Orð og tunga - 01.06.2015, Qupperneq 123
Katrín Axelsdóttir: Beyging og merking orðsins hjalt
111
er veiðibráð. Deer hefur alltaf haft endingarlausa fleirtölu, bæði að
fornu og nýju. í hinu tilvikinu er um að ræða orðið dwarf. Það hefur
yfirleitt reglulega s-fleirtölu, dwarfs, en í bandarískri ensku þekkist
fleirtölumyndin dwarves sem er óregluleg fleirtölumyndun. Þessi
óvænta þróun hefur verið rakin til þess að orðið dwarf kemur gjarna
fyrir í sama samhengi og tvö orð sem hafa hina óvenjulegu ues-fleir-
tölu, elf og wolf. Orðin þrjú koma oft fyrir í ævintýrum og sögum af
svipuðum toga.
I þessum kafla hafa verið nefndar tvær hugsanlegar skýringar á
aðdráttarafli an-stofna á orðið hjalt: annars vegar hljóðafar orðsins
lijarta og hins vegar tvenndarmerking orðanna auga, eyra, lunga, nýra
og eista í fleirtölu. Nú má vera að önnur þessara skýringa dugi. En
það er rétt að nefna að hvorug skýringin þarf að útiloka hina. Og það
er reyndar sennilegra að breyting verði ef margt leggst á eitt.13
7 Niðurlag
Hér hefur verið fjallað um orðið hjalt, einkum fleirtölu þess, en orðið
er helst notað í fleirtölu. Fyrst var rætt um tvær fleirtölumyndir sem
tíðkast í nútímamáli, hjölt(in) og hjöltu(n). Þá síðarnefndu er ekki að
finna í orðabókum. Hún hefur þó verið komin upp þegar á 16. öld og
virðist nú nokkuð útbreidd. Síðan var fjallað um merkingu. Bent var
á að ýmsir litu svo á að fleirtala orðsins táknaði hlífina milli brands
og meðalkafla (sk. fremra hjalt) en í orðabókum væri þann skilning
ekki að finna. Þar táknar fleirtalan 'efra og fremra hjalt' eða jafnvel
'efra hjalt, fremra hjalt og meðalkafli'. Þarna hefur því átt sér stað
merkingarþróun. Merkingin var í kjölfarið borin saman við merkingu
enska orðsins hilt. Merking þess orðs getur verið sambærileg merk-
ingu hjölt (eða hjöltu), 'sverðshlutar ofan brands', en stundum merkir
hilt 'meðalkafli'. Hér er einnig um að ræða merkingarþróun en niður-
13 Astæða er til að minnast á sögnina niðurhala sem beygist stundum, heldur
óvænt, eins og sterkar sagnir af 6. flokki (eins og t.d. fara og ala), sjá Margréti
Jónsdóttur 2007. Önnur sögn sömu merkingar er hlaða niður (einnig niðurhlaða
sem er sjaldgæfari). Sú sögn tilheyrir 6. flokki. Hugsanlega hefur það haft hér
áhrif að sögn af 6. flokki merkti það sama og niðurhala. En einnig er hugsanlegt
að hljóðafar, nánar tiltekið atkvæðafjöldi, hafi skipt máli. Niðurhlaða hefur sömu
atkvæðabyggingu og niðurhala. Það hefur einnig endurtaka, algeng sögn sem
einnig tilheyrir 6. flokki. Það er því hugsanlegt að bæði hljóðafar og merking hafi
hér komið við sögu og jafnvel lagst á eitt. Þetta væri þá að því leyti hliðstætt því
sem hér hefur verið giskað á um hjölt(in) —> hjöltu(n).