Læknablaðið - 01.05.2016, Page 46
254 LÆKNAblaðið 2016/102
Á undanförnum árum hefur orðið mikil
aukning í ávísunum á lyf sem innihalda
testósterón, sjá meðfylgjandi töflur. Fjöldi
einstaklinga sem fá ávísað testósteróni
hér á landi er margfaldur á við það sem
þekkist í nágrannalöndum okkar og á það
við bæði um karla og konur. Fjöldi karla
sem fengu lyfinu ávísað hér á landi nærri
tvöfaldaðist á árunum 2005-2015 en fjöldi
kvenna hefur lítið breyst (tafla I).
Tafla I sýnir fjölda einstaklinga sem fengu ávísað
testósteróni á árunum 2005, 2010 og 2015:
2005 2010 2015
karlar 728 926 1321
konur 142 143 134
samtals 870 1069 1455
Samkvæmt þessu hefur fjöldi karla sem
fékk lyfjunum ávísað aukist um 80% frá
2005 til 2015 en konum fækkaði lítillega.
Ávísaðir dagsskammtar (DDD) á 1000 íbúa
jukust um 85% fyrir karla en minnkuðu
um 16% fyrir konur á sama tímabili. Ávís-
anir lyfjanna eru að mestu bundnar við
heilsugæsluna á þessu tímabili.
Skilgreiningar
Kynkirtlavanseyting (hypogonadism)
verður þegar framleiðsla testósteróns í
líkamanum er ófullnægjandi. Eðlilegt er
að framleiðsla testósteróns minnki með
hækkandi aldri en sú minnkun er eðlileg
og fellur ekki undir skilgreininguna á
kynkirtlavanseytingu. Testósterón hefur
mikil og margvísleg áhrif á hin ýmsu
líffæri og skortur á því veldur þess vegna
ýmis konar óþægindum.
Greining
Greining byggist á sjúkdómseinkenn-
um og testósterónmælingum í blóði.
Helstu einkennin eru minnkuð kynhvöt
og kyngeta, þunglyndi, svefntruflanir,
aukin hætta á sykursýki, minnkaður
vöðvamassi, aukin innyflafita, hækkaðar
blóðfitur, minnkaður beinmassi, aukin
hætta á hjarta- og heilaáföllum og fleira
mætti telja. Þessu fylgja skert lífsgæði
og aukin dánartíðni. Testósterón í blóði
þessara sjúklinga er lágt miðað við aldur
en ekki er almenn samstaða um hvar eigi
að draga mörkin. Testósterónmælingar
eru erfiðar og oft mikill munur á milli
rannsóknastofa og flestir sjúklingar eru
með verulega dægursveiflu sem taka þarf
tillit til. Greining testósterónskorts er þess
vegna erfið, huga þarf að ýmsum mis-
munagreiningum og talsverð hætta er á
ofgreiningum.
Algengi
Erfitt er að átta sig á algengi kyn-
kirtlavanseytingar og þegar birtar heim-
ildir eru skoðaðar má sjá mjög misvísandi
tölur enda eru skilgreiningar og skilmerki
á reiki. Algengi testósterónskorts er mun
hærra hjá þeim sem eru með offitu, há-
þrýsting, sykursýki og fleiri kvilla.
Meðferð og aukaverkanir
Þegar búið er að greina sjúkdóminn er
meðferðin venjulega gjöf testósteróns.
Hér á landi eru á markaði tvö sérlyf sem
innihalda testósterón, Nebido stungulyf
til gjafar í vöðva og Testogel hlaup til að
bera á húð. Meðferð með testósteróni er
alls ekki hættulaus og henni geta fylgt
alls kyns aukaverkanir, sumar hættulegar
(sjá til dæmis sérlyfjaskrá). Það vekur
athygli hve margar konur fengu ávísað
testósteróni en á árinu 2014 voru þær 164 á
Íslandi eða ein á hverjar 1000 konur (tafla
II). Engin viðurkennd ábending er fyrir
notkun testósteróns hjá konum en slíkri
notkun fylgja venjulega skeggvöxtur,
raddbreytingar, þrymlabólur og fleira.
Tafla II sýnir fjölda einstaklinga/1000 íbúa sem
fengu testósterón árið 2014 í Danmörku, Noregi
og á Íslandi.
Danmörk Noregur Ísland
karlar 1,04 3,65 7,37
konur 0,05 0,52 1,01
Ofnotkun og misnotkun?
Þessi mikla og vaxandi notkun testó-
steróns á Íslandi, sem er margfalt meiri
en í Danmörku og Noregi, hlýtur að vekja
ýmsar spurningar. Einnig blasir við sú
staðreynd að notkun testósteróns hefur
tvöfaldast á undanförnum 10 árum hjá
körlum en hefur staðið að mestu í stað hjá
konum. Töluvert er um að vaxtarræktar-
menn og sumir aðrir íþróttamenn misnoti
testósterón en lyfið er á bannlista hjá
íþróttahreyfingunni. Ekki er hægt að úti-
loka að hluti aukningarinnar sé til kominn
vegna ásóknar þessara hópa í lyfin. Annar
og sennilega nærtækari möguleiki er að
aukningin og hin mikla notkun hér á landi
sé vegna vangreininga testósterónskorts á
árum áður eða ofgreininga á síðari árum,
nema hvort tveggja sé.
Ástæða er til að hvetja lækna að vanda
sig við greiningar á kynkirtlavanseytingu
og fást ekki við slíkar greiningar nema
þeir hafi til þess alla burði. Ekki skal gert
lítið úr því að kynkirtlavanseyting er
heil brigðisvandamál sem mikilvægt er
að greina og meðhöndla, og þannig bæta
heilsu og lífsgæði sjúklinganna, en sú
mikla og vaxandi notkun sem hér er lýst
hlýtur að kalla á skýringar.
Kynkirtlavanseyting
og testósterón
Magnús Jóhannsson
læknir
magnus@landlaeknir.is
Anna Björg Aradóttir
sviðsstjóri
Lárus Guðmundsson
lyfjafræðingur
Ólafur Einarsson
verkefnisstjóri
F R Á E M B Æ T T I L A N D L Æ K N I S 1 3 . P I S T I L L