Fréttatíminn - 23.09.2016, Síða 52
Sólrún Lilja Ragnarsdóttir
solrunlilja@amk.is
Fyrir fimm árum var ég algjör sykurfíkill og var háð því að fá nammi um helgar. Ég beið alltaf eft-ir helgunum til að geta
fengið mér nammi, því ég var með
nammidaga um helgar, eins og
svo margir Íslendingar. En ég fékk
mér oft ís á kvöldin í miðri viku
og elskaði Ben&Jerry’s og borðaði
mjög mikið af skyndibita í mennta-
skóla. Þetta hafði aldrei nein áhrif
á mig, að ég hélt, en ég áttaði mig
skyndilega á því að ég var komin
með fleiri heilsukvilla en ég hafði
tölu á,“ segir Júlía Magnúsdótt-
ir, næringar- og lífsstílsráðgjafi,
heilsumarkþjálfi, eigandi Lifðu til
fulls heilsumarkþjálfunar og nú
höfundur samnefndar bókar sem
kom út á dögunum. En bókin,
Lifðu til fulls, er nú fyrsta sæti á
metsölulista Eymundsson.
Greip allar flensur
Júlía tekur á móti blaðamanni á
heimili sínu í Kópavogi, rétt við
Elliðavatn, og er búin að útbúa
handa okkur dýrindis morgun-
verðarskál – gráfíkjumúslí með
kókosrjóma beint úr bókinni.
Hún hafði glímt við ýmsa heilsu-
kvilla um hríð, suma frá unga
aldri, en tengdi þá ekkert endilega
við lífsstíl sinn eða mataræðið. Það
var ekki fyrr en hún ákvað að gera
róttækar breytingar á mataræðinu,
og fór á plöntumiðað fæði, að hún
áttaði sig á því að það var ekki
eðlilegt að upplifa stöðug líkamleg
óþægindi. „Það var svo margt sem
ég hafði lært að lifa með. Þegar ég
var yngri þá var ég til dæmis alltaf
fyrst til að grípa allar flensur og
greindist líka með iðraólgu, sem
lýsir sér með meltingarkrömpum
og hægðatregðu.
Vildi ekki liggja veik
Fyrir um fimm árum var Júlía
orðin virkilega slæm af iðraólg-
unni, hún var alltaf veik og þrátt
fyrir að sofa mjög mikið var hún
alltaf þreytt. Þá var hún farin að
þjást af liðverkjum sem öftruðu
henni frá því að hlaupa – eitt-
hvað sem hún elskaði gera. „Ég
greindist síðar með latan skjald-
kirtil sem hægir á brennslunni
og getur valdið áðurtöldum ein-
kennum. Síðan greindist ég með
PMS, sem er hormónaójafnvægi
sem getur raskað tíðahringnum,
dregið úr líkum á barneignum og
valdið fjölda annarra einkenna.
Þegar ég var komin með þetta allt
þá sá ég bara að ég varð að breyta
einhverju. Ef ég myndi ekki gera
það, þá þyrfti ég að fara á lyf.
Mig langaði til að ferðast í lífinu
og mig langaði ekki að vera með
meltingarkrampa á ferðalögum
mínum, eða þurfa að liggja veik
uppi á hótelherbergi. Þannig ég
ákvað taka glútein, allar mjólkur-
vörur, sykur og egg út úr fæðunni
og fór á hreint og plöntumiðað
fæði. Eftir bara viku á því matar-
æði fann ég hvað mér leið miklu
betur. Ég var orkumeiri, ég var
farin að vakna á undan vekjara-
klukkunni, magakramparnir og
verkirnir í fótunum hurfu. Og mér
leið bara virkilega vel, sem hvatti
mig til að halda áfram.“
Gerði góða matinn hollari
Júlía viðurkennir þó að það hafi
komið tímabil þarna í upphafi þar
sem hún fór út af sporinu í nýja
mataræðinu, fékk sér pítsu eða
annað óhollt. En henni leið svo
hræðilega eftir á að það hvatti
hana bara enn frekar áfram á
beinu brautinni. Þó löngunin í
sætindi og óhollan mat hyrfi vissu-
lega ekki á nokkrum dögum. „Ég
var búin að finna hvað mér gat
liðið vel og ég vildi ekki fórna því.
Í kjölfarið fór ég svo að þróa upp-
skriftir þar sem maturinn missti
ekki góða bragðið á kostnað holl-
ustunnar. Ég tók matinn sem ég
borðaði dagsdaglega og gerði hann
hollari með því að nota önnur
hráefni. Þetta má nefnilega ekki
vera matur sem maður þarf að
pína ofan í sig. Þá er maður ekki
að njóta og líklegt að maður gefist
upp. Mér fannst flókið að átta mig
á því hvernig ég ætti að breyta lífs-
stílnum og var það einn hvatinn
að skrifa bókina. Ég vildi einfalda
öðrum leiðina að bættum lífstíl og
sanna að hægt væri að borða virki-
Var sykurfíkill Júlía segist hafa verið háð sykri og var dugleg að borða skyndibita. Það kom niður á heilsu hennar og dag einn ákvað hún að
grípa í taumana. Mynd | Hari
Var komin með fleiri heilsukvilla
en hún hafði tölu á
Júlía ákvað að breyta um lífsstíl í von um að líða betur. Árangurinn lét ekki á sér standa og lífsstíllinn varð að starfsferli.
Hún sendi nýlega frá sér bókina Lifðu til fulls til að auðvelda fleirum leiðina að bættum lífsstíl og hollara mataræði.
lega bragðgóðan mat án sykurs eða
óhollustu sem væri fljótlegur og
einfaldur líka.“
Maðurinn líka á beinu brautinni
Eftir nokkur hliðarspor varð Júl-
ía fljótt heltekin af nýja lífsstíln-
um og hún ákvað að mennta sig á
þessu sviði, en fyrir hafði hún lært
viðskipta- og hagfræði. Og þannig
varð lífsstíllinn að starfsferli. „Eftir
þessa uppgötvun hjá mér langaði
mig að hjálpa öðrum og ég fann
að aðrir upplifðu það sama og ég,“
segir Júlía og brosir. Hún er nú al-
veg laus við verkina, þreytuna og
vanlíðanina sem hún glímdi við í
mörg ár. Sumt lagaðist mjög fljótt,
en það tók lengri tíma að ná skjald-
kirtlinum í jafnvægi og að losna við
einkennin vegna PMS.
Maðurinn hennar Júl-
íu hefur einnig tekið sig á
í mataræðinu, en þá vegferð
hóf hann ekki fyrr en hann hafði
greinst með áunnið glútein- og
mjólkuróþol.
„Maðurinn minn vill ekki vera
svona öfgakenndur. Hann vildi
ekki fara alveg út í vegan lífsstíl. Ég
prófaði sjálf að fara alveg út í vegan
lífsstíl en nú borða fisk einu sinni
í viku. Ég get vissulega fengið öll
þau næringarefni sem ég þarf með
því að vera vegan, en ég er alin
upp við fisk, finnst hann góður
og sé ekki ástæðu til að neita mér
um hann.“
Snýst um að venja sig
Júlía og maðurinn hennar borða
alltaf hreina fæðu heima. Hann
borðar hins vegar kjöt af og til og
svo auðvitað fisk. „Þetta er maður
sem lifði á kóki, mjólk, kókópöffsi
og pítsum, en í dag drekkur hann
hrísmjólk og finnst hún betri. Þetta
snýst mikið um að venja sig á nýja
fæðu og ekki byrja með því hugar-
fari að þetta sé vont. í dag finnst
mér maturinn minn miklu betri
en sá sem ég borðaði áður og að
upplifa vellíðan af einhverju sem
bragðast vel er dásamlegt.
Aðspurð segir Júlía það ekki hafa
valdið neinum árekstrum í hjóna-
bandinu að mataræðið sé ólíkt.
„Þegar við förum út að borða þá
kaupir hann sér stundum ham-
borgara á meðan ég kaupi mér
eitthvað sem mér líður vel af og
fullkomlega sátt við það. Hann seg-
ir oft að sér líði illa eftir matinn,
en það er bara hans ákvörðun,“
segir Júlía og hlær. „Ég þvinga ekki
mínum ákvörðunum upp á hann.
En mataræðið hans er samt allt
öðruvísi en það var. Hann er í holl-
ustunni 80 prósent af tímanum.
Sem sýnir bara að öll okkar þurf-
um að finna okkar takt í breyttum
lífsstíl.“
Vildi ekki vinna fyrir aðra
Áður en Júlía hellti sér út í heilsu-
fræðin vissi hún ekki alveg hvað
hún vildi gera í lífinu. Hún var ekki
ánægð í starfi og það var ekki bæt-
andi á líkamlegu vanlíðanina sem
hún var að upplifa. „Ég var í vinnu
sem var ekki að uppfylla mín-
ar þarfir. Ég var ekki ánægð og á
ákveðnum tímapunkti ákvað ég að
ég ætlaði mér ekki að vinna fyrir
einhvern annan frá 9 til 5, við eitt-
hvað sem ég hafði enga unun af.
Eftir að ég tók þessa ákvörðun datt
ég niður á skóla þar sem ég lærði
heilsumarkþjálfun og næringar- og
lífsstílsráðgjöf.“ Eftir að Júlía lauk
náminu fór hún strax út í að stofna
sitt eigið fyrirtæki sem hefur vaxið
og dafnað síðan. Hún er dugleg að
viða sér nýrri þekkingu og sæk-
ir reglulega námskeið í nýjustu
straumum og stefnum í heilsum-
ataræði. „Mér finnst mjög gaman
að læra. Það veitir mér hamingju.
Ég held að ég muni aldrei hætta
að læra.“
…viðtal 4 | amk… FÖSTUDAGUR 23. SEPTEMBER 2016
Eftir þessa upp
götvun hjá mér
langaði mig að hjálpa
öðrum og ég fann að
aðrir upplifðu það
sama og ég
Köllunarklettsvegi 1, 104 Reykjavík • Sími: 531 3300 • ritstjorn@amk.is
Útgefandi: Gunnar Smári Egilsson. Blaðamenn: Katrín Bessadóttir, katrin@amk.is; Kidda Svarfdal, kidda@amk.is og Sólrún Lilja Ragnarsdóttir, solrunlilja@amk.is.
Framkvæmdastjóri og auglýsingastjóri: Valdimar Birgisson. amk… er gefið út af Morgundegi ehf. og er prentað í 83.000 eintökum í Landsprenti.