnauðsyn að
Landgræðslan geri allt sem í hennar valdi stendur
til að hafa bændur með sér í þessum verkefnum. Á
það hefur stundum skort og það þarf að breytast.
Landbótastarfið þarf á því að halda.
Náttúruöflin stórtæk
Umfjöllun um þessi mál hefur vaxið í kringum
jarðhræringar og eldgos síðustu ára. Þar höfum við
séð hvernig milljónir tonna af jarð- og gosefnum
hafa fokið um hálendið, um ræktarlönd bænda
og út í hafsauga á stuttum tíma. Fyrirgangur
náttúrunnar hefur spillt stórum svæðum og
valdið margháttuðum vandamálum í búskap.
Nú í vikunni var haldið vel heppnað málþing
í Bændahöllinni um gosið í Holuhrauni og
afleiðingar þess. Þar kom meðal annars fram
að gosið var eitt af 10 stærstu eldgosum sem
þekkt eru í sögunni. Afleiðingar og áhrif þess eru
enn ekki ljós nema að litlu leyti og fjölmargar
rannsóknir eru enn í gangi, en fyrstu niðurstöður
benda til að neikvæð áhrif hafi verið minni en
vænta mátti.
Beitarálag hefur snarminnkað
á síðustu áratugum
Hluta ársins gengur sauðfé og að hluta til hross
á afrétt, upp til fjalla og inn til dala. Beitarálag
hefur snarminnkað á síðustu áratugum og beitinni
er stjórnað betur en áður var. Flestir bændur vinna
eftir ákveðinni gæðastýringu sem meðal annars
miðar að því að fara vel með landið. Minna álag
er á viðkvæm afréttarlönd og víða hafa menn
náð að græða upp og styrkja rýr svæði. Fækkun
sauðfjár hefur haft sitt að segja en einnig hafa
búskaparhættir breyst. Stærsta breytingin er að
vetrarbeit sauðfjár hefur lagst af, en hún olli
miklu álagi á landið á meðan hún tíðkaðist.
Fleiri bændur beita fé sínu á heimalönd eða
upprekstrarheimalönd, en talið er að tæpum
fjórðungi sauðfjár sé beitt á afréttarlönd.
Moldin er auðlind
Það er fagnaðarefni að umræða um mikilvægi
jarðvegsins sé nú komin á flug. Við þurfum í
sameiningu að fræða og auka vitund um mikilvægi
þessa málaflokks. Þjóðin tók vel undir um miðjan
níunda áratuginn þegar skógrækt og landgræðsla
voru í deiglunni hjá fjölmiðlum og í þjóðfélaginu
öllu. Fólk var meðvitað um gildi þess að rækta
og bæta landgæði. Þá stemmingu þurfum við að
endurvekja. Um leið þarf að ræða til hlítar um
landnýtingu og hvernig við viljum umgangast þá
auðlind sem felst í moldinni. /SSS
Sameinuðu þjóðirnar hafa
tileinkað árið 2015 moldinni og
hvetja aðildarþjóðir sínar til
að stuðla að vitundarvakningu
á mikilvægi jarðvegs og
jarðvegsverndar af því tilefni.
Opnunarhátíð Árs jarðvegsins
fór fram í Tjarnarbíói í gær. Sveinn
Runólfsson landgræðslustjóri
setti dagskrána og bauð gesti
velkomna. Því næst fluttu Sigrún
Magnúsdóttir umhverfisráðherra,
Sindri Sigurgeirsson, formaður
Bændasamtaka Íslands, Björn
Blöndal, formaður borgarráðs
Reykjavíkur, ávörp. Að því loknu
var heimildarmyndin Dirt! The
Movie sýnd en myndin sýnir
á áhrifaríkan hátt mikilvægi
jarðvegsins fyrir lífið á jörðinni.
Ólafur Arnalds, prófessor við
Landbúnaðarháskóla Íslands,
ávarpaði samkomuna að myndinni
lokinni og sagði frá sérstöðu
íslensks jarðvegs og kynnti nýja bók
sem hann hefir skrifað og nefnist
The Soil of Iceland.
Grundvöllur menningarinnar
Í ávarpi sínu sagði Sveinn meðal
annars að þrátt fyrir að jarðvegur væri
grundvöllur menningarsamfélaga
heimsins væri víðast illa farið með
hann og jarðvegur meðhöndlaður á
ósjálfbæran hátt. „Jarðvegseyðing
og jarðvegshnignun er talin ein
alvarlegasta ógn jarðarbúa. Sem
betur fer er þó jarðvegsvernd að
verða meira áberandi viðfangsefni
á til að mynda vettvangi Sameinuðu
þjóðanna því æ fleiri gera sér grein
fyrir því að með jarðvegsvernd
tryggjum við betra aðgengi að
vatni, aukum vernd á líffræðilegum
fjölbreytileika og drögum úr
áhrifum loftslagsbreytileika.“
Sigrún Magnúsdóttir umhverfis-
ráðherra sagði það við hæfi að árið
2015 væri tileinkað jarðveginum
eða moldinni. „Með því er verið
að leggja áherslu á mikilvægi
moldarinnar hvað varðar
fæðuöryggi og leiðir til að draga
úr loftslagsbreytingum er verið
að auka vitund þjóða heims á
jarðvegsvernd.“
Jarðvegur í borg
Í máli Björns Blöndal, formanns
borgarráðs Reykjavíkur, kom
fram að þrátt fyrir að finna mætti
margs konar jarðvegsgerðir innan
borgarmarkanna hefði til skamms
tíma lítið verið hugað að mikilvægi
varðveislu hans. „Í seinni tíð hafa
komið fram hugmyndir um að koma
upp jarðvegsmiðlun þar sem hægt
væri að leggja inn og nálgast jarðveg
og ýta þannig undir skynsamlega
nýtingu hans.“
Lesa má hluta af ávarpi Sindra
Sigurgeirssonar, formanns BÍ, í
leiðaranum hér á ofan. /VH
Af fúkyrðunum
þekkjast þau
2015 alþjóðlegt ár jarðvegsins:
Mikilvægi jarðvegsins ótvírætt
Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri og Sindri Sigurgeirsson, formaður
Bændasamtaka Íslands. Mynd / VH