Bjartur og frú Emilía: tímarit um bókmenntir og leiklist - 01.07.1991, Page 47

Bjartur og frú Emilía: tímarit um bókmenntir og leiklist - 01.07.1991, Page 47
einfalt og algilt mynstur. f riti sínu Um skáldskaparlistina segir Aristóteles að harmleikurinn sé „ekki eftirlíking fólks, heldur athafna og lífs"1 — með öðrum orðum eftirlíking athafna sem ljá mannlegu lífi form og merkingu. Þetta athafnamynstur er að finna í hinum fornu goðsögnum hjá Hómer og víðar, það er að segja í sögnum sem taldar voru tjá og túlka reynslu kynstofnsins með svo sjálfsögðum og óhjákvæmilegum hætti, að ekki virðist haf a hvarflað að Aristótelesi að fjölyrða um það efni. Munurinn á goðsögnum (mýtum) og þjóð- sögum er einkum sá, að goðsagnir flytja samfélaginu sannindi sem eru því mikilvæg, ef ekki lífsnauðsynleg, hvort heldur er um guði þess, sögu, löggjöf eða stéttaskiptingu. Þær tengja manninn hringrás náttúrunnar og afhjúpa jafnframt öflin sem eru að verki í innstu fylgsnum sálarinnar og samskiptum manna á milli. Þegar fjallað er um eða horft á grísku harmleikina erum við komin í tæri við reynslu sem er svo djúplæg, svo víðtæk og svo endanleg, að segja má að við séum leidd útá ystu nöf mennskrar vitundar—ef ekki beinlínis útf yrir mörk hugsunarinnar—og séum stödd á þeim viðsjála og brigðula vettvangi þarsem ýtrasta átak hugsunarinnar gengur í samband við brýnustu og veigamestu þætti mennskrar reynslu. Varðveittir harmleikir Þó sáralítið sé vitað um rætur grísku harmleikjanna framyfir það að þeir voru færðir upp á árlegri hátíð vínguðsins Díónýsosar í Aþenu um mánaðamótin mars-apríl, sem harðstjórinn Písistratos stofnaði til kringum 530 f .Kr., og eigum einungis 31 harmleik varðveittan að viðbættum einum „púkaleik", þá fer ekki milli mála að þeir hljóta að hafa þróast ört á þeim 30 árum sem liðu frá fyrstu Díónýsosar- hátíðinni þartil fyrsti þríleikur Eskýlosar var sviðsettur árið 499. Eskýlos samdi ríflega 60 harmleiki, og af þeim hafa einungis 7 varðveist,2 sá elsti, Persar, frá árinu 472 (eini varðveitti harmleikur sem fjallar um samtímaviðburði), tæpum 60 árum eftirað hátíðahöldin hófust. Við eigum því engan harmleik frá fyrstu 60 árum Díónýsosar-hátíðarinnar, en varðveittir harmleikir spanna einungis 66 ár. Sófókles samdi 90 harmleiki, en aðeins 7 þeirra eru Tímarit um bókmenntir og leiklist 47

x

Bjartur og frú Emilía: tímarit um bókmenntir og leiklist

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bjartur og frú Emilía: tímarit um bókmenntir og leiklist
https://timarit.is/publication/1206

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.