Morgunblaðið - 02.01.2016, Síða 74
74 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 2.1. 2016
„Hann var rómantíker og hafði fölskvalausa
trú á list. Hún var honum heilög,“ skrifar Guð-
mundur Andri Thorsson rithöfundur í hrífandi
bók, Og svo tjöllum við okkur í rallið, um Thor
Vilhjálmsson, föður sinn. Hann bætir við að
Thor „starfaði alla tíð í anda þess meginsjón-
armiðs að listin væri æðst alls þess sem menn-
irnir taka sér fyrir hendur“. Thor trúði því að
innst í manninum væri ljós og að listin væri sú
iðja sem leysti úr læðingi þetta guðlega afl.
Það er falleg trú, sem ég get fyllilega sam-
samað mig með, og óskandi væri að fleiri
tækju hana; samfélagið gæti ekki annað en
orðið betra, fólkið víðsýnna, umburðarlyndara
og skilningsríkara. Skapandi listamenn endur-
spegla samtíma sinn og samfélagið, óháðir og
vitaskuld ögrandi á stundum; það er hlutverk
þeirra að hreyfa við okkur, fá okkur til að
hugsa, setja hlutina í samhengi, að hrinda okk-
ur út úr sófanum sem við viljum hola okkur
niður í og hafa allt þar eftir okkar höfði. En
listamennirnir geta líka fært okkur fegurðina
og rósemdina, leikið á allan tilfinningaskalann
innra með okkur og örvað skilninginn á því
hvað það er að vera maður, með öllum þeim
gæðum, og skyldum, sem því fylgja.
Annars undrast ég oft trúleysi fólks þegar
kemur að listum. Margir virðast hafa þá und-
arlegu afstöðu að listir séu aðeins dægradvöl,
afþreying, en ekki það sem þær eru, svo vitnað
sé í lýsinguna á Thor: kjarni þess að vera mað-
ur. Og umræðan ber þess iðulega merki.
Á árinu var boðið upp á margt forvitnilegt
og gefandi í listalífinu á Íslandi sem hægt væri
að lofa og þakka, ræða á dýptina um enn fleira,
og spyrja sífellt: hvernig tókst til og hvert leið-
ir það okkur? Og velta líka vöngum yfir
frammistöðu listamanna okkar sem bestu og
mikilvægustu sendiherra þjóðarinnar.
Þegar ég hugsa til ársins sem er að líða og
eftirminnilegra upplifana þar sem listamenn
sköpuðu nýja og mikilvæga heima með verk-
um sínum, þá minnist ég allnokkurra tónleika
sem hreyfðu við sálartetrinu. Í vor var opnuð í
helsta vígi nútímamyndlistar á Vesturlöndum,
MoMA í New York, sýning helguð listsköpun
Bjarkar Guðmundsdóttur og staðfesti enn og
aftur hvað það lýsir mikilli birtu af verkum
þessarar einstöku listakonu á dægurmenningu
samtímans. Sýningin var brokkgeng en það
besta og áhrifamesta var tónlistin sjálf og sú
umgjörð sem henni hefur verið búin í mynd-
bandsverkum. En tveimur dögum eftir opn-
unina steig Björk á svið Carnegie Hall í New
York og frumflutti tónlistina af nýrri plötu,
Vulnicura; iðulega nístandi sáran en opinskáan
lagaflokk um sambandsslit, og gerði það af
gríðarlegum krafti, hugrekki og andríki.
Og ekki þurfti að elta Íslendinga af landi
brott til að upplifa innilegan flutning á hinni
dýru list; flutningur Bryndísar Höllu Gylfa-
dóttur á sellósvítum J.S. Bach á vegum
Kammermúsíkklúbbsins var sælustund, og þá
hafa góðir gestir heldur betur náð að reisa höf-
uðhárin í Hörpu: tilhugsunin ein um flutning
hins rússneska Trifonovs og Lundúnafílharm-
óníunnar á 2. píanókonserti Rachmaninoffs í
Eldborgarsal Hörpu í haust vekur enn gæsa-
húð. Og hugsa sér: Að ekki hafi verið húsfyllir
á þessum tvennu makalausu tónleikum hinna
góðu gesta. Það er ekkert annað en skandall…
Deilt um lokaða sýningu
Furðulítið fór fyrir því í íslenskum fjölmiðlum
að í Sviss var í haust hin metnaðarfulla listahá-
tíð CultureScapes helguð íslenskri listsköpun.
Undirritaður upplifði sjálfur þar hvað hátíðin
var viðamikil og kastljósið skært sem beint var
að ólíkum íslenskum listamönnum, og hvað
framlag fólks var almennt vandað og áhuga-
vert. Starfsfólk hátíðarinnar ytra hafði á orði
að hin fyrri ár hefðu fjölmiðlar landanna sem
kynnt eru hverju sinni verið duglegir að mæta
en svo var ekki nú. Getur verið að Íslendingar
vilji ekki vita hvað listamenn þeirra eru að fást
við á erlendri grundu – þótt það séu þessir
sömu listamenn sem móta ímynd okkar og
sögu, þeir sem túlka líf okkar hér á eyjunni í
norðri og gera okkur í raun að þjóð?
Annar merkisviðburður sem hefur farið of
lágt hér heima er hin umfangsmikla sýning á
verkum eftir Ragnar Kjartansson í Palais de
Tokyo í París. Erró hefur verið að í áratugi,
lúsiðinn og slakar ekkert á, verk Ólafs Elías-
sonar eru á allrahanda sýningum víða um lönd,
svo sómi er að, en fjölbreytileg verk Ragnars,
þar sem unnið er með menningararfinn,
mennskuna og listina á áhugaverðan hátt,
njóta sívaxandi og verðskuldaðrar athygli víða
um heimsbyggðina.
Þar til listnemi dvaldi í kassa sínum í viku
undir lok árs, svo úr varð forvitnilegt sam-
ræðuverk á samfélagsmiðlum, snerist mynd-
listarumræða á Íslandi einkum um verk sem
fæstir höfðu séð, því miður, því innsetningin í
íslenska skálanum á Feneyjatvíæringnum,
Moska Christophs Büchel, var að mörgu leyti
merkilegt verk. Því miður var skálinn opinn
allt of stuttan tíma, fyrir tilstilli öfgamanna í
borginni. Hvar skyldi hættan hafa falist? Hjá
kristnum öfgamönnum? Varla múslimum því
markmiðið með þessari fallegu og raunsæis-
legu innsetningu var að fræða okkur um trú
þeirra, hjálpa okkur að skilja hana betur og
taka afstöðu. Umræðuna vantaði þó ekki og
mun hinn lokaði íslenski skáli hafa fengið hvað
mesta athygli þjóðarskálanna í ár.
Fjölbreytilegir hátindar lestrarársins
Loks að bókmenntunum. Bestu höfundar þjóð-
arinnar sýndu enn og aftur hvað þeir eru færir
um að skapa áhugaverða heima. Þá var ljóða-
útgáfan framúrskarandi og sýndi ánægjulega
ólík tök skálda á ýmsum aldri á þessu kjarna-
formi sköpunar með tungumálið.
Eins og gengur voru hátindar lestrarársins
nokkrir og má þar nefna ánægjulega útgáfu
Listamanns á söguslóðum um leiðangra Jó-
hannesar Larsen um Ísland, hina fyrrnefndu
og hrífandi bók Guðmundar Andra, Geirmund-
ar sögu heljarskinns eftir Bergsvein Birgis-
son, sem kalla má afrek í frumlegri úrvinnslu á
sagnaarfinum, Endurkomuna, vel fléttaða per-
sónusögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar, og Stóra
skjálfta Auðar Jónsdóttur, bók sem sýndi að
hún hefur sífellt betri tök á forminu. Mín eftir-
minnilegasta listræna upplifun á árinu var þó
lestur Eitthvað á stærð við alheiminn, seinni
hluti ættarsögu Jóns Kalmans Stefánssonar.
Höfundurinn hefur traustari tök en nokkru
sinni á sínum makalausa ljóðræna og flæðandi
stíl og þegar við bætast meistaralega sögð
saga sem er sönn, persónuleg en líka nístandi
sár, þá nær höfundurinn glæstu og eftir-
minnilegu flugi. Með listamenn sem þessa í
hlutverki sendiherra þjóðarinnar ætti hún
ekki að vera í neinum vanda. Eða hvað?
Verk Ragnars Kjartanssonar hafa verið áberandi og rís þar hæst viðamikil sýning í Palais de
Tokyo í París. Ragnar kom einnig fram með stjörnuhljómsveit sinni á CultureScapes í Sviss.
Morgunblaðið/Einar Falur
Við opnun sýningar Bjarkar í MoMA horfa gestir á tilkomumikið myndbandsverk eftir Andrew
Thomas Huang sem MoMA pantaði sérstaklega fyrir sýninguna, við lagið Black Lake.
Morgunblaðið/Einar Falur
Innsetning með verkum Rögnu Róbertsdóttur í náttúrusögusafninu í Basel var einn fjölmargra
dagskrárliða með íslenskri listsköpun á listahátíðinni CultureScapes í Sviss nú í haust.
Morgunblaðið/Einar Falur
SENDIHERRAR ÞJÓÐAR
Skapandi listamenn endur-
spegla samtíma sinn og
samfélagið á hverjum tíma
og það er hlutverk þeirra að
hreyfa við fólki, fá það til að
hugsa. Á árinu hefur allra-
handa listsköpun kallað hér
á umræðu og oftast nær fylli-
lega verðskuldað.
Einar Falur
Ingólfsson
er umsjónarmaður menn-
ingarefnis í Morgunblaðinu.
Hann er bókmenntafræð-
ingur með mastersgráðu í
myndlist frá SVA í New
York. Þá er hann höfundur
allnokkurra bóka og sýn-
ingar á ljósmyndaverkum
hans hafa verið settar upp í
sýningarsölum víða
ÍSLENSKIR LISTAMENN KOMU VÍÐA VIÐ Á ÁRINU, OFT MEÐ EFTIRTEKTARVERÐUM ÁRANGRI
ıTU
RN
IN TS ı 2014ı TU
P
O
INTSı20RNIN
G
PO
IN
14
TU
RNIN
G POINTS|TÍM
AM
Ó
T|2016|TURNINGPOI
TS
|T
ÍM
AM
Ó
T|
20
16
|