Orð og tunga - 01.06.2015, Page 156
144
Orð og tnnga
menn útbreiddu almennt þá afstöðu eftir kristnitöku að goðin væru
djöflar og að Óðinn væri sjálfur myrkrahöfðinginn (Einar Ól. Sveins-
son 1940:68). Astæða er til þess að undirstrika að kirkjan afneitaði
ekki tilvist goðanna heldur leit á þau sem djöfla. Athygli vekur til-
vik Þorgerðar hölgabrúðar (hörgabrúðar), í ljósi þess sem segir hér
að ofan um tröllgervingu Freyju. Þorgerður var sérstakt átrúnaðar-
goð Hákonar Hlaðajarls og hans ættmenna. Hákon jarl mun hafa
eflt átrúnað á Þorgerði í Noregi á sinni valdatíð. Harðar saga getur
um hof Þorgerðar að Ölfusvatni (Þórhallur Vilmundarson og Bjarni
Vilhjálmsson (útg.) 1991:51) og er það eina hofið á Islandi sem sagt
er að hafi verið helgað kvenlegu goðmagni. Svo virðist sem viður-
nefni Þorgerðar þessarar hafi breyst úr hölgabrúður í hölgatröll
eftir að kristni útrýmdi heiðni á Norðurlöndum. Þá ber og að geta
þess í tengslum við nafnið Þór og tvímynd þess, Þórir, að „[ejftir
kristnitöku verða þessi nöfn líklega bæði nöfn á einskonar illvætti í
náttúrunni, sbr. holtaþór eða -þórir, í merk. 'refur' en nafnið Þórir
er líka oft nafn á illræðis- og útilegumönnum" (Svavar Sigmundsson
2009:161). Holtaþór er raunar einnig heiti á steintegund (glerhallur,
draugasteinn).
5 Niðurstöður
í þessari grein hefur verið leitast við að svara þeirri spurningu hver sé
skýring og uppruni nafnanna Menglöð og Gullbrá í viðkomandi þjóð-
sögum og hvað það segi um örnefnin Gullbrárfoss og Menglaðarfoss.
Bent hefur verið á margt sem styður þá skoðun að í báðum tilvikum
sé um nöfn/heiti gyðjunnar Freyju að ræða. Jafnframt bendir ýmislegt
til þess að sögurnar sjálfar feli í sér einhvers konar afskræmingu/tröll-
gervingu Freyju, gyðju frjósemi og ásta. Sé það rétt að Freyja búi að
baki sögunum má ætla að fossarnir tveir, Menglaðarfoss og Gullbrárfoss,
hafi í heiðni verið helgistaðir gyðjunnar eða þar einhvers konar helgi
henni tengd. Leggja ber áherslu á að hér er um líkindi að ræða en
ekki sönnun. Hins vegar verður að telja að líkindin séu næg til að
vekja aðra spurningu, það er hvort hugsanlega séu einhver önnur
dæmi þess að goðin hafi verið afskræmd við kristnitökuna á Islandi
með svipuðum hætti og verið gæti í tilviki fossflagðanna Gullbrár og
Menglaðar.