Bændablaðið - 26.03.2015, Síða 16
16 Bændablaðið | Fimmtudagur 26. mars 2015
Árið 1919 gaf Guðmundur
Davíðsson frá Hraunum, bróðir
Ólafs þjóðsagnasafnara, út hefti
sem heitir „Íslendingabygð á
öðrum hnetti“.
Í heftinu, sem er tileinkað
dr. Helga Pjeturss með mestu
virðingu, pára framliðnir í
gegnum Guðmund lýsingu á
bústað sínum á öðrum hnetti.
Guðmundur segir að þeir sem
noti hönd sína séu faðir hans,
tengdafaðir og Ólafur bróðir
hans. Í heftinu er að finna
bráðskemmtilega og greinargóða
lýsingu á verustað Íslendinga
eftir að þeir yfirgefa þennan heim
og flytja á plánetuna Fjörgyn
eða Karitatata eins og hún
nefnist á handan heima íslensku.
Fjörgyn mun vera í 369 ljósára
fjarlægð frá jörðinni og í næsta
nágrenni við stjörnu sem nefnist
Aldebaram. Íslendinganýlendan
gengur í kringum tvær sólir og
kemur önnur upp þegar hin sest
þannig að íbúarnir búa við eilífan
dag.
Ólafur Davíðsson, bróðir
Guðmundar, er duglegur að skrifa
í gegnum hann og lýsa náttúrunni
á Fjörgyn. „Afarlangt frá okkur,
svo langt að við aðeins sjáum með
berum augum, er geysistór hnöttur
– sól.“ Sólin er svo stór að þótt
allt sólkerfi sem við búum í væri
horfið inn í hana miðja þá væri
ekki hálfnað út að brúnum hennar
frá ystu reikistjörnunni.
„Dýrin eru, mörg hver,
samskonar og hjá ykkur, og þar
er skemst frá að segja, að mörg
þeirra eru sömu dýrin, sem þið
hafið þekt og ykkur hefir þótt vænt
um.“ Ólafur segir Guðmundi
síðan að uppáhaldshesturinn
hans, reiðskjótinn Svanar, bíði
eftir honum í vörslu góðra manna.
Hann áréttar að öll dýr öðlist
ekki framhaldslíf og að örlög
sálar málleysingjans fari fyrir
margar nefndir sem annaðhvort
gefi þeim grænt ljós eða sameini
þau alheims sálinni og afmái
einstaklingsvitundina.
Af upprunalegum dýra-
tegundum á Fjörgyn skrifar
Ólafur um „nokkurskonar hesta,
sem eru með sex fótum. Þeir eru
miklu stærri en ykkar hestar; þeir
eru ákaflega meinlausir og ekki
eins greindir og ykkar hestar. Þeir
hafa fax eftir öllu bakinu og tagl
þeirra er mjög langt. Sjálf rófan
nær niður á konungsnef, og draga
þeir taglið, þegar það fær að vera
sjálfrátt. Eyrun eru mjög lítil og
sjást tæplega fyrir faxinu. Þeir er
fjögurra álna háir og gildir eftir
því.“ Á Fjörgyn eru einnig hyrndir
villihestar og skepnur sem líkjast
gíröffum sem ganga sjálfala á
völlunum.
Skáldið og náttúrufræðingur-
inn Jónas Hallgrímsson kemur
einnig við sögu í tengslum við
ósjálfráða skrift Guðmundar. Í
einu bréfi sem þjóðskáldið skrifaði
í gegnum hin andsetna ritara segir
Jónas frá garðinum sínum. „Ég á
í garðinum mínum blá blóm, með
gyltum, ekki gulum, kollum og
gylt, ekki gul, blóm með bláum
kollum. Sumar blómakrónurnar
eru 2–3 fet að þvermáli og sum
blómin ennþá stærri.“
Annar ónefndur rithöfundur
segir að í sínum garði séu raðir
af trjám. Í einni röðinni eru
nokkurs konar fíkjutré. Í annarri
brauðaldintré og í þeirri þriðju
kartöflutré. „Aldinin á því tré,
eða kartöflualdinin, sem við svo
nefnum eru lík kartöflunum ykkar
að útliti og á stærð við eins punds
kartöflu; en þeir eru dísætir og afar
ljúffengir.“ Ritandinn heldur áfram
og lýsir m.a. pálmatrjám, eikum og
trjám sem á vaxa gullepli. /VH
Íslendingabyggð
á öðrum hnetti
Ársfundur Hedemark Böndelag í
Noregi var haldinn17. mars undir
yfirskriftinni „Óhagkvæmur
með lélega framleiðni eða
heimsins besti landbúnaður.“
Aðalræðumaður var Robert
Larson, yfirmaður Lantbrukarnas
Riksförbund í Västra Götland og
Värmland í Svíþjóð. Benti hann
stjórnmálamönnum sem þarna
voru mættir, fundarhöldurum og
gestum á hvernig Noregur geti lært
af mistökum Svía í landbúnaði á
síðustu 30 árum.
„Þegar ég tala um sænska
landbúnaðarpólitík við ykkur
í Noregi þá dreg ég upp þessa
neikvæðu mynd, því þetta snýst um
það sem þið ættuð ekki að gera,“
sagði Larson og bætti við; „Do NOT
try this at home.“
Allar fullyrðingar um varanlegar
undanþágur eru rangar
Ummæli Larson vekja athygli í ljósi
fullyrðinga íslenskra aðildarsinna
um að hægt sé að fá sérlausnir
bæði í landbúnaðarmálum og
sjávarútvegsmálum í aðildar-
viðræðum við ESB. Þessu er
enn verið að halda fram og á því
byggist m.a. krafan um áframhald
viðræðna Íslands við ESB. Þetta er
þrátt fyrir að Stefán Füle, þáverandi
stækkunarstjóri ESB, hafi sett
ofan í við Össur Skarphéðinsson,
þáverandi utanríkisráðherra Íslands,
um slíkan skilning á viðræðunum
á blaðamannafundi 13. júní 2013
um gang viðræðna. Össur taldi þá
vel mögulegt að klæðskerasníða
reglurnar að þörfum Íslendinga
þannig að allir yrðu ánægðir. Þá
sagði Stefán Füle mjög skýrt: „Það
eru engar varanlegar undanþágur frá
regluverkinu.“
Staða sænsks landbúnaðar í
dag staðfestir, svo ekki verður um
villst, ummæli Stefán Füle. Það voru
veittar tímabundnar undanþágur
fyrir bændur í norðurhéruðum
Svíþjóðar og Finnlands. Þær eru
nú sem óðast að ganga til baka.
Afleiðingarnar eru skelfilegar ef
marka má orð Roberts Larson á
fundinum með norskum bændum
á dögunum. Þetta staðfesta einnig
fréttir af bændum í norðurhéruðum
Svíþjóðar að undanförnu þar sem
fram kemur að hundruð bænda eru
nú að gefast upp og hætta búskap
vegna versnandi samkeppnisstöðu
í kjölfar aðildar Svía að ESB.
Mikil mistök að ganga í ESB
Larson sagði það hafa verið mikil
mistök þegar Lantbrukarnas
Riksförbund varð meðlimur í
Evrópusambandinu við inngöngu
Svíþjóðar í janúar 1995. Ástæðan
er að þá hafi landbúnaðurinn verið
þvingaður upp að vegg eftir að
sænskir stjórnmálamenn höfðu
með grófum pólitískum aðgerðum
talið bændum trú um að fara út í
offramleiðslu á matvælum. Margir
hafi þá séð mikil tækifæri í því að
framleiða heilnæman mat í hreinni
sænskri náttúru til að selja inn á
markað ESB-landanna.
„Við vorum mjög barnaleg. Við
héldum að við gætum haldið uppi
hágæða matvælaframleiðslu fyrir
kröfuhörðustu og best borgandi
neytendurna eftir sameiningu við
ESB.“
Larson sagði að þetta hafi alls
ekki orðið raunin því allar götur
síðan hafi sænskur landbúnaður
verið á hraðri niðurleið. Afleiðingar
séu þessar:
• Nærri helmingurinn af öllu
rauðu kjöti sem selt er í Svíþjóð
kemur nú frá útlöndum.
• Mjólkurframleiðslan hefur
dregist stórlega saman þrátt fyrir
að neysla á mjólkurafurðum
hafi aukist.
• Mjólkursamlögin í Svíþjóð eru
ekki lengur í eigu Svía.
• Enginn landbúnaður eftir í
Svíþjóð árið 2050
Sagði Larson að ef áfram verði
haldið á sömu braut verði enginn
landbúnaður eftir í Svíþjóð árið
2050. Þá telur hann að framtíð
sænsks mjólkuriðnaðar verði mjög
dökk þegar mjólkurkvótar verði
afnumdir í ESB-löndunum. Nú sé
verið að afnema mjólkurkvótana
og mörg lönd innan ESB séu með
lægri framleiðslukostnað en sænskir
bændur. Þessir aðilar bíði nú við
dyrnar.
„Hvernig eiga sænskir bændur
að geta keppt við slíkt? Jú, við
getum framleitt mjólkurduft á
ódýrari máta en keppinautarnir
í hinum löndunum. Það er bara
vegna þess að raforkuverðið er enn
sem stendur lægra í Svíþjóð. Það
er þó lélegt haldreipi fyrir sænska
mjólkurframleiðendur sem eru ört að
tapa markaðshlutdeild sinni.“
Larson vara við þeim hugsunar-
hætti að það sé hægt að mæta
erlendri samkeppni með því einu
að bjóða upp á hreinar og öruggar
matarafurðir. Neytandinn setji
samasemmerki við hreina matvöru
og dýra matvöru. Þegar neytandinn
komi svo í búðina þá sé það ekki
hreinleiki vörunnar sem hafi
vinninginn, heldur vegi verðið
þyngst. − „Það á einnig við um alla
skapaða hluti aðra sem við höfum
opnað fyrir í Svíþjóð.“
Formaður norskra bænda varar
við tilslökun á verndartollum
Lars Petter Bartnes, formaður
norsku bændasamtakanna,
Norges Bondelag, varaði norsk
stjórnvöld sterklega við að slaka
á verndartollum. Þeir væru
langmikilvægasta vörn norskra
bænda fyrir tilveru sinni. Ef
slakað verði á tollum geti norskur
landbúnaður hæglega farið sömu leið
og sá sænski. Benti hann á að nú þegar
væri mikill halli á viðskiptajöfnuði
með landbúnaðarvörur við ESB-
löndin. Um 70% af innflutningnum
kæmi frá ESB-löndunum og þaðan
kæmi níu sinnum meira af vörum en
Norðmenn flytja til ESB-landanna.
Bartnes bað fundarmenn einnig að
hafa í huga það grundvallarsjónarmið
sem samtök norskra bænda byggði
tilveru sína á:
„Það er nauðsynlegt að sérhvert
land geti framleitt nægan mat til að
uppfylla fæðuöryggi þjóðarinnar.“
Þessi sjónarmið hafa norskir
stjórnmálamenn einmitt verið að
taka undir á liðnum misserum í ljósi
margvíslegrar viðsjár og mögulegra
hryðjuverka sem steðja að þjóðum
heims. Bent hefur verið á að ein
birtingarmynd slíks séu alvarleg
vandamál sem nú eru að koma upp
í finnskum og dönskum landbúnaði í
kjölfar viðskiptabanns ESB gagnvart
Rússum. /HKr.
Sænskur landbúnaður sýpur nú seyðið af Evrópusambandsaðild:
Landbúnaður í Svíþjóð í dramatísku
falli í kjölfar inngöngunnar í ESB
− Verður með öllu horfinn árið 2050, segir sænskur sérfræðingur og varar Norðmenn við að fara sömu leið
STEKKUR
Á ársfundi Lífeyrissjóðs bænda
3. mars voru kynntar nýjungar í
lánamálum sem sjóðurinn býður
sjóðfélögum.
Þær felast meðal annars í því að
heimilt verður að greiða eingöngu
vexti í byrjun lánstímans í allt
að fjögur ár og hægt verður að
velja um lán með mismunandi
greiðslufyrirkomulagi, lán með
jöfnum greiðslum eða lán með
jöfnum afborgunum.
Fram kemur í lánareglum
sjóðsins að heimilt er að greiða
eingöngu vexti í allt að fjögur ár
frá lántökudegi að vali lántaka ef
lánstími er a.m.k. til 25 ára, í þrjú
ár ef lánstími er a.m.k. 20 ár, í tvö
ár ef lánstími er 15 ár og í eitt ár ef
lánstími er 10 ár.
Með eingöngu vaxtagjalddaga
í byrjun lánstíma og vali á
jafngreiðsluláni, léttir á greiðslum
á fyrri hluta lánstímans þegar
greiðslubyrði ætti að vera sem
léttust, einkum þegar fjármögnuð
eru stór kaup, meðal annars við
nýliðun í landbúnaði.
Samanburður á vöxtum:
Samanburður vaxta bendir til þess
að vextir Lífeyrissjóðs bænda
séu sambærilegir vöxtum annarra
lífeyrissjóða. Vextir sjóðsins
af verðtryggðum lánum með
breytilegum vöxtum eru 3,85% en
3,7–4,5% hjá öðrum lífeyrissjóðum
og af lánum með föstum vöxtum
4,3% en 3,7–4,3% hjá öðrum
sjóðum. Vaxtakjör sjóðfélagalána í
Lífeyrissjóði bænda að því er varðar
rekstrarlán og lán til jarðakaupa
virðast hinsvegar talsvert lægri og
hagfelldari lántakanum en hjá öðrum
lánveitendum í landbúnaði.
Samanburður á greiðslubyrði:
Í töflunni er gerður samanburður
á mánaðarlegum greiðslum af 25
mkr. láni til 40 ára eftir því hvort er
valið, lán með jöfnum afborgunum
eða lán með jöfnum greiðslum og að
eingöngu eru greiddir vextir fyrstu
4 árin.
Nýjungar í lánamálum hjá Lífeyrissjóði bænda
Þetta línurit lýsir vel stöðunni í sænskum landbúnaði eftir inngöngu Svíþjóðar
ín ESB 1995. Síðan þá hefur stöðugt fjarað undan sænskum landbúnaði og
eina greinin sem heldur enn uppi þokkalegri framleiðslu er eggjaframleiðslan.
Allar aðrar greinar landbúnaðar hafa fallið verulega. Neðsta línan sýnir svo
ekki verður um villst að sauðfjárræktin er að verða að engu. Nautakjöts-,
alifuglakjöts- og Svínakjötsframleiðslan stefna hraðbyri sömu leið.
Mynd / hedmark Bondelag