Morgunblaðið - Sunnudagur - 03.04.2016, Blaðsíða 17
3.4. 2016 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17
sinnum og svo kom barnið,“ segir hún en með
henni í Ligeglad leika Helgi Björnsson og Vign-
ir Rafn Valþórsson. „Hann er besti vinur minn,
Vignir,“ segir hún.
Ég spyr hvort hún sé að leika sjálfa sig eða
karakter sem hún hefur þróað en báðar heita
þær Anna og eru uppistandarar. „Já, þetta er
kannski svolítið líkt uppistandskarakternum
mínum. Hún er bara svolítið vitlaus og inn við
beinið er hún ógeðslega óörugg og líður illa.
Drekkur allt of mikið og langar að einhver elski
sig. Sem er líka hluti af mér, þegar ég var ein í
sex ár var ég bara alltaf að djamma og leita að
kærasta. Skilurðu, við höfum öll verið þarna.
En hún er bara ennþá þar. Þetta er bara önnur
útgáfa af mér. Þetta er bara ég fyrir nokkrum
árum,“ segir hún og skellihlær. „Ég segi ekki
svona dónalegt við fólk en hún bara veit ekki
betur.“
Getur alltaf varið hina Önnuna
Eftir fyrsta þáttinn af Ligeglad hefur fólk verið
að tjá sig á samfélagsmiðlum og er meirihluti
ánægður, segir Anna Svava. „Ég hef bara heyrt
sjúklega gott en aðeins of mikið því ég verð smá
stressuð að þetta myndi þá falla, skilurðu,“ seg-
ir hún. „Á twitter var 95% jákvætt.“
Uppistandarinn Anna í Ligeglad er ekkert
sérlega góð við Vigni vin sinn, bendi ég henni á.
„Já, en ég er skotin í honum og þetta er vinur
minn. Ég varð að losna við hana (kærustu Vign-
is). Ég er bara að hugsa um Vigga!“
Hún skellir allt í einu upp úr. „Ég get alltaf
varið hana! Ég er að verja hana en hún er al-
gjör tík! En hún er búin að fitna ógeðslega mik-
ið og kúkaði á sig í uppistandinu. Vorkennirðu
henni ekki smá?“ spyr hún mig. Ég umla eitt-
hvað og hún heldur áfram. „Maður fær líka
samúð með henni, hún er svo misheppnuð,“
segir Anna Svava en hún segir að þau hafi rifist
mikið um það hversu langt þau ættu að ganga
með persónuna Önnu, hversu mikil tík hún ætti
að vera. Ég nefni að persónan sé frekar óþol-
andi. „Bíddu bara, þú átt eftir að hata hana.
Hún er ótrúlega óþolandi. Hún er samt
skemmtileg en ég myndi ekki treysta henni, al-
gerlega ekki,“ segir Anna Svava um Önnu.
Helgi Björnsson leikur „sjálfan sig“. „Ég
held hann verði aldrei kallaður annað núna en
Helgi fucking Björnsson,“ segir Anna Svava og
hlær. „Þetta er eins og með Önnu, Helgi er ekk-
ert svona. Viggi er ekkert svona,“ segir hún.
„Mér finnst flott hjá Skarphéðni á RÚV að
taka sénsinn á svona þætti,“ segir hún en mörg-
um mun finnast þættirnir fara yfir strikið. Það
er spurningin, hvar er strikið hjá þér? Fólk
þarf þá ekkert að horfa,“ segir Anna Svava en
hún er sjálf mjög ánægð með þættina. Segja má
að þetta sé nokkurs konar fjölskylduverkefni
því bróðir hennar, Arnar Knútsson hjá Filmus,
framleiðir þættina ásamt Karli Pétri Jónssyni.
Ísbúðin Valdís sló í gegn
Talið berst að ísbúðinni Valdísi sem þau Gylfi
eiga og reka saman. Það er ævintýri sem hana
óraði ekki fyrir að myndi vinda svona upp á sig.
Anna Svava byrjar á byrjuninni. Hún segir frá
því að Gylfi hafi búið í Danmörku í áraraðir og
starfað þar sem kokkur. Hann hafi svo skilið og
flutt heim með annan af tveimur sonum sínum.
„Hann var atvinnulaus þegar ég kynntist hon-
um, bjó hjá mömmu sinni og pabba í Keflavík.
Svaf í gamla herberginu sínu með strákinn uppi
í hjá sér,“ segir hún og hlær. „Hann keyrði um
á litlum bíl eins og hárgreiðslukonur eiga.“
Hún segir hann hafi þá fengið þá hugmynd
að læra að búa til ís og opna ísbúð. Það varð úr
og þau fengu húsnæði úti á Granda. „Ég var bú-
in að hanna skrifstofu á efri hæðinni sem ég
ætlaði að nota á daginn til að skrifa og EF ein-
hver skyldi koma að kaupa ís gæti ég hlaupið
niður og afgreitt, hjálpað Gylfa. Síðan nátt-
úrlega gat ég aldrei notað þessa skrifstofu!“
segir hún og hlær.
Velgengni Valdísar hefur farið fram úr
þeirra björtustu vonum en þau bjuggust ekki
við þessum miklu vinsældum. „Nei, ertu að
grínast, bara alls ekki! Gylfi er bara snillingur.
Við vorum líka einstaklega heppin að fá þetta
húsnæði. Þegar við opnuðum vorum við ekki
búin að ráða neina starfsmenn. Þetta átti bara
að vera ég og hann en það endaði með að bróðir
minn tók að sér peningamálin, mamma var í
uppvaskinu og mamma Gylfa að baka vöfflur.
Allir ættingjar okkar voru að vinna þar til við
gátum ráðið fólk,“ segir hún. Í dag vinna þar
fimm í fullri vinnu og 32 í hlutastörfum.
Kvikmyndin Leynibrúðkaup
Önnu Svövu fellur ekki verk úr hendi því á milli
þess sem hún borgar út laun, hoppar upp á svið,
stjórnar veislum og sér um lítið barn er hún
varaformaður hjá SPES, hjálparsamtökum í
Tógó í Afríku. Einnig hefur hún verið að skrifa
handrit að kvikmynd sem á að bera nafnið
Leynibrúðkaup. Myndin verður rómantísk
gamanmynd byggð á brúðkaupi vinkonu henn-
ar sem var haldið leyndu fyrir brúðinni fram á
brúðkaupsdag. „Hún verður í anda Bridget
Jones,“ segir Anna Svava en hún og Arnór
vinna að handritinu saman. „Mig langar mikið
að fara til Danmerkur að læra handritsgerð,
það er á to-do listanum.“
Anna Svava ætlar ekki að leika í myndinni en
er ákveðin í að ónefnd vinkona hennar muni
leika hana sjálfa. „Ég er að skrifa fleiri handrit.
Ég held að allir sem eru að skrifa handrit séu
með svona fimm, sex handrit í skúffunni,“ segir
hún. „En þessi bíómynd er það næsta sem ég
ætla að gera. En svo veit maður ekki hvernig
lífið er. Það gæti verið önnur Valdísarbúð, ég
gæti orðið ólétt, ég gæti lent í hjólastól, ég gæti
gert seríu tvo af Ligeglad. Pældu í því, ég gæti
kannski orðið ólétt að tvíburum!“ segir hún og
hlær. Eða þríburum! sting ég upp á. „Já! En
svo er á dagskrá að starta sumrinu í Valdísi og
gera það vel,“ segir Anna Svava sem borðar
einungis ís sem heitir danskur lakkrís. „Planið
er að starta sumrinu og fara í fellihýsið og
ferðast um landið,“ segir Anna Svava. „Oh, ég
er svo spennt!“ Hún lætur sig dreyma. „Smurð-
ar samlokur; alltaf í sömu gallabuxunum; ferð
bara í sund; úti allan daginn; grilla. Maður sef-
ur svo vel og vaknar við fuglasöng,“ segir Anna
Svava sem er komin hálfa leið í huganum út í ís-
lenska sumarið.
Við förum að slá botninn í samtalið og ég
spyr hvort ég sé að gleyma einhverju. „Ég er
góð manneskja!“ segir hún að lokum og skelli-
hlær sínum smitandi hlátri.
Það var oft mikið stuð í tökum í Danmörku. Móðir Önnu Svövu, Ásthildur Kjartansdóttir, sést hér
með dóttur sinni og tengdasyni í danskri rigningu.
Vignir Rafn, Anna Svava og Helgi Björnsson eru tríóið sem ferðast um Danmörku saman. „Ég held
hann verði aldrei kallaður annað núna en Helgi fucking Björnsson,“ segir Anna Svava.
Vignir Rafn Valþórsson leikur stórt hlutverk í Ligeglad en hún og Anna Svava eru bestu vinir.
’Hún er bara svolít-ið vitlaus og inn viðbeinið er hún ógeðslegaóörugg og líður illa.
Drekkur allt of mikið og
langar að einhver elski
sig. Sem er líka hluti af
mér, þegar ég var ein í
sex ár var ég bara alltaf
að djamma og leita að
kærasta.