Bændablaðið - 26.03.2015, Side 8
8 Bændablaðið | Fimmtudagur 26. mars 2015
Tjón af völdum eldsvoða
sem varð í garðyrkjustöðinni
Brúnalaug í Eyjafjarðarsveit
í liðinni viku hleypur á tugum
milljóna. Hreinsunarstarf hefur
staðið yfir síðustu daga. Hjónin
Anna Sigríður Pétursdóttir og
Gísli Hallgrímsson hafa rekið
garðyrkjustöðina frá árinu 1986
eða í tæp 30 ár. Þau segja áfallið
vissulega gríðarlegt, mikið starf sé
fram undan við hreinsun, tekjutap
sé fyrirsjáanlegt, en þau ætli á
næstu mánuðum að einbeita sér
að uppbyggingu stöðvarinnar.
Eldsupptök eru enn ókunn, en
Rannsóknarlögreglan á Akureyri
fer með rannsókn málsins. Grunur
beinist að því að bilun hafi orðið í
rafmagnsbúnaði.
Sá eldsúlurnar standa upp í loft
Anna vaknaði aðfaranótt
föstudagsins 20. mars, gekk að
vesturglugga íbúðarhúss síns og sá
þá eldsúlur stíga til himins upp frá
gróðurhúsunum og greinilegt að þau
stóðu í ljósum logum. Slökkviliðið á
Akureyri var þegar kallað á staðinn,
en tæplega 20 kílómetra leið er þaðan
og að Brúnalaug. Aðstoð fékkst frá
Slökkviliði Akureyrarflugvallar og
eins tóku félagar í björgunarsveitinni
Dalbjörgu þátt í verðmætabjörgun á
vettvangi að slökkvistarfi loknu.
Um er að ræða tvö samliggjandi
gróðurhús, hið stærra er tæplega
600 fermetrar að stærð en það
minna um 300 fermetrar. Á milli
þeirra var bygging þar sem allur
stjórnbúnaður var hýstur m.a. sá sem
stjórnar vökvunarbúnaði, búnaði
vegna kolsýru sem notuð er við
ræktunina, stjórnbúnaður fyrir ljós,
vigtar, pökkunarvél og heilmikið af
umbúðum. Allt varð þetta eldinum
að bráð. Sem og einnig varahlutir,
tæki og tól af ýmsu tagi sem nýtt voru
vegna starfseminnar.
„Við höfðum undanfarin ár komið
okkur upp góðum og öflugum búnaði
í garðykjunni en það má segja að við
höfum hrapað allt aftur til ársins
2006 hvað varðar tækjabúnað vegna
ræktunarinnar,“ segir Anna Sigríður.
Gleðidagur breyttist í martröð
Áhersla hefur verið lögð á
paprikuræktun, um 1700 plöntur voru
í stærra húsinu og til stóð að hefja
uppskerustörf á föstudag í liðinni
viku. „Við ætluðum að fylgjast með
sólmyrkvanum og hefjast síðan handa
og koma fyrstu sendingunni okkar á
markað þann daginn. Þetta átti svo
sannarlega að vera gleðidagur, en
hlutirnir fóru heldur betur á hvolf
og dagurinn varð líkastur martröð.
Fyrir utan eignatjón og fyrirsjáanlegt
tekjutap er þetta líka mikið
tilfinningatjón, það er afskaplega erfitt
að horfa upp á þessa eyðileggingu og
allt það starf sem hér hafði verið unnið
fara í súginn,“ segir Anna Sigríður.
Gerðu ráð fyrir að senda 6 tonn á
markað á næstu mánuðum
Áætlanir gerðu ráð fyrir að uppskera
næmi um 6 tonnum næstu þrjá
mánuði, þ.e. á tímabilinu frá lokum
mars og fram í júní. „En það er alveg
ljóst að uppskera þessa mánuði verður
lítil sem engin,“ segir Anna Sigríður.
Þegar er búið að sá fyrir nýrri uppskeru
og hennar má vænta á markað í júlí.
Ársframleiðsla á Brúnalaug hefur á
liðnum árum numið um 23 tonnum.
Tjón hefur ekki að fullu verið
metið, en Anna Sigríður segir að
það nemi tugum milljóna, slík sé
eyðileggingin. Stöðin er tryggð, en
á þessari stundu er ekki ljóst að hve
miklu leyti tjónið fæst bætt. „Það
eru alls konar óvissuþættir vomandi
yfir okkur og við vitum ekki strax
hvernig þetta fer allt saman. Það
þýðir hins vegar ekki að gefast upp
og við munum einbeita okkur að
hreinsunarstarfi og uppbyggingu
næstu mánuði,“ segir hún.
Mikil samkennd
Anna Sigríður segir ómetanlegt að
finna þann stuðning sem sveitungar,
vinir og vandamenn hafi sýnt frá því
eldurinn kom upp. Nágrannar hafi
margir hverjir komið og aðstoðað við
hreinsunarstarfið og kvenfélagskonur
komu færandi hendi með mat og kaffi
handa hjálparmönnum daginn eftir
brunann þegar ekki var rafmagn
heima við. Síðan hafi menn og konur,
nágrannar og vinir komið færandi
hendi. „Það er dásamlegt að finna fyrir
þessari samkennd meðal nágranna
sinna og sveitunga, það hleypir í mann
auknum krafti á erfiðum tímum og
fyrir það viljum við þakka kærlega.“
/MÞÞ
Fréttir
www.VBL.is
REYKJAVÍK Sími: 414-0000 /// AKUREYRI Sími: 464-8600 /// www.VBL.is
REYKJAVÍK
Krókháls 5F
110 Reykjavík
Sími: 414-0000
AKUREYRI
Baldursnes 2
603 Akureyri
Sími: 464-8600
GOTT ÚRVAL - HAGSTÆTT VERÐ
BEISLISHLUTIR - REKSTRARVÖRUR
Sjá nánar í vefverslun okkar á VBL.is undir beislishlutir
Eldsvoði í Garðyrkjustöðinni Brúnalaug í Eyjafjarðarsveit:
Mikið tjón en uppbygging hafin á ný
og uppbyggingu næstu mánuði,“ segir Anna Sigríður Pétursdóttir í Brúnalaug,
sem hér skoðar paprikuplöntu sem virðist ætla að koma til eftir eldsvoðann.
Til stóð að senda fyrstu uppskeru frá garðyrkjustöðinni á Brúnalaug á markað síðastliðinn föstudag. Eldur kom
upp nóttina á undan og gerði þær áætlanir að engu. Hér er unnið að björgunarstörfum. Myndir / MÞÞ
Tvö samliggjandi gróðurhús eru að Brúnalaug og á milli þeirra hús
ræktunarstarfsins þarf voru í millibyggingunni og eru þau ónýt.
Anna Sigríður við pökkunarvélina sem eyðilagðist, en í haugnum er líka
búnaður af ýmsu tagi sem er gerónýtur eftir eldsvoðann.
mikið tjón af völdum elds í liðinni viku.