Bjartur og frú Emilía: tímarit um bókmenntir og leiklist - 01.07.1991, Blaðsíða 31
Ég stóð upp og sá dökka útlínumynd hennar við gangaendann.
Hún gekk í ofbirtu hægt meðfram síkisbakkanum. Ég gat ekki
hlaupið hratt því ég sá ekki veginn framundan. Því meir sem ég
nálgaðist sólarljósið við enda ganganna því erfiðara var að sjá. Jane
var nærri því komin út úr göngunum. Þegar hún heyrði fótatak
mitt nálgast, leit hún við og rak upp einskonar gelt. Hún tók til
fótanna en hrasaði um leið. Það var erfitt að átta sig á hvað hafði
gerst þaðan sem ég var, dökk útlínumynd hennar sem bar við
himin hvarf skyndilega niður í sortann. Þegar ég kom að henni lá
hún á grúfu með vinstri fótinn fyrir utan slóðann, nærri því út í
síkinu. í fallinu hafði höfuðið skollið í götuna og hún var með kúlu
fyrir ofan hægra augað. Hægri hönd hennar teygði sig fram, næstum
því út í sólarljósið. Ég hallaði mér upp að andliti hennar og hlustaði
á andardráttinn. Hann var djúpur og reglulegur. Augun voru alveg
lokuð og augnhárin enn tárvot. Mig langaði ekki lengur að koma
við hana, nú hafði það allt sprautast út, niður í síkið. Ég strauk
óhreinindin framan úr henni og aftan af rauða kjólnum.
„Heimska stelpa," sagði ég, „engin fiðrildi." Síðan tók ég
hana varlega upp, ofurvarlega, eins og til að vekja hana ekki og lét
hana svífa hljóðlega niður í síkið.
Oftast sit ég á tröppum bókasafnsins, mér finnst það betra en
að fara inn og lesa bækur. Maður lærir meira fyrir utan. Ég sat þar
núna seinnipart sunnudags, hlustaði á hjartslátt minn róast og
verða aftur eins og hann er dagsdaglega. Aftur og aftur hugsaði ég
um það sem gerst hafði og hvað ég hefði átt að gera. Ég sá steininn
fleyta kerlingar eftir götunni og hvernig ég tók hann laglega niður
með fætinum, nærri því án þess að snúa mér við, þakkaði lófatak
þeirra með örlitlu brosi. Svo hefði ég átt að sparka steininum til
baka eða enn betra hefði verið að stíga yfir hann og ganga
kæruleysislega til þeirra og síðan þegar boltinn kæmi til baka hefði
ég verið með, einn af þeim, í liði. Ég spilaði á götunni með þeim á
hverju kvöldi, lærði nöfn þeirra og þeir mitt. Að degi til myndi ég
sjá þá niður í bæ og þeir myndu kalla á mig þvert yfir götuna, koma
síðan yfir og spjalla. Þegar leikurinn er búinn kemur einn þeirra til
Tímarit um bókmenntir og leiklist
31