Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.1994, Side 27
Tímarit h j úkr unarfræði nga 2. tbl. 70. árg. 1994
Til lengri tíma litið
Hverjar geta verið langtíma afleiðingar nauðgunar
ef þolandi fær enga hjálp við að vinna úr reynslu
sinni? Þetta er auðvitað mjög einstaklingsbundið
en ég vil vara við að langtímaáhrif séu áætluð út
frá fyrstu viðbrögðum þolandans. Yfirvegun tryggir
ekki að þolandi sé ósnortinn. Hamsleysi þýðir
heldur ekki að hann leysi málið með kröftugri
útrás. Hvorug þessara viðbragða segja okkur
nokkuð um langtímaafleiðingar árásarinnar.
Sú reynsla, að ráðist sé inn í innsta kjarna
manns, getur valdið varanlegum ótta og valdleysis-
tilfinningu. Hvers konar þvingun eða ágengni,
sama hversu lítil hún virðist í augum annarra, getur
verið skynjuð sem yfirþyrmandi ógn. Jafnvel þó að
þolandi bæli minningar tengdar nauðguninni, geri
lítið úr henni eða telji sig vera kominn yfir hana,
getur þessi hræðsla brotist fram á ýmsan hátt.
Þolandi getur verið heltekinn áráttuhugsunum eða
athöfnum sem ómeðvitað þjóna því hlutverki að
útiloka erfiðar hugsanir og minningar. Hann er
stöðugt á varðbergi gagnvart öðru fólki en slíkt
hamlar mjög nánum samskiptum og getur valdið
mikilli angist ekki síst þegar hann getur ekki tengt
orsök og afleiðingu og finnst því líðan sín alveg
óskiljanleg.
Margar konur fyllast skömm á eigin líkama.
Þær eiga erfitt með að njóta kynlífs og þó að
ástæðan virðist augljós er mikilvægt að gaumgæfa
nákvæmlega hvað það er sem veldur þeim erfiðleik-
um. Ómeðvitað tengja margir þolendur svo mikla
nálægð fyrst og fremst við sársauka, niðurlægingu
og vanmátt. Þegar þeir geta skoðað og hugsað um
þessar tilfinningar lina tilfmningarnar oft tökin og
fyrnast með tímanum.
Sumir þolendur eru óvissir um eigin þátt í
árásinni og margir þjást af sektarkennd, sjálfs-
fyrirlitningu og depurð. Það verður vart ítrekað um
of að sektarkennd þolenda stendur ekki í samhengi
við ábyrgð þeirra á ofbeldinu. Þegar grannt er
skoðað getur sjálfsásökun þeirra verið varnarháttur
(tilfærsla), en þá beinir þolandi reiði í sinn eigin
garð í stað þess sem á hana skilið. Með þessu móti
leitast þolendur ómeðvitað við að ná stjórn á
aðstæðum; ef árásin var þeim sjálfum að kenna, þá
er það einnig í þeirra valdi að hindra frekari áföll.
Það er sárt að fmna til sektar en það getur verið
hálfu verra að finna fyrir eigin vanmætti og
varnarleysi. Sektarkennd getur þannig verið til
vitnis um ómeðvitaða trú á eigið almætti
(omnipotence) sem felst á bak við rökhugsun og
skynsemi.
Ábyrgð fagfólks
Eg vona að mér hafi tekist að sýna fram á mikilvægi
þess að starfsfólk heilbrigðiskerfisins geri sér grein
fyrir hversu alvarlegt áfall nauðgun er. Hjúkrunar-
fræðingar þurfa að vera vakandi fyrir vísbendingum
um afleiðingar nauðgunar bæði í bráð og lengd. í
stað geðlyfja þurfa þolendur hjálp við að setja liðna
atburði í samhengi við núverandi líðan. Þolendur
sjálfir vanmeta oft áhrif nauðgunarinnar og því er
þeim mikils virði að fá staðfestingu fagfólks á að
um alvarlegan atburð hafi verið að ræða sem full
ástæða sé til að gefa gaum að.
Sátt
Þolendur nauðgunar ganga í gegnum ferli sem
minnir á sorgarferli. Þeir upplifa áfall, afneitun,
reiði og depurð. Ef vel tekst til sætta þeir sig að
endingu við að nauðgunin hvíli með annarri
lífsreynslu, reynslu sem var þröngvað upp á þá, en
sem þeir verði engu að síður að lifa með.
Markmið meðferðar er að hjálpa þolanda í
gegnum þetta ferli. Það getur enginn látið nauðg-
unina „ekki hafa komið fyrir“ þó að afneitun virðist
geta þjónað því hlutverki. Það eru skiljanleg
reiðiviðbrögð þolanda að vantreysta karlmönnum
og fyrirlíta þá og líta á þá alla sem hugsanlega
misindismenn en slík viðhorf eru engu að síður til
vitnis um að frekari úrvinnslu sé þörf. Okkar verk-
efni er að stuðla að því að þolandi festist ekki í
beiskjunni, að reiðin fái farveg en sé ekki ætlað það
hlutverk að verja hann fyrir depurðinni sem fylgir
frekari úrvinnslu. Þolandi þarf hjálp til þess að lifa
með þessa erfiðu reynslu án þess að hún eitri líf
hans frekar en orðið er. Það gerir hann að mínu
mati best með því að þekkja þær tilfinningar sem
tengjast nauðguninni svo að þær eigi sinn sess í
tilfinningalífi hans en drottni ekki yfir honum.
1
27
L