Orð og tunga - 01.06.2015, Page 146
134
Orð og tunga
2 Gullbrá og Menglöð
I upphafi þjóðsögunnar, sem birtist í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar
og ber heitið „Gullbrá og Skeggi í Hvammi", er lýst landsháttum og
landnámi Auðar djúpúðgu að Hvammi í Dölum. Þegar kona „ung og
mjög fríð sýnum", að nafni Gullbrá, eignast hluta af Hvammslandi
gegn vilja Auðar, segir sagan:
Reisti Gullbrá bæ mikinn á landi sínu og bjó þar lengi; kallaði
hún það að Akri er síðan nefndist Hofakur. Byggði hún þar
hof og hafði blót mikil og efldi seiða stóra. En jafnan var
það er hún framdi fjölkynngi sína og henni varð að líta til
Hvamms þá ruglaðist seiðurinn; kvaðst hún ávallt sjá ljós
mikið á einum stað í Hvammstúni og væri sér óþolandi birta
þess enda gleymdi hún þá og ruglaðist í fræðum sínum. (Árni
Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson (útg.) 1961:141)
Gullbrá skipti síðar á Akri við Hvammsmenn en fékk á móti hinn
innri hluta dalsins:
Þar er skuggalegt mjög og lágur sólargangur á sumrum, en
mestan hluta vetrar sér þar ekki sól í suðurhlíð dalsins. Valdi
hún sér aðsetur innst í dalnum, þar sem hann er mjóstur og
skuggalegastur, heitir það síðan Gullbrárhjalli. (Árni Böðvars-
son og Bjarni Vilhjálmsson (útg.) 1961:142)
Gullkistu eina hafði Gullbrá með sér úr hofinu á Akri á Gullbrárhjalla
en þegar frá leið varð Gullbrá blind og tók sótt þunga:
Kallaði hún þá húskarla sína til sín og skipaði þeim að flytja
sig að gljúfri nokkru og renna sér þar niður. Kvaðst hún liggja
vilja þar er aldrei sæi sól og aldrei heyrðist klukknahljóð.
En svo er háttað gljúfrinu að það er foss í gili nokkru móti
norðri og hellir inn undir. Gljúfrið er afar djúpt og svo iðan
undir fossinum. Gullbrá gekk í hellirinn og lagðist á gullið.
Þegar hún var orðin afturganga í fossinum eyddi hún bæ á
Gullbrárhjalla; héldust þar á hjallanum eða í hlíðinni hverki
menn né skepnur lifandi er rökkva tók og hefur sauðamönnum
jafnan þótt þar reimt síðan, en öll afturganga fór þar af eftir
að kirkja var reist í Hvammi. Þar heitir nú Gullbrárgil og
Gullbrárfoss er Gullbrá lét færa sig í. (Árni Böðvarsson og
Bjarni Vilhjálmsson (útg.) 1961:142)