Orð og tunga - 01.06.2015, Side 149
Sigurður R. Helgason: Gullbrá og Menglöð
137
Nafnið Gullbrá er samsett úr orðliðunum gull og brá. Vænta má
þess að gull merki hér 'gull sem málmur' eða 'eitthvað sem er gulli
líkast'. Brá er 'augnlok' eða 'augnhár' í þrengri merkingu en í víðari
merkingu ósjaldan 'auga', einkum í skáldskaparmáli. Ekki er óeðlilegt
að ætla að sú sé merkingin í þessu tilviki, þ.e. að nafnið Gullbrá merki
'gullauga'. Meðal annarra merkinga orðsins brá ber að nefna merk-
inguna 'brák á vatni', sbr. járnbrá sem er rauðbrún brák eins og gjarna
sést í mýrum. Einn möguleiki væri því e.t.v. að skýra gullbrá þannig
að gullnum lit slái á vatn, t.a.m. sem sólargliti (úr ljóðmáli eru t.a.m.
kunnar líkingar á borð við aftanskinsins gullbrár). Þá verður og að hafa
í huga að gullbrá er heiti á íslenskri jurt, Saxifraga hirculus.
Nafnið Menglöð er auðveldara viðfangs. Nafnið merkir einfaldlega
'kona sem gleðst yfir meni sínu'. Umrætt heiti hefur, sem fyrr segir,
verið tengt Freyju, gyðju frjósemi og ásta (Nasström 1998:72).
Samkvæmt Snorra-Eddu (Heimir Pálsson (útg.) 2003:46) átti Freyja
fegurst men allra mena - sjálft Brísingamen. Nafnið kemur fyrir í Svip-
dagsmálum sem samsett eru úr Grógaldri og Fjölsvinnsmálum. Segir
þar frá svaðilförum piltsins Svipdags í leit að meyjunni Menglöðu
sem honum er ætlað að kvænast. Þar heilsar Menglöð ástmanni sín-
um Svipdegi er þau finnast:
Vel þú nú kominn,
hefik minn vilja beðit,
fylgja skal kveðju koss;
forkunnar sýn
mun flestan glaða,
hvars hefir við annan ást
(Guðni Jónsson (útg.) 1954:534)
Örnefnið Menglaðarfoss virðist samkvæmt þjóðsögunni hafa verið
þekkt a.m.k. á nítjándu öld. Nafnið Menglöð birtist í Svipdagsmálum
eins og áður sagði en þau eru talin tiltölulega ungt eddukvæði. Tengsl
Freyju við nafnið Menglöð eru að vísu umdeild. Þau byggjast á þeim
skyldleika við Brísingamen sem nafnið gefur til kynna og þeirri túlkun
að Menglöð sé í raun Freyja í Svipdagsmálum (Simek 1993:167).
3.2 Afskæming Freyju
Nú má spyrja hvort örnefnið Menglaðarfoss sé upprunalega ættað úr
heiðni eða hvort bændur í Hamarsdal hafi á síðari tímum kennt foss,
sem er fjarri byggð, við svo fáheyrt nafn sem Menglöð er og jafnframt