Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2001, Page 65

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2001, Page 65
Forvarnapistill: Ástrós Sverrisdóttir é>ÍlA.{A(t, ÁmðAlAÍLAti Forvarnir á sviði hjarta- og æðasjúkdóma eru mjög spennandi því árangur getur orðið verulegur. Áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma eru annars vegar þeir sem við getum haft áhrif á með bættum lífstíl og hins vegar þeir sem við höfum ekki áhrif á, svo sem kyn, erfðir og aldur. Þeir þættir, sem við getum haft áhrif á og tengjast lífsstíl, eru t.d. reykingar, hár blóðþrýstingur, hátt kólesteról, offita, hreyfingarleysi, streita og mikil áfengisneysla. Rannsóknarstöð Hjartaverndar hóf starfsemi sína árið 1967 með víðtækri faraldursfræðilegri rannsókn þar sem áhersla var lögð á að finna helstu áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma íslendinga. Þessar rannsóknir hafa staðið yfir í meira en 30 ár og hafa náð til rúmlega þrjátíu þúsund íslendinga. Niðurstöður þeirra hafa skilað verulegri þekkingu á áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma hérlendis og hafa leitt í Ijós að þeir helstu eru: reykingar, blóðfitutruflanir, hækkaður blóðþrýstingur, sykursýki og kyrrseta. Þessar rannsóknir gera einnig kleift að kortleggja breyt- ingar á tíðni kransæðasjúkdóma á íslandi. Einnig er unnt að fylgjast með breytingum á þeim áhættuþáttum sem þegar eru þekktir. Með rannsóknum Hjartaverndar hefur m.a. verið fylgst með þróun á meðalgildum þlóðfitu íslendinga, áhrifum áhættu vegna reykinga, áhrifum kyrrsetu og þróun blóðþrýstings. Gögn Hjartaverndar hafa verið notuð í fleiri rannsóknum, eins og t.d. rannsóknum á tíðni gigtarsjúkdóma, tannheilsu, beinþynningu, áfengisneyslu, mataræði og þróun líkams- þyngdar. Afkomendarannsókn Hjartaverndar er ein af þeim rann- sóknum stöðvarinnar sem nú er í gangi. í henni er leitað svara við þeirri spurningu hvort ýmsir þekktir áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma séu mismunandi eftir því hvort foreldri(ar) hafi fengið kransæðastíflu eða ekki. Fyrstu niðurstöður voru birtar í tímaritinu HJARTAVERND (37.árg.,1 .tbl). Þær leiða í Ijós að afkomendur þeirra sem hafa fengið kransæðastíflu hafa óhagstæðari samsetningu áhættuþátta. Blóðþrýstingur er hærri í afkomendahóp en viðmiðunarhóp, blóðfitugildi óhagstæðari, heildarkólesteról og LDL-kólesteról er marktækt hærra og HDL-kólesteról marktækt lægra. Þá er þyngdar- stuðull marktækt hærri í afkomendahópnum.* Niðurstöður sem þessar hafa mikilvægt gildi í forvarnastarfi. Með aukinni þekkingu á áhættuþáttum og hverjir það eru sem eru líklegri til að fá hjarta- og æðasjúkdóma verður forvarnastarf markviss- ara. Nákvæmari markhópur eykur líkur á nákvæmari skimun. Mikilvægt er að fólk láti mæla áhættuþætti sína til að hægt sé að grípa inn í sem fyrst. Marga þeirra er unnt að leiðrétta með bættum lífstíl, eftirliti og lyfjameðferð. En fólk fær einnig hjarta- og æðasjúkdóma þrátt fyrir að það hafi engan af þekktum áhættuþáttum. Enn eru því til þættir sem ekki er búið að finna og heldur leitin því áfram. Fræðsla er grundvöllur forvarna. Frá upphafi Hjartaverndar hefur fræðsla til almennings verið samtvinnuð allri starfsemi. Hún er byggð á niðurstöðum úr rannsóknum. Tímaritið HJARTAVERND hefur komið út frá stofnun sam- takanna. í því eru birtar niðurstöður úr rannsóknum stöðvar- innar og ýmislegt er lýtur að heilsueflingu. Hjartavernd gefur út ritröð bæklinga þar sem fjallað er um hvern áhættuþátt fyrir sig. Fyrstu tveir eru komnir út. Annar þeirra fjallar um reykingar og hinn um kólesteról. Hægt er að fá þá senda frá skrifstofu Hjartaverndar. Hjúkrunarfræðingar, hvar sem þeir starfa í kerfinu, eru hvattir til að kynna sér þá og koma þeim til sinna skjólstæðinga. Forvarnir á sviði hjarta- og æðasjúkdóma koma öllum við. Goðsögnin um hjartasjúklinginn, sem er karlmaður kominn yfir sextugt og í ábyrgðarstöðu, er ekki lengur í gildi og því mikilvægt að allir taki til sín fræðslu á þessu sviði. Forvarnir hjarta- og æðasjúkdóma eiga að byrja á fyrstu árum ævinnar því lengi býr að fyrstu gerð. Reglubundin hreyfing, hollt mataræði, skýr skilaboð um reykleysi og almenn heilsuefling strax frá barnæsku er líkleg til að skila sér til fullorðinsáranna. Varðandi forvarnir eru skilaboðin einföld og skýr. Hreyfing er mikilvægur þáttur forvarna og æskilegt að fólk hreyfi sig daglega í um 30 mínútur. Lögð er áhersla á að hreyfa sig í tengslum við athafnir daglegs lífs, svo sem að fólk sleþpi t.d. lyftunni og gangi stigana, gangi út í búð, leyfi börnunum að ganga sinna erinda því þeim er ekki gerður greiði með að keyra þau út um allt. Þessi einföldu og skýru skilaboð fela ekki í sér að fólk þurfi að fjárfesta í dýrum útbúnaði eða umbylta lífi sínu. Og það á ekki bara við um hreyfingu. Boð og bönn henta t.d. ekki þegar kemur að mataræði. Betra er að benda á leiðir til að auka neyslu grænmetis og ávaxta á jákvæðan hátt og kenna fólki markvisst hvernig það getur aukið hollustu í sínu daglega fæði. Tíðni hjarta- og æðasjúkdóma hefur lækkað verulega og að öllum líkindum vegna þess hve dregið hefur úr áhættu- þáttum með breyttum lífsstíl. Þrátt fyrir lækkaða tíðni og aukna þekkingu eru hjarta- og æðasjúkdómar enn algeng- asta dánarorsök á íslandi og á Vesturlöndum. Rannsóknir á þessu sviði og öflug fræðsla eru og verða því enn mikilvæg. * Athygli er vakin á því að hægt er að fá sérprent greinarinnar Kransæðastífla hjá foreldrum er ákvarðandi fyrir áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma í afkomendum, skrifuð af dr. Margrétí B. Andrésdóttur. Hafið samband við undirritaða á skrifstofu Hjartaverndar eða með tölvupósti:astros@hjarta.is. Ástrós Sverrisdóttir hjúkrunarfræðingur er fræðslufulltrúi Hjarta- verndar. Tímarit hjúkrunarfræðinga • 1. tbl. 77. árg. 2001 65

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.