Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.12.2005, Page 44
Dagur hjúkrunarfræðideildar
Málþing um bók Kristínar Björnsdóttur,
Líkami og sál - hugmyndir, þekking og aðferðir íhjúkrun
Dagur hjúkrunarfræðideildar var haldinn í Norræna húsinu 1. nóvember sl. Þetta var í 6. sinn sem sérstök
dagskrá er haldin í tilefni dagsins. Tilgangur dagsins er að vekja athygli á því menntunar- og fræðastarfi sem
fram fer hjá deildinni og efla og styrkja tengsl hjúkrunarfræðideildarinnar við hjúkrunarfræðinga og aðra
sem bera hag deildarinnar fyrir brjósti. Upphaflega skipulagði Hollvinafélag hjúkrunarfræðideildar þennan
dag og átti Vilborg Ingólfsdóttir hugmyndina að honum. Nú hefur deildin sjálf tekið hátíðarhöldin að sér og
helgar honum jafnframt einhvern markverðan atburð innan deildarinnar. Að þessu sinni sá Rannsóknastofnun
í hjúkrunarfræði um að halda málþing um nýútkomna bók Kristínar Björnsdóttur, dósents við deildina. Bókin
heitir Líkami og sál: Hugmyndir, þekking og aðferðir í hjúkrun.
Dagskráin hófst með erindi Kristínar Björnsdóttur þar sem hún sagði frá því hvernig hugmyndin að bókinni
varö til og hvernig hún er uppbyggð. I bókinni rekur Kristín tilurö og mótun hjúkrunarstarfsins á Vesturlöndum
og ræðir um upphaf og þróun hjúkrunarfræðinnar með hliðsjón af uppgangi nútímaheilbrigðisþjónustu
og í Ijósi breytinga sem orðið hafa á stöðu kvenna í samfélaginu. Hún leitast við að lýsa hugmyndum og
aðferðum sem hjúkrunarfræðingar hafa beitt á ólíkum tímum og þeirri þekkingu sem starfið byggist á.
Auk þess greinir Kristín þær hugmyndafræðilegu stefnur innan heilbrigðisþjónustunnar sem haft hafa áhrif
innan hjúkrunarfræðinnar á tuttugustu öld, svo sem hugmyndir um samspil líkama og sálar, holdgervingu,
heilbrigði og áhrif umhverfis á heilsufar. Samskiptum starfsmanna og sjúklinga eru gerð ýtarleg skil. Að
lokum fjallar Kristín um stefnumörkun sem tengist heilbrigðisþjónustunni, framtíð velferðarþjónustu og hlut
hjúkrunar innan hennar. Að erindi Kristínar loknu ræddi Þorgerður Ragnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og
framkvæmdastjóri Sjónarhóls-ráðgjafarmiðstöðvar, um gildi bókarinnar fyrir sig sem hjúkrunarfræðing, Kristín
Astgeirsdóttir, verkefnisstjóri Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum brást við henni sem sagnfræðingur,
Geir Gunnlaugsson, barnalæknir og forstöðumaður Miðstöðvar heilsuverndar barna, lýsti meðal annars áhrifum
bókarinnar á sig sem barnalækni sem starfar að heilsuvernd, Þorgerður Einarsdóttir, félagsfræðingur og
dósent í kynjafræði við Háskóla Islands, ræddi um það hvort kynjasjónarhornið væri nauðsynlegt í greiningu á
hjúkrunarstarfinu og Sigþrúður Ingimundardóttir, hjúkrunarforstjóri Sólvangi, kom aftur að hjúkrunarfræðinni
og ræddi meðal annars um bókina með hliðsjón af áhuga sínum á sögu hjúkrunarstarfsins. Að framsögum
loknum voru almennar umræður sem Herdís Sveinsdóttir, dósent við hjúkrunarfræðideild og formaður stjórnar
Rannsóknastofnunar í hjúkrunarfræði, stýrði.
Tímarit hjúkrunarfræöinga 4. tbl. 81. árg. 2005