Orð og tunga - 01.06.2013, Blaðsíða 121
Guðrún Kvaran: Orðabókarstörf Konráðs Gíslasonar
111
finnist ekki í orðabókinni, sem verið er að leita að í þann svipinn, þá
má segja slíkt hið sama um allar orðabækur.
Af þessari umsögn má sjá að Björn M. Ólsen kunni að meta orðabók
Konráðs. Ekki er vitað hve stórt upplagið var en bókin mun hafa verið
til víða á heimilum, einkum þeim efnameiri. Umdeilanlegt er hvað er
smellið og hvað ekki, en afar góð þekking Konráðs á fornu máli hefur
komið að góðu haldi við skýringarnar. Þótt Konráð hafi búið erlendis
mestan hluta ævinnar var hann í góðu sambandi við Islendinga í
Kaupmannahöfn og var þannig stöðugt í tengslum við samtímamálið
og gat leitað til heimildarmanna ef þörf var á.
Konráð leit sjálfur á orðabók sína sem frumsmíð „en frumsmíðir
standa til umbóta" (1851: IV). Það kom í hlut Jónasar Jónassonar á
Hrafnagili að semja og gefa út ásamt fleirum næstu dansk-íslenska
orðabók, undir titlinum Ný dönsk orðabók með íslenzkum þýðingum.
Hún var gefin út í Reykjavík 1896. Frumrit Jónasar er varðveitt í eigin-
handarriti á Amtsbókasafninu á Akureyri. I formála fyrir eiginhand-
arritinu frá ágúst 1896 kemur fram að bókin var frá Jónasar hendi að
mestu unnin á árunum 1885-1889. Þá var Konráð enn á lífi (d. 1891)
en ekki er vitað til þess að Jónas hafi verið í sambandi við Konráð.
Meðal rita sem Jónas studdist við var „Konráðs orðabók". Orðabók
Jónasar kom þó ekki út fyrr en 1896 og höfðu þá verið gerðar ýmsar
viðbætur og leiðréttingar.
Formáli Jónasar, sem hann skrifaði 1896, var ekki notaður í útgefnu
bókinni heldur formáli, sem undirritaður er af Birni Jónssyni, einum
meðhöfundi bókarinnar á síðari stigum, einnig í ágúst 1896. Þar kem-
ur fram að Islendinga hafi lengi vantað „nýja, handhæga, alþýðlega
danska orðabók með íslenzkum þýðingum". Islenska og danska hafi
breyst mikið frá því að orðabók Konráðs kom út, orð dáið, önnur orð
breytt um merkingu og ný orðið til. í nýju bókinni sé mikið efni sem
ekki sé í bók Konráðs „en vantar yfirleitt það eitt af hennar orðaforða,
sem nú er úrelt orðið eða þar um bil" (1896: III). Um bók Konráðs
segir enn fremur: „Það er einnig óhandhæg bók og ekki við alþýðu
hæfi, meðal annars nokkuð kostnaðarsöm." Vissulega var nýja bókin
handhægari, ódýrari og nær nútíma og ekki hefur þótt eftir útkomu
hennar ástæða til að gefa bók Konráðs út að nýju.
Orð Björns Jónssonar lýsa að einhverju leyti viðhorfi samtíma hans
til Danskrar orðabókar með íslenzkum þýðingum þótt hann sé um leið að
mæla með nýju bókinni. Hún þótti að sögn Björns dýr og hefur það
því helst verið á færi hinna efnameiri eða þeirra sem nauðsynlega
þurftu á orðabók að halda að eignast hana.