Tímarit Hjúkrunarfélags Íslands - 01.07.1972, Síða 35

Tímarit Hjúkrunarfélags Íslands - 01.07.1972, Síða 35
komna. En aftur á móti hefur það miður góð áhrif á sjúkling, sem bíður uppskurðar, ef hann þarf að liggja t. d. á tvíbýlisstofu með nýuppskorn- um sjúklingi. Allt það dót, sem honum fylgir, ef aðgerðin hefur verið stórvægileg, verkar ónotalega á flesta. En slíkt fyrirkomulag er reynt að forðast og kemur vart fyrir, nema þar sem deild er yfirfull. Öryggiskennd sjúklings á sjúkrahúsi þarf að styrkja með ráðum og dáð. Reynt skal að svara öllum hringingum strax, svo að ekki fari að setjast efasemdir í huga hins nýkomna: ef hann lægi hér ósjálfbjarga eftir skurðaðgerð, þyrfti hann að liggja svo og svo lengi og bíða svars. Mjög óæskilegt er, svo sem oft vill verða, að sjúklingarnir séu að ræða sín á milli um læknisaðgerð, sem einn aðilinn er e. t. v. í þann veg að gangast undir. Að sjálfsögðu vita þeir það bezt, sem slíka aðgerð hafa reynt, hvernig líðanin er á meðan, en þeir eru líka sumir ekki að draga neitt af því. Sumar lýsingarnar eru stórum ýktar, en það eru oftast þær, sem eftir sitja í huga þess, sem bíður. En við þessu er ekki auðvelt að sporna. Sjúkrahúsið og öll tæki þess eru svo nýstárleg í augum hinna nýkomnu, að þeir trúa flestu þar að lútandi. Þeir, sem eru að koma í aðra, þriðju eða jafnvel fjórðu sjúkrahúsvist sína, vita betur. En eigi að síður þurfa þeir okkar með. Eitt sinn kom sú tillaga fram, að ekki væri vanþörf á að hafa sérstaka stúlku, helzt hjúkrunarkonu, sem gegndi því starfi einvörðungu að ganga um meðal sjúklinganna, ræða við þá og miðla þeim af reynslu sinni, veita þeim aðallega andlega hjúkrun. Tími sá, sem föstu starfsliði á deild er ætlaður til slíks, er naumur, næsta enginn. Þau skyldustörf, sem vinna þarf, eru vart búin, þegar vakt er lokið. Þarna er úrbóta þörf, en fólkseklan segir þar til sín sem annars staðar. En þó að starfslið hinna ýmsu deilda reyni að uppfylla helztu skilyrði andlegrar aðhlynningar, er þó stofugangur að margra áliti einna mikil- vægasti þátturinn. Á þeim gönguferðum læknanna myndast oft hin einu persónulegu tengsl þeirra og sjúklinganna. En núverandi fyrirkomulag þess þáttar er ófullnægjandi og sjúklingum til lítils gagns. Oftast er stofugangur allt of fjölmennur, stundum jafnvel svo, að hinir síðustu verða að standa utan dyra, þannig að hvorki sjúklingum né þátttakend- um er nokkur akkur í þessari stund. Margir sjúklingar þora ekki að segja það, sem þeim býr í brjósti, við slíkar kringumstæður, svo að kvart- anir þeirra berast ekki beint til læknanna. Venja er að líta til allra sjúkl- inga á þessum gönguferðum, en þó verða þær undantekningar sem annars staðar og þær eru þá helzt sjúklingar, sem eiga skammt eftir ólifað. En við getum ekki alltaf gert okkur grein fyrir því, hversu skynjun slíkra sjúklinga er komið. En þeir, sem hafa fulla meðvitund, eiga heimtingu á því, að til þeirra sé litið eins og hinna, sem eiga sér batavon. Það hlýtur að vera þeim kvöl að finna, að þeir eru einskis metnir lengur, ekki einu sinni verðir þess, að á þá sé litið. Áberandi er, hversu aðstandendur eru oft sniðgengnir og hreinlega reknir frá. Þeir geta hjálpað mikið og gera það yfirleitt með heimsóknum sínum og næi*veru. En í einstaka tilfellum geta þeir þó gert meira ógagn en gagn. Nærtæk er mynd um gömul hjón, þar sem eiginmaðurinn var sjúklingur. Gamla konan dró svo úr honum allan kjark, að hann vissi vart, hverju hann átti að svara, væri honum boðið vatnsglas. Loks var hann kominn á þá skoðun, að hann væri alveg fárveikur. í slíkum tilfell- um þarf að ræða við aðstandendur og leiða þeim fyrir sjónir, hve fram- koma þeirra tefur fyrir bata sjúklingsins. Árangursríkt gæti orðið, ef læknar sæju sér fært að hafa ákveðinn viðtalstíma á sjúkrahúsinu ein- ungis fyrir sjúklinga þá, er þar lægju, og aðstandendur þeirra. Þannig væri örugglega hægt að koma í veg fyrir margs konar leiðindi og mis- skilning. Framhald á hls. 73. TÍMARIT HJÚKRUNARFÉLAGS ÍSLANDS 65

x

Tímarit Hjúkrunarfélags Íslands

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit Hjúkrunarfélags Íslands
https://timarit.is/publication/1239

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.