Tímarit Máls og menningar - 01.02.2008, Blaðsíða 77
TMM 2008 · 1 77
Í f r á s ö g u r fæ r a n d i
þáttum og sannfræði sem þær vinna úr á skapandi hátt. Sjónarhorn
sögumannsins er vítt, allt að því goðsögulegt á köflum. Hann ríkir yfir
söguheimi sínum eins og guð og segir sögurnar á innblásinn ljóðrænan
hátt. Í Rimlum hugans stígur Einar Már skrefinu nær raunveruleik-
anum. Hann birtist sjálfur sem ein af aðalpersónunum í skáldsögu.
Sagðar eru tvær sögur samhliða: annars vegar sagan af því þegar Einar
Már horfist í augu við sjálfan sig, fer í áfengismeðferð og hættir að
drekka; hins vegar ástarsaga Einars Þórs og Evu. Þau eru bæði óvirkir
fíklar, hann situr í fangelsi fyrir dópsölu og bréfaskriftir upp á gamla
mátann eru eina samskiptaleið þeirra.
Í Rimlum hugans er frásagnaraðferðin raunsærri en í flestum skáld-
sögum Einars Más ef Rauðir dagar eru undanskildir, sögumaður þess-
arar sögu er með báða fætur kirfilega á jörðinni. Og sá ljóðræni arnsúg-
ur sem einkennir sagnabálkinn sem nefndur var hér að framan er víðs-
fjarri. Stílöryggi Einars Más er samt við sig, en tilþrifin eru minni og
bréf elskendanna eru heldur lík þeim köflum þar sem sagt er frá lífi Ein-
ars Más, hvorugu þeirra er sköpuð verulega sannfærandi rödd.
Sögur þeirra Einars Þórs og Einars Más og Evu eiga erindi við les-
endur, um það þarf ekki að efast, en það má deila um gildi bókarinnar
sem skáldsögu. Sjálfum finnst mér hún líða nokkuð fyrir það hversu
mjög hún gengur inn í form hefðbundinnar sjálfsævisögu. Nauðsynleg
forsenda klassískrar sjálfsævisögu er að við leiðarlok standi sögumaður
sem fullmótaður einstaklingur sem hefur fundið sjálfan sig og sína
heimahöfn. Sögumaðurinn í Rimlum hugans og aðrar persónur sög-
unnar líka hafa náð í slíka höfn og það er lesandanum ljóst frá upphafi.
Þess vegna verður lítil spenna í textanum, það er frá upphafi ljóst að
persónurnar munu komast út úr neyslunni og þeim hremmingum sem
henni fylgja.
Skáldsaga Ara Trausta Guðmundssonar, Land þagnarinnar, byggir
einnig á lífi höfundar og fjölskyldu hans eins og þeim sem eitthvað
þekkja til verður fljótlega ljóst og kemur raunar fram í eftirmála við sög-
una. Fyrri hlutinn er hefðbundin uppvaxtarsaga þótt aðstæður aðal-
persónunnar sem nefnist Arnar Einarsson séu nokkuð óvenjulegar.
Fjölskyldan á sér leyndarmál sem vekur forvitni drengsins. Móðir hans
er þýsk og móðuramma hans býr einnig á Íslandi. Smám saman verður
drengnum ljós óvenjuleg saga þessa fólks, faðirinn hefur fyrst gifst
ömmunni og síðan móður drengsins eftir að hún kemur til þeirra á
Íslandi. Þessi fyrri hluti bókarinnar er vel skrifaður og einlæg lýsing á
þroska drengs og forvitni hans um uppruna sinn.
Seinni hluti bókarinnar segir frá leit Arnars sem fullorðins manns að