Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.12.1993, Síða 62

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.12.1993, Síða 62
Tímarit hjúkrunarfræðinga 1. tbl. 1. árg. 1993 Þankastik: Frásagnarhefð Kristín Björnsdóttir, lektor Eftir því sem árin líða finnst mér hjúkrun verða meira spennandi. Mér verður sífellt betur ljóst hve víðtækrar þekkingar og reynslu árangursrfk umönnun krefst. Ég fyllist lotningu þegar ég hugsa um hjúkrunarfræðinga sem ég hef kynnst á lífsleiðinni sem virðast hafa náð undraverðum tökum á starfinu. Ég held að fyrir þeim sé hjúkrun stöðugur brunnur nýrrar reynslu, nýs skilnings á fjölbreytilegu mannlegu eðli og leiðum til þess að hjálpa fólki til að takast á við óvænta atburði sem oftar en ekki krefjast breytinga á lífi þess. Stundum hugsa ég um það hvernig hægt sé að þróa þessa færni í starfi meðan á námi stendur. Hvernig geta nemendur öðlast þann djúpa skilning og innsæi sem virðist einkenna bestu hjúkrunarfræðingana okkar? Eitt af því sem talið er mikilvægt til að þróa dýpt og færni í hjúkrunarstarfinu er að fá tækifæri til að segja frá reynslu sinni. Slík frásögn hjálpar manni til að íhuga merkingu atburða og öðlast þannig dýpri skilning á þeim. í frásögninni veljum við mikilvæga þætti, drögum fram það sem skiptir meginmáli í ákveðnum aðstæðum. Jafnframt fáum við viðbrögð áheyrenda okkar við túlkun okkar og getum á þann hátt öðlast enn dýpri skilning á aðstæðum (Benner,1991; Kirkevold, 1993). En hvernig höfum við ræktað sagnahefðina í hjúkrun? Hefur frásögnin verið mikilvægur þáttur í menntun og störfum hjúkrunarfræðinga? Ég veit ekki svarið við þessari spurningu en varpa henni til þín, lesandi góður. Ég sjálf man sérstaklega eftir því hvernig ég og félagar mínir sögðum sögur af því sem við kynntumst í námi á mismunandi stofnunum og fyrstu árin eftir að námi lauk. Sumir þeirra hjúkrunarfræðinga, sem ég ræddi við í tengslum við rannsókn mína, notuðu frásögnina til að lýsa reynslu sinni. Þeir tóku dæmi úr starfi sínu sem var eins konar dæmisaga, sértækt dæmi sem fól þó í sér algildan sannleika. Sögur sem þessar geta verið leiðbeinandi. í þeim er dregið fram það sem skiptir mestu máli við ákveðnar aðstæður. Ástæðan fyrir því að ég ákvað að fjalia um frásögnina í þessum stutta pistli er sú að ég held að við höfum ekki gefið henni nógu mikinn gaum. Við höfum ekki ræktað sagnahefð okkar og þróað hana. Við erum kannski ekki nógu vön að tjá okkur um hjúkrun, finnst þau viðfangsefni, sem snerta hjúkrun, vera hversdagsleg og augljós. Það vakti athygli breska félagsfræðingsins Clare Ungerson (1987), er hún vann að rannsókn á reynslu umönnunaraðila af umönnun náinna aðstandenda, að karlmennirnir í úrtakinu hennar höfðu mun fleiri orð um umönnun sína en konurnar. Þeir lýstu aðferðum sínum og árangri umönnunar í mörgum orðum á meðan konurnar höfðu um hana fá orð. Ungerson taldi að skýringin á þessum mismun væri sú að karlmennimir voru að uppgötva svið sem þeir höfðu ekki þekkt fyrr og það kom þeim skemmtilega á óvart hve margbreytilegt og skemmtilegt það var. Umönnun var hins vegar svo sjálfsagður hlutur fyrir konurnar, svo stór hluti af þeirra daglega lífl, að það hefði verið eins og að lýsa því í smáatriðum hvernig maður fer að því að klæða sig og borða að lýsa henni lið fyrir lið. Jafnframt taldi Ungerson að karlmennirnir hefðu notað frásagnaraðferð sem var þeim eiginleg í starfi. Þeir voru einfaldlega vanir að greina frá störfum sínum og voru ekkert að draga undan. Hvaða lærdóm má af þessu draga ? Ég held að það verði hjúkrunarfræðinni mjög til framdráttar að sú sagnahefð, sem vissulega er til staðar. verði þróuð og efld. Við þurfum að þróa okkar eigið tungumál; tungumál sem endurspeglar þann heim sem við köllum hjúkrun. Vissulega eru hjúkrunargreiningarnar tilraun til að þróa slíkt mál, en þess ber þó að gæta að þeim er ætlað að vera hlutlæg, algild lýsing á þeim viðfangsefnum sem hjúkrunarfræðingar takast á við í starfi. Frásögnin, í þeirri merkingu sem ég á við hér, gefur okkur tækifæri til að lýsa atburðum á þann hátt að persónuleg líðan, t.d. tilfinningar, verði hluti af sögunni. Siðferðilegar vangaveltur og umhugsun um árangursrikar aðferðir til að leysa klínísk vanda- mál koma fram. Frásögnin gerir okkur kleift að lýsa ákveðnum aðstæðum á heildrænan hátt. Helmlldlr Benner, P. (1991). The role of experience, narrative, and community in skilled ethical comportment. Advances in Nursing Science, 14(2), 1-12. Kirkevold, M. (1993). Fortellingens plass i sykepleiefaget. I M. Kirkevold, F. Nortvedt og H. Alvsvag (Ritstj.) Klokskap og kyndighet. Oslo: Ad Notam Gyldendal. ' Ungerson, C. (1987). Policy is personal. London: Tavistock.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.