Bændablaðið - 26.03.2015, Qupperneq 32

Bændablaðið - 26.03.2015, Qupperneq 32
32 Bændablaðið | Fimmtudagur 26. mars 2015 Í erindi sínu á ráðstefnunni Lífrænn úrgangur, bætt nýting, minni sóun, velti Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur fyrir sér spurningunni af hverju sveitarfélög ættu að huga að lífrænum úrgangi. Stefán telur ástæðurnar vera ferns konar en um leið nátengdar. 1) lagalegar, 2) umhverfislegar, 3) fjárhagslegar og 4) ímyndarlegar. Skylda samkvæmt lögum „Skyldur sveitarfélaga í úrgangsmálum eru tilgreindar í lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs með síðari breytingum, og nánar útfærðar í reglugerð nr. 969/2014 um (1.) breytingu á reglugerð nr. 737/2003, um meðhöndlun úrgangs. Þegar þessi ákvæði eru skoðuð er augljóst að sveitarfélög verða að láta sig þessi mál varða,“ segir Stefán. Í erindinu kom fram að samkvæmt lögunum skuli sveitarstjórn ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélaginu og bera ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs. Einnig skal sveitarstjórn sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem fellur til í sveitarfélaginu, eftir atvikum í samstarfi við aðrar sveitarstjórnir Lífrænn úrgangur er um 50% af öllum heimilisúrgangi og augljóst að lífrænn úrgangur hlýtur að vera framarlega í forgangsröð sveitarfélaganna. Sveitarstjórnir skulu setja sérstaka samþykkt um meðhöndlun úrgangs í sveitarfélaginu. Í slíkri samþykkt er heimilt að kveða á um fyrirkomulag sorphirðu, skyldu einstaklinga og lögaðila til að flokka úrgang, stærð, gerð, staðsetningu og merkingu sorpíláta og sambærileg atriði. Einnig segir að við sérstaka söfnun, flokkun og aðra meðhöndlun úrgangs skuli reynt að forðast að blanda honum saman við annan úrgang eða efnivið sem hefur aðra eiginleika ef það leiðir til þess að úrgangurinn verði ekki endurnýttur. Stefán benti á að markmið laganna væri að lífrænn heimilisúrgangur sem berst til urðunarstaða hafi, eigi síðar en 1. júlí 2020, minnkað niður í 35% af heildarmagni þess lífræna heimilisúrgangs sem féll til árið 1995 og að sveitarstjórnir bera ábyrgð á að þessu markmiði verði náð. Umhverfislegar ástæður Hvað umhverfislegar ástæður varðar er einkum tvennt sem skiptir máli að mati Stefáns. Nýting auðlindarinnar sem lífrænn úrgangur vissulega er og mengunin sem af honum hlýst. Að hans mati hefur fram til þessa verið lögð of mikil áhersla á úrgangsvandamálið í stað þess að líta fyrst og fremst á lífrænan úrgang sem hráefni. „Allt það sem við hendum hefur einhvern tímann verið keypt fyrir peninga og það að því skuli vera hent þýðir einfaldlega að okkur hefur mistekist að nýta það betur. Úrgangur er auðlind og hráefni á villigötum sem við getum nýtt betur. Sem dæmi um þetta má nefna að áætlað er að árlega fari 1,2 til 2 milljarðar tonna af matvælum til spillis í heiminum. Þegar kemur að íslenskum fjölskyldum þá erum við að henda mat fyrir 150 til 300 þúsund krónur á ári á hverju meðalheimili.“ Stefán segir að við séum ekki eingöngu að sóa matvælum því að 9% ferskvatnsbirgða heimsins séu uppurnar og um 30% fiskistofna í hafinu séu ofveiddir. Annað dæmi sem fáir hafa velt fyrir sér er að vinnanlegur fosfór í heiminum er að verða búinn og er jafnvel talið að fosfórskortur verði farinn að há okkur innan 25 ára. Lönd sem framleiða fosfór eru sum hver hætt að flytja hann út. Sé litið á úrgangshliðina þá getur lífrænn úrgangur sem ekki er nýttur mengað grunnvatn, yfirborðsvatn og jarðveg,“ segir Stefán. Fjárhagslegar ástæður Meðhöndlun úrgangs er stór kostnaðarliður í bókhaldi sveitarfélaga og aðeins hluti kostnaðarins er sýnilegur í sorphirðu og urðun. Stefán segir að sá hluti kostnaðarins sem er ósýnilegur felist í samfélagslegum kostnaði við úrgangsmeðhöndlun og glötuðum atvinnutækifærum vegna þess að úrgangurinn sé ekki nýttur. „Það eru gríðarleg tækifæri í endurvinnsluiðnaðinum og meðal annars hægt að vinna ensím, fóður, jarðveg og orkugjafa úr lífrænum úrgangi,“ segir Stefán. Orðspor skiptir máli Hvað ímyndarlegar ástæður varðar þegar kemur að nýtingu á lífrænum úrgangi segir Stefán að góð meðferð á úrgangi skipti að öllum líkindum máli fyrir búsetu fólks og það hvort ferðamenn vilji sækja viðkomandi sveitarfélag heim. Að lokum segir Stefán að sveitarstjórnum nægi ekki að velta fyrir sér lagalegum, umhverfislegum, fjárhagslegum og ímyndarlegum ástæðum í nútímanum heldur þurfi þær að horfa til framtíðar þegar kemur að umgengni við úrgang. /VH Lífrænn úrgangur – bætt nýting, minni sóun: Af hverju ætti sveitarfélag að velta lífrænum úrgangi fyrir sér? Mynd / VH Gunnarsholt: Lífrænn úrgangur – bætt nýting, minni sóun Landgræðsla hýsti ráðstefnu að Gunnarsholti á Rangárvöllum 20. mars síðastliðinn. Á ráðstefnunni var fjallað um stöðu og þeim möguleikum sem felast í nýtingu lífræns úrgangs, meðal annars til skógræktar og landgræðslu. Sigrún Magnúsdóttir ávarpaði ráðstefnuna og lýsti ánægju sinni með að Landgræðslan stæði fyrir ráðstefnu um jafn þarft málefni og nýtingu á lífrænum úrgangi. Með þeirra sem héldu erindi á ráðstefnunni var Lúðvík E. Gústafsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og nefndist erindi hans Úrgangur eða hráefni, úrgangur í dag, neysluvara á morgun. Guðmundur Ólafsson frá Orkugerðinni sagði frá leiðum sem farnar hafa verið í nýtingu á lífrænum úrgangi á Suðurlandi. Björn Halldórsson frá Sorpu sagði frá nýrri gas- og jarðgerðarstöð á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem Laufey Guðmundsdóttir, lögfræðingur hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, og Lúðvík E. Gústafsson fjölluðu um stefnumótun ríkis og sveitarfélaga. Aðstandendur ráðstefnunnar voru Sorpurðun Vesturlands, Molta ehf., Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga ásamt Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins. / VH Mynd / VH

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.