Morgunblaðið - 03.06.2016, Blaðsíða 48
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 3. JÚNÍ 2016
Forsetakosningar verða laugardaginn 25.
júní. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar
hófst 30. apríl. Sá sem kjörinn verður tekur
við embætti við hátíðlega athöfn í Alþingis-
húsinu 1. ágúst. Frambjóðendur eru að
þessu sinni níu og hafa aldrei verið fleiri.
Þeir eru Andri Snær Magnason, Ástþór
Magnússon, Davíð Oddsson, Elísabet Jök-
ulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Halla
Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir, Sturla
Jónsson og Guðrún Margrét Pálsdóttir.
Blaðamenn Morgunblaðsins hafa undan-
farna daga hitt alla frambjóðendur að máli
og birtist afraksturinn í heilsíðuviðtölum
við hvern og einn hér á næstu síðum. Fram-
bjóðendur völdu staði sér hugleikna til
myndatöku. Með þessari kynningu vill blað-
ið auðvelda lesendum að móta afstöðu sína
til forsetaefnanna áður er gengið er til
kosninga.
Yfirleitt mikil þátttaka
Kjörskrár forsetakosninganna eiga að
liggja fyrir ekki síðar en 15. júní. Er líklegt
að nærri 240 þúsund kjósendur hafi at-
kvæðisrétt. Þeir voru um 236 þúsund fyrir
fjórum árum. Þátttaka í forsetakosningum
hefur yfirleitt verið mjög góð. Í fyrsta
skipti sem kosið var, árið 1952, var kjör-
sóknin 82% en um og yfir 90% í næstu kosn-
ingum, 1968 og 1980. Kjörsókn var 86% árið
1996 en hrapaði niður í 63% árið 2004. Í
kosningunum 2012 var hún rétt innan við
70%.
Í kosningunum 1952 voru þrír í framboði;
séra Bjarni Jónsson, Gísli Sveinsson og Ás-
geir Ásgeirsson, sem var kjörinn. Í kosn-
ingunum 1968 voru tveir í kjöri; Gunnar
Thoroddsen og Kristján Eldjárn, sem var
kjörinn. Árið 1980 voru forsetaefnin fjögur;
Albert Guðmundsson, Guðlaugur Þorvalds-
son, Pétur Thorsteinsson og Vigdís Finn-
bogadóttir, sem var kjörin. Árið 1996 voru
frambjóðendur fjórir; Ástþór Magnússon,
Guðrún Agnarsdóttir, Pétur Hafstein og
Ólafur Ragnar Grímsson, sem var kjörinn.
Ólafur varð sjálfkjörinn árið 2000 en fjórum
árum seinna buðu sig fram auk hans, sem
var kjörinn, Ástþór Magnússon og Baldur
Ágústsson. Hlutfall þeirra kjósenda sem
skiluðu auðu hefur aldrei orðið jafn hátt í
forsetakjöri og í þessum kosningum, rétt
um 21%, og má rekja það til harðvítugra
stjórnmáladeilna sem forsetaembættið
dróst inn í á árinu. Loks voru sex í framboði
2012 auk Ólafs Ragnars, sem var kjörinn;
Andrea J. Ólafsdóttir, Ari Trausti Guð-
mundsson, Hannes Bjarnason, Herdís Þor-
geirsdóttir og Þóra Arnórsdóttir.
Forsetaembætti í 72 ár
Forsetaembættið er jafngamalt lýðveld-
inu, sem er 72 ára á þessu ári. Áður hafði
danski kóngurinn verið þjóðhöfðingi Íslend-
inga. Fyrsti forsetinn, Sveinn Björnsson,
var kosinn af alþingismönnum á þingfundi
17. júní 1944. Kjörið var aðeins til eins árs
og skyldi efnt til þjóðkjörs sumarið 1945.
Enginn bauð sig fram gegn forsetanum og
sama sagan endurtók sig fjórum árum
seinna, 1949. Það var því ekki fyrr en 1952
sem forseti Íslands var í fyrsta sinn þjóð-
kjörinn. Sú hefð mótaðist að forseti sæti í
embætti meðan honum þóknaðist og kom
ekki til mótframboðs við sitjandi forseta
fyrr en árið 1988. Þá bauð Sigrún Þor-
steinsdóttir sig fram gegn Vigdísi Finn-
bogadóttur. Hlaut hún um 5% atkvæða en
Vigdís um 95%.
Forsetinn og stjórnarskráin
Ákvæði um völd og verksvið forseta eru í
stjórnarskránni. Þegar þau voru sett árið
1944 var byggt á orðalagi í eldri stjórnar-
skrá um stöðu konungs í stjórnskipaninni.
Skiptar skoðanir voru meðal þingmanna um
hver eiginleg völd forseta lýðveldisins ættu
að vera og hvort hann ætti að vera þing-
kjörinn eða þjóðkjörinn. Niðurstöðuna sem
fékkst átti að endurskoða við fyrsta tæki-
færi. Það hefur hins vegar ekki verið gert.
Hver og einn forseti hefur mótað emb-
ættið og valdmörk þess á sinn hátt. Sveinn
Björnsson og Ásgeir Ásgeirsson höfðu
nokkur afskipti af stjórnmálum bak við
tjöldin en afskipti Kristjáns Eldjárns og
Vigdísar Finnbogadóttur voru sýnilegri og
birtust einkum í því hvernig þau héldu á
stjórnarmyndunum. Ekkert þeirra fjögurra
beitti valdi til að synja lögum frá Alþingi
staðfestingar og varð það smám saman
ríkjandi skoðun að þetta ákvæði væri dauð-
ur bókstafur. Það breyttist þegar Ólafur
Ragnar Grímsson synjaði lögum staðfest-
ingar 2004 og síðan tvívegis aftur nokkrum
árum seinna. Nú er ekki deilt um að forseti
hafi þetta vald en í umræðunum um breyt-
ingar á stjórnarskránni hafa verið uppi
hugmyndir um að tiltekinn fjöldi kjósenda
geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög
frá Alþingi, óháð afstöðu forseta. Fleiri
breytingar á verksviði forseta hafa komið
til umræðu en óljóst er hvort eða hvernig
stjórnarskránni verður breytt í þessu efni.
Sameiningartákn
Flestir eru sammála um að hvað sem líð-
ur völdum forseta Íslands eigi hann að vera
sameiningartákn þjóðarinnar. Hann talar
til landsmanna á merkisdögum og á erfiðum
stundum. Hann gegnir æðsta og virðuleg-
asta embættinu, er andlit Íslands gagnvart
umheiminum og fulltrúi þjóðarinnar meðal
annarra þjóðhöfðingja. Þessu hlutverki
þarf einhver að sinna, og þótt stundum
komi upp umræður um að fela mætti t.d.
forseta Alþingis þessi verkefni er afar ólík-
legt að slíkar breytingar verði gerðar.
Embættið hefur fest sig rækilega í sessi og
mikið þarf til þess að einhverjar róttækar
breytingar verði gerðar á því. gudmund-
ur@mbl.is
Forsetakjörið í sumar er hið átt-
unda frá stofnun lýðveldis 1944
Fleiri frambjóðendur í boði en í nokkrum kosningum áður Kjörsókn hefur yfirleitt verið góð
Sveinn
Björnsson
Vigdís
Finnbogadóttir
Ásgeir
Ásgeirsson
Ólafur Ragnar
Grímsson
Kristján
Eldjárn
FORSETAKOSNINGAR 2016