Tímarit Hjúkrunarfélags Íslands - 01.07.1972, Blaðsíða 20
á, sýndi hún mestan styrk, og þó fokið sýndist í öll skjól lagði hún sig
fram engu að síður. Hún gaf engan upp á bátinn, hún gafst aldrei upp.
Hún var glaðleg í viðmóti, hafði ætíð gamanyrði á vörum en aldrei varð
græska fundin í kímninni.
Hún vann langan dag. Alla morgna var hún komin til sjúklinga sinna
á sjöunda tímanum, helga daga sem virka. Vinnudagur hennar náði yfir
tvær vaktir hj úkrunarkvenna, eins og þær eru í dag, og stundum meira,
ef einhver sjúklinga hennar var þungt haldinn. Og ætíð var hún glöð,
jafnt seint á kvöldi og að morgni dags, en sæi vökult auga hennar mis-
fellur í starfi einhvers, eða eitthvað, sem að hennar dómi var vanræksla
eða jaðraði við það, þá gat hvesst, hver sem í hlut átti. En aldrei erfði
hún það við nokkurn mann.
Hjúkrun var köllun hennar, og þó köllunin ein nægi engum til þess að
leysa starf vel af hendi, þá eru þeir líklegri til afreka, sem eru kallaðir,
en hinir, sem vinna verk sitt til þess eins að hafa af því daglega fæðslu
eða afla sér auðs. Hún var ekki ein þeirra, sem „alheimta daglaun að
kveldi".
Það, sem hún bar úr býtum á veraldarvísu, voru ígangsklæði, rúm til
þess að sofa í, oft skammar nætur, og viðurværi skammtað af hófsemi
og sneytt öllum íburði. Umbun hennar var sú að hafa látið gott af sér
leiða, að hafa verið þeim stoð og hjálp, sem þurftu þess.
Síðustu árin fékkst hún ekki við hjúkrun. Ekki settist hún samt í
helgan stein, heldur lagði hönd að því, sem spítalanum var til þurftar
og kraftar hennar leyfðu. Hún var dæmigerð reglusystir, sem varði lífi
sínu fyrir aðra, ekki með hangandii hendi og eftirtölum, heldur fann hún
í því fyllingu lífs síns. Hún átti sinn þátt ómældan í því, að Jósefs-
systur hafa getað rekið Landakotsspítala fram á þennan dag, þó aldrei
hafi það verið séð við þær af yfirvöldum og þeim ætíð verið skammtað
mun minna til rekstursins en öðrum spítölum sambærilegum af fé skatt-
borgarans.
María Ahling fæddist í Quakenbriick hjá Osnabrúck 21. september
1882. Kornung missti hún báða foreldra sína. Hún gekk í systrareglu
Heilags Jósefs 22ja ára að aldri og vann klausturheit sitt endanlegt 19.
marz 1915. Hún kom hingað 1917 og var hjúkrunarkona í Landakots-
spítala þar til 1957, að hún hætti þeim störfum, þá hálfáttræð. — Hún
andaðist í hópi systra sinna snemma morguns 21. marz 1972. Henni
hlotnaðist það hnoss að losna við erfitt dauðastríð. Hún var við fulla
rænu til hinztu stundar, lagðist út af og var örend.
Þetta er stutt ævisaga og sýnist ekki viðburðarík, mælt á kvarða þeirra,
sem sækjast eftir prjáli heimsins. En líf hennar var ríkt. Hún kynntist
fleiri flötum mannlegs lífs en margur, sem meira hefur umleikis. Hún
liafði staðið við margan sjúkrabeð, þar sem fólk í broddi lífsins háði
baráttu við dauðann, grimman og miskunnarlausan, sigraði stundum, en
varð stundum að lúta í lægra haldi, líka við beð öldungsins, þar sem
dauðinn kom eins og vinur og endurlausnai’i. Á þessum stundum, sem
erfiðastar eru, stóð enginn einn, sem hafði þessa hlýju, traustu, æðru-
lausu konu við rúmstokkinn.
Mér finnst þessi kona, komin út hingað af Saxlandi, hafa verið fs-
lendingum þarfari í hljóðlátri önn en margur sá, sem gengur á torg og
ber bumbur fyrir sjálfum sér.
Ég þakka áratuga kynni, sem aldrei féll á skuggi.
Requiescat in pace.
Bjarni Jónsson.