Morgunblaðið - 16.06.2016, Síða 33
MENNING 33
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 16. JÚNÍ 2016
Hlynur Halls-
son, sýningar-
stjóri mynd-
listarsýning-
arinnar Nautn/
Conspiracy of
Pleasure sem
opnuð var sl.
helgi í Lista-
safninu á Ak-
ureyri, veitir
leiðsögn um sýninguna í dag kl.
12.15. Hin ýmsu lögmál og birting-
armyndir nautnar eru útgangs-
punktur sýningarinnar og á henni
eru ný verk eftir sex listamenn sem
fjalla um hugtakið, hver frá sínu
sjónarhorni og forsendum.
Fræðir safngesti
um nautn
Hlynur Hallsson
Tíunda sumarið í röð býðurLeikhópurinn Lotta upp áfjölskyldusýningu meðsöngvum og almennum
skemmtilegheitum í bland við fal-
legan boðskap. Undanfarin sumur
hefur Anna Bergljót Thorarensen í
leikritum sínum fyrir hópinn unnið
með ævintýraarfinn á frumlegan
hátt með því að tengja saman ólíkar
sögur með afar góðum árangri. Í ár
rær hún á ný mið, því í stað þess að
notast við velþekktar persónur æv-
intýranna eru aðalpersónur verksins
grunnlitirnir þrír, þ.e. gulur, rauður
og blár, sem er vel til fundið, því
hver þekkir ekki litina?
Í leikriti Önnu Bergljótar eru lit-
irnir lítið fyrir að blanda sér og búa
fullkomlega aðskildir í Gulheimum,
Rauðheimum og Bláheimum. Jafnt í
leiktextanum sem og leiknum tekst
afspyrnuvel að draga fram sameig-
inleg persónueinkenni litanna í
hverju landi fyrir sig. Gulverjar líta
stórt á sig, enda gefa þeir sólinni lit.
Tíguleiki Gulverja og reglufesta eru
undirstrikuð með þéringum og stíf-
um hreyfingum. Rauðingjar eru
fjörugir og kvikir í hreyfingum eins
og eldurinn auk þess sem stutt er í
kvikuna hvort heldur er vegna ástar
eða heiftar. Bláungar setja traust
sitt á hafið, eru þungir í hreyfingum
og minna á sjávarniðinn þegar þeir
endurtaka lokaorð í setningum við-
mælenda sinna.
Eftir stutta kynningu á íbúum
heimanna þriggja kemur í ljós að
Bláheimar eru að hruni komnir og
neyðast Bláungar því til að leita ásj-
ár í Gulheimum. Glódís, drottning
Gulverja, er fús að gefa þeim pen-
inga, ýmis hjálpargögn og hlý föt, en
þvertekur fyrir að leyfa þeim að
setjast að í landi sínu þrátt fyrir að
landrýmið þar sé yfirdrifið. Erfða-
prinsinn Geisli, sonur Glódísar,
ákveður að grípa til sinna ráða til að
bjarga Bláungum. Sjálfur er hann í
ákveðinni klípu því ástarfundir hans
með Rauðingjanum Rjóð hafa kveikt
nýtt líf, en óvíst er hvaða lit Litli lit-
ur sem Rjóð ber undir belti muni
hljóta. Eins og vera ber fer allt vel,
en Anna Bergljót grípur óhikað til
velþekktra meðala eins og deus ex
machina (guðs úr vélinni) til þess að
hnýta alla lausa enda á methraða
undir lok verksins.
Það leynir sér ekki að fréttir síð-
ustu mánaða af flóttamanna-
straumnum í Evrópu hafa veitt
Önnu Bergljótu talverðan innblástur
að Litalandi. Flótti Bláunga frá glöt-
uðum heimkynnum minnir á för Sýr-
lendinga sem flýja borgarastríðið í
heimalandinu til Evrópu í von um
betra líf. Örlög Blæs, sem yngstur er
Bláunga, minna á þau fjölmörgu
börn sem týnt hafa lífinu í hættu-
legri flóttaför yfir Miðjarðarhafið.
Allt tal leikpersóna um hversu and-
styggileg blöndun lita er minnir á
sambærilega fordóma í raunveru-
leikanum gagnvart fólki af öðrum
uppruna og með annað litarhaft en
hvítir Frónbúar. Í því ljósi er snjallt
að láta Litla lit spyrja fullorðna fólk-
ið af barnslegri einlægni hvað það
raunverulega sé sem skilji litina að,
því allir séu þeir með fætur, hendur
og höfuð.
Þrátt fyrir alvarlegan undirtón
verksins tekst Stefáni Benedikt Vil-
helmssyni leikstjóra listilega vel að
framreiða söguna á forsendum
ungra barna þar sem aldrei er
staldrað of lengi við sorgina heldur
gleðinni leyft að ríkja – og sýningin
er bráðskemmtileg. Í raun ættu allir
að finna eitthvað við sitt hæfi, því
boðið er upp á prumpubrandara og
ærslafullan aulahúmor, sem fellur
vel í kramið hjá yngri áhorfendum, í
bland við flóknari orðaleiki og
óléttubrandara sem aðeins fullorðna
fólkið kveikir á.
Sex manna leikhópurinn bregður
sér í alls þrettán ólík hlutverk og
ganga búningaskiptin oft ævin-
týralega hratt fyrir sig. Búningar og
grímur Kristínu R. Berman eru frá-
bærlega vel hönnuð og útfærð, en
hver litur hefur sína sérstöku grímu
sem gerir mjög mikið fyrir heildar-
útlit sýningarinnar og afmarkar per-
sónur með skýrum hætti. Leikmynd
Egils Ingibergssonar og Móeiðar
Helgadóttur er einföld, en lumar á
mörgum snjöllum lausnum með m.a.
földum tröppum og hlerum á óvænt-
um stöðum. Líkt og fyrri ár er leikið
á tveimur hæðum. Það býður upp á
ýmsa skemmtilega möguleika og var
t.d. frábærlega nýtt í óborganlegri
fæðingu Litla litar.
Leikstíll hópsins einkennist af
mikilli orku og leikgleði. Anna Berg-
ljót Thorarensen var dásamlega lífs-
glöð Rjóð og hæfilega stíf sem Aldin,
ráðgjafi Glódísar drottningar. Bald-
ur Ragnarsson gerði hinum góð-
hjartaða Geisla fallega skil og miðl-
aði vel togstreitunni milli formleg-
heitanna sem krafist var af honum
og lífsgleðinnar sem brýst fram með
ástinni. Baldur og Rósa Ásgeirs-
dóttir fá sérstakt hrós fyrir góða
túlkun sína á börnum, hann sem
Blær og hún sem Litli litur, en Rósa
náði afskaplega vel að fanga orku og
hispursleysi ungra barna jafnt í
hreyfingum og tali. Hún var einnig
fallega lágstemmd sem Særún, móð-
ir Blæs. Sigsteinn Sigurbergsson
var yndislegur Glódís drottning
enda hefur hann frábært vald á
kómískum tímasetningum og mikinn
sviðssjarma. Hann skilaði þumb-
aralega unglingnum Hafliða frá Blá-
heimum einnig með ágætum. Andr-
ea Ösp Karlsdóttir var skemmtilega
vandræðaleg sem Rauðinginn Bál
sem reynir að gera allt rétt og hafði
góðan þunga í hlutverki Bláungans
Ömmu gömlu sem stóð allar hörm-
ungar af sér eins og klettur. Björn
Thorarensen miðlaði vel sorg
Bláungans Mars, föður Blæs, og
sýndi fína takta sem Rauðinginn
Hjörtur, sem ásamt með Rósmundi í
túlkun Sigsteins miðlaði óþægilega
vel fordómum í garð þeirra sem eru
öðruvísi á litinn.
Að vanda leikur tónlistin stórt
hlutverk í sýningunni, en boðið er
upp á tíu frumsamin lög úr smiðju
Baldurs Ragnarssonar, Björns
Thorarensen og Rósu Ásgeirsdóttur
við texta Baldurs og Sævars Sig-
urgeirssonar. Eitthvað bar á því að
tónhæðir hentuðu söngvurunum
ekki alveg nógu vel sem aftur leiddi
til þess að söngtextar heyrðust illa
sem var miður. Sem betur fer heyr-
ast söngtextarnir mun betur á
geisladisknum með leikritinu í tali
og tónum sem að vanda er gefinn út
samhliða frumsýningu. Við fyrstu
hlustun voru ekki margir eyrnaorm-
ar, en lögin vinna hins vegar á við
endurtekna hlustun. Gaman er
hvernig unnið er með ólík hughrif
dúrs og molls í laginu „Nýtt líf“ þar
sem mollinn víkur fyrir dúrnum um
leið og vonin kemur til sögunnar.
Flott er einnig hvernig lagið rennur
saman við fæðingu Litla litar með
öskrum Rjóðar sem smellpassa inn í
lagið. Áhrifaríkt er einnig „Sakn-
aðarljóðið“ eftir hvarf Blæs og flott
röddunin í lokalaginu „Lengi lifi fjöl-
breytnin“.
Ákveðin áhætta felst óneitanlega í
því að róa á ný mið og kveðja vel-
þekktar persónur Ævintýraskóg-
arins. Í tilviki Litalands borgaði
áhættan sig, því útkoman er fram-
úrskarandi uppfærsla á frumsömdu
leikriti með glænýrri sögu sem miðl-
ar áhrifaríkum og mikilvægum boð-
skap um víðsýni og umburðarlyndi.
Hvað felst í litnum?
Elliðaárdalur og víðar um land
Litaland bbbbn
Eftir Önnu Bergljótu Thorarensen.
Söngtextar: Baldur Ragnarsson og
Sævar Sigurgeirsson. Lög: Baldur Ragn-
arsson, Björn Thorarensen og Rósa Ás-
geirsdóttir. Leikstjórn: Stefán Benedikt
Vilhelmsson. Búninga- og grímuhönn-
un: Kristína R. Berman. Leikmynda-
hönnun: Egill Ingibergsson og Móeiður
Helgadóttir. Danshöfundur: Berglind Ýr
Karlsdóttir. Leikarar: Andrea Ösp Karls-
dóttir, Anna Bergljót Thorarensen,
Baldur Ragnarsson, Björn Thorarensen,
Rósa Ásgeirsdóttir og Sigsteinn Sigur-
bergsson. Frumsýning í Elliðaárdalnum
25. maí, en rýnt í sýningu á sama stað
8. júní 2016.
SILJA BJÖRK
HULDUDÓTTIR
LEIKLIST
Morgunblaðið/Eggert
Áhætta „Í tilviki Litalands borgaði áhættan sig, því útkoman er framúrskarandi uppfærsla á frumsömdu leikriti
með glænýrri sögu sem miðlar áhrifaríkum og mikilvægum boðskap um víðsýni og umburðarlyndi,“ segir í rýni.
Anna Bergljót Thorarensen og Sigsteinn Sigurbergsson sem Rauðingjarnir Rjóð og Rósmundur.
LEITIN AÐ DÓRU ÍSL.TAL 2, 5
LEITIN AÐ DÓRU 3D ÍSL.TAL 1:30, 3:40, 5:50
CENTRAL INTELLIGENCE 7:30, 10
THE NICE GUYS 10:30
WARCRAFT 8, 10:30
FLORENCE FOSTER JENKINS 8
ANGRY BIRDS ÍSL.TAL 1:50, 3:50, 5:50
LAUGARÁSBÍÓ Sýningartímar
Miðasala og nánari upplýsingar
TILBOÐ KL 1:30 TILBOÐ KL 2