Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.1994, Blaðsíða 26

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.1994, Blaðsíða 26
Tímarit hjúkrunarfræðinga 2. tbl. 70. árg. 1994 Lífseig sektarkennd þolenda Það skýtur óneitanlega skökku við að þolendur nauðgana skuli ásaka sjálfa sig og fyllast sektar- kennd eins og svo mörg dæmi sanna. Hvernig getur fórnarlamb alvarlegrar líkamsárásar kennt sjálfu sér um? Þó að við vitum að sektarkennd þolenda sé ekki í nokkru samhengi við ábyrgð þeirra á því sem gerðist þurfum við að gefa þeim svigrúm til þess að hugsa og ræða það sem fram kemur í hugann, þar með taldar hugsanir af þessu tagi. Tilfmningar stjórnast ekki af rökhugsun og skil milli raun- veruleika og hugarheims geta óskýrst um stundar- sakir. Margar konur efast um eigin dómgreind og eigin skynjun og leita skýringa. Þær spyrja: „Hvers vegna, hvers vegna ég? Hvað gerði ég til þess að kalla þetta yfir mig? I þessu sambandi held ég að sé gagnlegt að minnast á þá lífseigu goðsögn að innst inni njóti konur þess að láta nauðga sér. Jafnvel fagfólk hefur haldið því fram að sektarkennd þolenda nauðgana stafi af afneitaðri nautn þeirra og að þeir losni ekki undan henni fyrr en þeir viðurkenni ánægju sína af árásinni. Þessu til stuðnings er vitnað til draum- óra kvenna en sumum finnst örvandi tilhugsunin um að vera neydd til kynmaka. Það er hins vegar stórkostlegur munur á draumórum og raunveru- legri nauðgun. I draumórum er hugmyndin sköp- uð af konunni og henni er stjórnað af konunni. Konan sjálf ákveður að hún vilji láta yfirbuga sig. Hún ræður hver hinn aðilinn á að vera, hún ræður hvar það á að gerast, hún ræður hvað gert verður við hana og hún ræður hvenær því lýkur. í raunverulegri nauðgun er öllum formerkjum umturnað. í fyrsta lagi vill konan ekki láta nauðga sér. í öðru lagi er nauðgarinn trúlega andstæðan við þann sem hún hefði valið sér og aðstæður allar sömuleiðis. Þolendur nauðgana finna hvorki fyrir spennu né nautn heldur sársauka, hræðslu, niður- lægingu og margir óttast um líf sitt. Vandi aðstandenda í neyðarmóttökunni þarf stundum að ræða við maka, foreldri eða vin en til þess þarf samþykki þolandans. Það er gert til að þau verði færari í að styðja hann en jafnframt hafa nánustu aðstandend- ur oft mikla þörf fyrir að ræða sína líðan. Til dæmis getur eiginmaður verið uppfullur af reiði út í eig- inkonu sem hefur orðið fyrir nauðgun, jafnvel þó að hann viti að reiði hans er ekki sanngjörn. Eins geta foreldrar kennt sjálfum sér um hvernig fór vegna þess að þeir leyfðu unglingsdóttur sinni að fara út þetta kvöld. Aðstandendum veitist stundum erfitt að styðja við bakið á þolanda nauðgunar vegna ótta þeirra við að særa hann, en þannig verður þolandinn af þeirri hjálp sem hans nánustu geta veitt honum. Aðstandendur þurfa því að fá leiðbeiningar um að þolandinn þurfi að fá svigrúm til að ræða það sem gerðist en að aldrei megi þrýsta á hann til þess. Þá getur verið gagnlegt að fræða aðstandendur um hugsanleg varnarviðbrögð þolandans eins og þau að reiði hans beinist gegn öðrum en eiga hana skilið. „Til hvers að vera að velta sér upp úr þessu?" Oft eru þolendur nauðgunar tregir til að leita sér aðstoðar eftir nauðgun eða hætta eftir skamman tíma. Algengasta skýringin er vanhæfni meðferðar- aðila en fleira kemur til. Margir þolendur hafa þörf fyrir að sanna fyrir sjálfum sér og öðrum að það sé allt í lagi með þá. Sumum þolendum finnst til- gangslaust að tala um orðinn hlut því að honum verði ekki breytt. Aðrir telja sig betur geta komist yfir áfallið því fyrr sem þeir gleymi því, það geri bara illt verra að vera að „velta sér upp úr hlutun- um“. Þegar kona hefur deilt sárri reynslu sinni með okkur verðum við stundum eins og óbærileg áminning um áfallið og því telur hún okkur betur gleymdar en geymdar. Þarna er eitt dæmi um togstreitu milli þess sem við teljum að sé þolanda fyrir bestu og þess sem hann vill. Við erum sannfærðar um að með því að loka á minningar og sárar tilfinningar, sem tengjast áfallinu, og láta eins og ekkert hafi í skorist sé þol- andi í minni tengslum við eigin sársauka, reiði og ótta og sé þar af leiðandi síður meðvitaður um hvernig þær tilfinningar hafa áhrif á samskipti hans við annað fólk. En mikilvægari sannfæringu okkar er ósk þolandans og því virðum við ákvörðun hans en gefum honum jafnframt kost á að koma aftur síðar. 26

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.