Orð og tunga - 01.06.2013, Blaðsíða 52
42
Orð og tunga
opnað fyrir almennan aðgang í nóvember 2011, enda þótt ýmsum
verkþáttum væri þá ekki fulllokið.
I þessari grein er fjallað um iSLEX-verkefnið og er megináhersla
lögð á þá þætti sem snúa að íslenska hluta orðabókarinnar. Efninu er
skipað á eftirfarandi hátt: 2. kafli lýsir forsögu og upphafi verkefnis-
ins, 3. kafli fjallar almennt um rafrænu orðabókina, 4. kafli greinir frá
verklagi við ritstjórn í fjölþjóðlegu samstarfi, í 5. kafla segir frá efni
og uppbyggingu orðabókarinnar, í 6. kafla er lýst notendaviðmóti
hennar á vefnum og í 7. kafla er fjallað um ýmsa þá möguleika sem
búa í svona verki og hugað að framhaldi þess. Lokaorð eru í 8. kafla.
2 Upphaf verkefnisins
Upphaf iSLEX-verkefnisins má rekja til tíunda áratugarins, um það
bil áratug áður en byrjað var á sjálfri orðabókarvinnunni.1 Arið 1994
réðst Orðabók Háskólans (OH) í samvinnu við Norræna málstöð í
Osló í að semja íslenskan orðabókarstofn sem orðið gæti grunnur að
tvímála orðabókum milli íslensku og annarra Norðurlandamála. Til
verksins fékkst styrkur til tveggja ára frá Norræna menningarsjóðn-
um. Orðabókarstofninn skyldi vera um 50-70 þúsund orð. Stofninn
var listi yfir valin orð í íslensku með áherslu á nútímamálið, en hverju
orði fylgdu upplýsingar um orðflokk, formgerð (grunnorð eða sam-
sett orð) og heimild um orðið. Kristín Bjarnadóttir hafði umsjón með
þessu verki (sjá Kristín Bjarnadóttir 1998).
Lengi hafði verið vilji til þess að setja saman nútímalega íslensk-
sænska orðabók, bæði á Islandi og í Svíþjóð, og árið 2002 var leitað
samstarfs við Institutionen fór svenska spráket við Gautaborgarháskóla
um gerð slíkrar orðabókar. Ahugi var á því að koma á sams konar
samvinnuverkefni við Norðmenn um íslensk-norska orðabók, og árið
2003 fékkst fjárstyrkur frá Det kongelige kultur- og kirkedepartement
í Noregi til undirbúnings þess. Norski samstarfsaðilinn í verkefninu
varð Nordisk instituttvið háskólann í Bergen. Norðmenn lögðu áherslu
á að bæði norskt bókmál og nýnorska skyldu vera með í orðabók af
þessu tagi en ekki bókmálið eingöngu. Frá upphafi var jafnframt
ljóst að það yrði á allan hátt hentugt að bæði tungumálin, sænska og
norska, yrðu unnin samhliða í sama tölvukerfinu.
Haldin var frumkynning á orðabókinni í Kaupmannahöfn 2005, og
1 Sjá nánar um forsögu islex: Þórdís Úlfarsdóttir 2011, Svavar Gestsson 2011 og
Anders Ljuggren 2011.