Orð og tunga - 01.06.2015, Page 109
Katrín Axelsdóttir: Beyging og merking orðsins hjalt
97
það er ekki gamalt. Það er í Ævisögu Árna prófasts eftir Þórberg
Þórðarson frá miðri 20. öld:3
(1) hélt hnífnum í luktum lófa, svo að ekkert sást af honum
nema hjöltun. (Þórbergur Þórðarson III 1945-1950:134)
Á vefnum timarit.is er að finna fjölda dæma um fleirtöluna hjöltu(n).
Tvö elstu dæmin eru sýnd í (2) en þau eru frá miðri 19. öld:
(2) a. korða gullbúinn og gimsteinum settan um hjöltun ...
b. sverð hékk við hlið hans og hjöltun af mánakristall ...
Hér hefur verið fjallað um dæmi um fleirtöluna hjöltu(n) frá 19. og
20. öld. Hún á sér þó mun lengri sögu í málinu. Um hana er dæmi í
Guðbrandsbiblíu (Biblia 1584) eins og sjá má í (3). Það er athyglisvert að
ögn síðar í sama ritningarstað kemur fyrir hefðbundin fleirtölumynd,
hjöltin.4
(3) so það gekk allt upp yfir hjöltun og ísturin huldu hjöltin
(því hann dró ekki sverðið aftur af hans kviði) og saurinn
sprændi fram af kviðnum. (Biblia 1584, Dómarabókin 3:22)
Fleirtala með endingunni -u, hjöltu(n), hefur því verið til í málinu
a.m.k. frá 16. öld.
4 Staða myndanna hjöltu(n) og hjölt(in) í
nútímamáli
Myndin hjöltu(n) var komin upp á 16. öld en auðvitað kann hún að
vera enn eldri. Þó er nokkuð víst að hjölt(in) er eldri mynd. Þarna er
þá um að ræða breytingu, hjölt(in) —> hjöltu(n). Þessari breytingu, sem
er áhrifsbreyting, má lýsa með hlutfallsjöfnu:
(4) þgf.ft. hjörtum : nf./þf.ft. hjörtu(n)
þgf.ft. hjöltum : nf./þf.ft. X; X = hjöltu(n)
3 Þess má geta að í seðlasafninu er eitt dæmi um orð áþekkt orðinu hjalt. Það er
karlkynsorðið hjöltur. Dæmið er frá miðri 17. öld.
4 Bandle (1956:202) nefnir báðar fleirtölumyndirnar í (3) og nefnir að hjöltun kunni
að vera prentvilla. Við leit í tölvuskjali með texta Guðbrandsbiblíu, án formála
einstakra bóka, frá Hinu íslenska Biblíufélagi fundust ekki önnur dæmi um orðið
hjalt en þau tvö sem koma fyrir í (3). Textinn í skjalinu er óyfirfarinn en skjalið er
samhljóða texta Guðbrandsbiblíu eins og hann birtist á www.biblian.is 27. nóvem-
ber 2009. Ég þakka Jóni Pálssyni fyrir að leggja mér til skjalið.