Morgunblaðið - 03.06.2016, Síða 62
62
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 3. JÚNÍ 2016
Eyrún Magnúsdóttir
eyrun@mbl.is
V
ið mælum okkur mót í skrifstofubygg-
ingu í Borgartúninu, nánar til tekið
númer tuttugu og níu þar sem fjár-
málafyrirtækið Virðing er til húsa og
Auður Capital, fyrirtækið sem Halla tók þátt í
að stofna, var áður. Hlátrasköll berast frá
kaffistofunni þegar blaðamaður gengur inn og
það er auðheyrt að það eru fagnaðarfundir
þegar Halla Tómasdóttir heimsækir fyrrver-
andi vinnufélaga.
Undanfarnar vikur hefur Halla ásamt manni
sínum farið um land allt og heimsótt vinnu-
staði, elliheimili og fleiri staði í því skyni að
kynna stefnumál sín. Þegar við höfum komið
okkur fyrir í viðtalsherbergi á staðnum er best
að opna á stórri spurningu um hlutverk emb-
ættis forseta Íslands.
„Stærsta hlutverk og verkefni forseta Ís-
lands er að vera sá leiðtogi sem virkjar aðra
með sér í að skapa traust og sátt í samfélaginu
upp á nýtt. Ég tel að hlutverk forseta þurfi að
taka mið af því sem er að gerast í samfélaginu
hverju sinni og núna er brýnasta verkefnið að
sameina og sætta samfélagið og byggja upp
traust og fara að horfa til framtíðar.
Við þurfum forseta með framtíðarsýn og for-
seta sem vill hjálpa þjóðinni að fá sinni framtíð-
arsýn framgengt. Og forsetinn þarf að hafa
leiðarljós í þeirri vegferð, sem í mínum huga
eru gildin sem þjóðin valdi sér á þjóðfundi árið
2009. Þessi gildi eru heiðarleiki, réttlæti, jafn-
rétti og virðing.“
Ekki nóg að laga til í excel
En hvernig telur Halla að forseti Íslands
geti komið að því með þjóðinni að vinna að því
að innleiða þessi gildi?
„Ef við byrjum á því að skoða af hverju þetta
er mikilvægt verkefni þá er það þannig að þeg-
ar efnahagslífið hrundi þá hrundi líka traustið í
samfélaginu og samfélagssáttmálinn. Það
komu fyrst brestir í hann og svo held ég að
hann hafi hreinlega brotnað. Við höfum frá
hruni verið að laga til í excel og í efnahagslega
hlutanum. Að mörgu leyti lítur efnahagslega
hliðin vel út en við höfum ekki hugað að sálarlífi
þjóðarinnar eða sárinu sem varð til í hruninu.
Svo ég taki nærtækt dæmi sem ég finn að
brennur á öllum landsmönnum sama hvert ég
fer; fjölgun ferðamanna. Hún hefur átt sér stað
stjórnlaust og stefnulaust. Það eru margir Ís-
lendingar sem sjá þetta sem tækifæri og já-
kvætt, og ég held að það sé það að mörgu leyti.
En það eru líka margir sem hafa áhyggjur af
áhrifum þessa á umhverfið,“ segir Halla og
bendir á að ekki hafi tekist að finna jafnvægi í
þessum efnum.
„Okkur hefur ekki tekist að finna út úr þess-
um málum vegna þess að okkur hættir til að
fara í deilur. Við rífumst um of mikið og erum
allt of oft sundurleit. Ég held að þetta sé ágætis
dæmi um viðfangsefni sem við þurfum að geta
tekist á við sem samfélag og við þurfum að
skapa okkur framtíðarsýn um. Þurfum að hafa
skýra sýn og hafa stefnu í þessum málum og
við þurfum að tryggja það að sú stefna geri
okkur kleift að standa undir þessu án þess að
hafa neikvæð áhrif á okkar samfélag eða á um-
hverfið og náttúruna.
Mig langar til að vera forseti sem fer fyrir
því verkefni að við förum að horfa til framtíðar
í stórum málum sem varða framtíð okkar allra.
Mig langar að vera forseti sem opnar á þá um-
ræðu með þjóðinni með fundum eins og þjóð-
fundinum 2009.“
Árlegir þjóðfundir komist á dagskrá
Halla hefur á undanförnum árum starfað við
ráðgjöf og sem fyrirlesari. Hún kom að upp-
byggingu Háskólans í Reykjavík með því að
setja á fót símenntunardeild og stjórnenda-
skóla. Halla leiddi verkefnið Auður í krafti
kvenna og var síðar annar stofnenda fjármála-
fyrirtækisins Auður Capital. Þá var hún meðal
stofnenda Mauraþúfunnar sem hrinti í fram-
kvæmd Þjóðfundinum árið 2009 þar sem
grunngildi samfélagsins voru rædd. Það er
auðheyrt að Halla hefur mikla ástríðu fyrir því
að leiða saman fólk og fá fram ólík sjónarmið í
þeim tilgangi að komast að niðurstöðu í mik-
ilvægum málum.
„Verði ég forseti langar mig árlega að halda
nokkurs konar þjóðfundi þar sem tekin eru fyr-
ir mismunandi viðfangsefni sem varða okkar
langtímahagsmuni. Við myndum fá til okkar
bæði sérfræðinga héðan en líka frá útlöndum
til að deila með okkur sinni visku og sýn. En
virkja jafnframt vilja og visku þjóðarinnar í
þessari vegferð. Þetta er samfélagið okkar og
ég vil meina að við Íslendingar eigum skilið að
fá það samfélag sem við viljum.
Það eru umbreytingar að eiga sér stað á öll-
um sviðum í heiminum og líka hér hjá okkur.
Við erum lítið samfélag, sveigjanlegt samfélag.
Við getum ákveðið að taka sum af þessum mál-
um þar sem breytinga er þörf fastari tökum,
gert það með þátttöku þjóðarinnar og skapað
áhugaverða framtíðarsýn byggða á vilja fólks-
ins. Ég tel að forseti geti leitt þá umræðu
fremstur í flokki meðal jafningja.“
Við höfum gleymt að ræða grunngildin
Halla telur að átök og neikvæðni hafi verið
áberandi í umræðu hér á landi en nú sé tími til
að ná sátt og byggja upp að nýju.
„Ég hef starfað við það alla ævi að annað-
hvort umbreyta fyrirtækjum eða byggja upp
ný á grunni gilda. Ég trúi því að það sem sam-
einar okkur, hvort sem við tilheyrum fyrirtæki,
samfélagi eða fjölskyldu, séu grunngildin. Og
við höfum gleymt að ræða þau. Við höfum
gleymt því sem snýr að mannlegri hlið sam-
félagsins. Eftir átta ár af átökum og rifrildi er
þjóðin þreytt á neikvæðni, sundurleitni og
átakaumræðu.
Við þurfum forseta sem horfir á það sem
sameinar okkur meira en það sem sundrar
okkur. Og ég held að það sem sameinar okkur
eigi að vera þessi fjögur gildi sem ég nefndi í
upphafi, þau vil ég kalla leiðarljósin í átt til
framtíðar. Það á að leyfa þjóðinni sjálfri að
taka þátt í að mála framtíðarsýn sem okkur öll-
um hugnast.
Ég vil búa í samfélagi þar sem er jafnrétti
fyrir alla. Jafnrétti fyrir alla er stærsta málið
sem ég myndi vilja setja á oddinn sem forseti. Í
mínum huga eiga tækifæri fólks ekki að ráðast
af kyni, aldri, búsetu, uppruna eða fjárhags-
legri stöðu. En þau gera það of mikið. Ég hef
sérstaklega miklar áhyggjur af fjárhagslegri
stöðu og muninum á þeim sem eiga og þeim
sem eiga ekki,“ segir Halla.
Spurð að því hvernig forseti geti beitt sér í
því að stuðla að jöfnum tækifærum óháð stöðu
stendur ekki á svari hjá frambjóðandanum.
„Með því að ljá máls á því í ræðu og riti. Ég
trúi á mjúka valdið og áhrifavaldið. Ég trúi
ekki á hart vald til þess að láta gott af sér leiða.
Það er sama hvert ég fer, ég heyri að fólk deilir
þessum áhyggjum af ójöfnum tækifærum.
Bæði er fólk þreytt á neikvæðri orðræðu í okk-
ar samfélagi og átökum í langan tíma en líka
því að samfélagsgerðin endurspegli ekki hver
við erum í grunninn eða hver við viljum vera.“
Þótt Halla hafi aðeins verið sjö ára gömul
þegar konur lögðu niður störf þann 24. október
1975 þá hafði kvennafrídagurinn mikil áhrif á
hana og hún segist ekki í nokkrum vafa um að
upplifun sín af þessum degi hafi mótað störf sín
og viðhorf til lífsins. „Konur ákváðu að fara í
verkfall og sinna engum störfum, hvort sem
þær voru heimavinnandi eða útivinnandi. Þetta
var gríðarlega áhrifaríkt og breytti miklu fyrir
okkar samfélag. Það var ekkert ofbeldi neins
staðar og það var engin harka neins staðar. En
þessi dagur breytti hugsun okkur um það að
samfélag byggist á jafnri þátttöku karla og
kvenna og jöfnum tækifærum.
Ég vísa í þetta vegna þess að þetta mótaði
mína sýn á mikilvægi þess að við virkjum kon-
ur og karla til jafns í okkar samfélagi. Fimm
árum síðar gerist svo þetta,“ segir hún og
bendir brosandi á þekkta mynd af frú Vigdísi
Finnbogadóttur á kjördag 1980 á veggnum,
sem Halla segir eiga mikilvægan sess í sínum
huga. Hún upplýsir blaðamann líka um að við-
talsherbergið sem við sitjum í kallast Vigdísar-
stofa. En hún segir að hugtakið jafnrétti nái í
sínum huga ekki aðeins til réttinda kvenna.
„Sú staðreynd að ég hef í sautján ár verið að
tala fyrir því að við virkjum konur í okkar sam-
félagi hefur ekki bara með kynjajafnrétti að
gera heldur með það að gera að ég trúi því að
þegar karlar og konur vinna saman þá skili það
mestum árangri.
Ég hef ítrekað séð það í mínum störfum sem
kennari, mannauðsstjóri, sem stjórnandi og
frumkvöðull að sterkustu teymin eru fjöl-
breyttustu teymin. Þau skila mestu, bæði efna-
hagslega og samfélagslega.“
Hlutverk forseta verði skýrt betur
Við förum yfir í að ræða stjórnarskrána. „Ég
held að það væri mjög gott ef við skýrðum hlut-
verk forseta betur í stjórnarskrá. Almennt er
ég hlynnt skýrum leikreglum. Mér finnst þetta
ferli sem fór í gang í kjölfar hrunsins í kringum
okkar stjórnarskrá mjög fallegt og í grunninn
er ég sammála þessum hugmyndum sem út úr
því koma. En ég held hins vegar að forseti eigi
ekki að taka sér stöðu í því máli heldur að
starfa eftir þeirri stjórnarskrá sem er í gildi
hverju sinni. En það er allt of mikið pláss til að
túlka og teygja núverandi stjórnarskrá að
mínu mati. Ég trúi því að stjórnarskrá sé meira
en lögfræði, þetta er grunnsamfélagssáttmáli
okkar allra. Við eigum ekki að þurfa að leita
okkur lögfræðiaðstoðar til að skilja stjórnar-
skrána.
Ég lít hins vegar á það þannig að breytingar
á stjórnarskrá er verkefni Alþingis sem setur
það svo í farveg til þjóðarinnar.
Þetta er annað verkefnið sem þarf að leysa
til að samfélagssárið grói. Hitt verkefnið er að
tryggja að grunngildin sem þjóðin valdi sér fái
að vera leiðarljós til framtíðar. Þetta tvennt
myndi hjálpa okkur mikið og ég held að í raun
hangi þessir hlutir saman. Annað er verkefni
Alþingis en hitt er verkefni Bessastaða og þess
sem þar er.“
Hvað varðar málskotsrétt forseta hefur
Halla skýra sýn. „Ég hef gefið það út að mér
finnst það slæmt að ekki séu skýrar reglur um
þetta. Ég myndi setja mér vinnureglu þar til
þessar leikreglur verða skýrðar nánar í
stjórnarskrá, sem ég vona að verði gert. En
mín vinnuregla myndi taka mið af því sem mér
sýnist vera þverpólitísk sátt um að miða við að
15% þjóðarinnar geti skotið málum í þjóðar-
atkvæði.
Það felst mikil ábyrgð í því að skjóta flókn-
um málum til þjóðarinnar. Því er mikilvægt að
forseti beiti sér fyrir því að upplýst umræða
fari fram áður en gengið yrði til atkvæða-
greiðslu. Ég get vel séð fyrir mér að Bessastað-
ir beiti sér fyrir því og fylgist með því að slík
umræða fari ekki eftir því hver hafi mesta fjár-
hagslega burði til að koma sínu á framfæri
heldur sé tryggt að ólík sjónarmið heyrist og
kjósendur geti tekið upplýsta ákvörðun.
Auðvitað tel ég að það þurfi að fara varlega
með svona stórar ákvarðanir og ég tel að sam-
tal og umræða sé alltaf betur til þess fallið að
ná sátt. Ég lít eiginlega á atkvæðagreiðslu
svona sem síðasta hálmstráið ef við náum ekki
að leysa málin öðruvísi. En ég myndi ekki skor-
ast undan því að nýta málskotsréttinn ef þjóðin
kallaði eftir því. Forseti er ekki þarna fyrir
sjálfan sig, hann er þarna til þess að vera far-
vegur fyrir almannahagsmuni og aukið beint
lýðræði er krafa nútímans.“
Halla segist telja mikinn samhljóm meðal
þjóðarinnar um það sem máli skiptir, fólk vilji
þjóðfélag jafnra tækifæra. „En þjóðin upplifir
gjá á milli þess sem þjóðin vill og þess sem for-
ystufólk okkar talar fyrir. Við erum pínulítil
þjóð en getum þó í krafti þjóðhöfðingjaemb-
ættisins haft rödd bæði til sóknar og varnar.
Það skiptir máli að forseti Íslands komi vel fyr-
ir og sé fulltrúi sem við getum verið stolt af á
alþjóðavettvangi, þó ég telji brýnasta verkefnið
vera hér heima í að græða sárin og stuðla að
sátt.“
Halla Tómasdóttir
Brýnast er að sameina og sætta
Morgunblaðið/Eggert
Fyrstu
konurnar
Á vegg í
Vigdísarstofu
eru myndir af
konum sem
ruddu brautina.
Fæðingardagur 11. október 1968.
Fjölskylduhagir Eiginmaður Höllu er Björn
Skúlason heilsukokkur og framkvæmda-
stjóri Nóatúns. Þau eiga saman tvö börn.
Menntun BA í viðskiptafræði frá Auburn-
háskóla í Alabama og meistaranám í rekstr-
arhagfræði frá Thunderbird viðskipta-
háskólanum í Arizona.
Starf Alþjóðlegur fyrirlesari og ráðgjafi.
FORSETAKOSNINGAR 2016