Orð og tunga - 01.06.2015, Page 57
Marion Lerner
Af „setubingum" og „hugvits-
verkfærum"
Orðfæri í Ferðabók Tómasar Sæmundssonar
1 Inngangur
Þegar Ferðabók sú sem kennd er við Tómas Sæmundsson kom út
1947 var höfundur bókarinnar dáinn fyrir meira en 100 árum. Flestir
kannast við Tómas Sæmundsson sem einn Fjölnismanna og náinn vin
Jónasar Hallgrímssonar. Samt sem áður er ævistarf hans og ritverk
ekki eins vel þekkt enda varð ævin stutt og ritin, sem eftir hann liggja,
eru fá en af ýmsum toga.
f þessari grein verður Ferðabók Tómasar skoðuð út frá ákveðnu
sjónarhorni. Fyrirhugað er að þýða bókina yfir á þýsku en forsenda
þýðingarstarfs er ávallt greining á frumtexta. Þessi greining getur
náð yfir ýmis svið á borð við menningarsamhengi, textasamhengi,
ætlun höfundar eða sögu útgáfunnar en einnig og einkum þarf að
greina ýmsa þætti textans sjálfs svo sem stíl, textatengsl, orðaforða,
setningaskipan og margt annað. Hér verður sjónum beint sérstaklega
að stíl og orðfæri textans sem lesendum, sem eru vanir að lesa nú-
tímatexta á íslensku, þykir frekar óvenjulegt.
Fyrst verður sagt frá Tómasi sjálfum, menntaferð hans (Grand
tour) um Evrópu, gerð Ferðabókarinnar og markmiði hennar (2.^1.
kafli). Síðan víkur sögunni að máli og málnotkun og þá sérstaklega
orðaforða Ferðabókarinnar (5.-6. kafli). í 7. kafla eru nokkur lokaorð.
Orð og tunga 17 (2015), 45-62. © Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum
fræðum, Reykjavík.