FLE blaðið - 01.07.2010, Blaðsíða 7

FLE blaðið - 01.07.2010, Blaðsíða 7
EES-samningnum svonefnda, og viðeigandi tilskipunum og ákvörðunum. f hinum nýju lögum voru ákvæði um endurmenntun starfandi endurskoðenda sem þeim ber skylda til að afla sér til þess að halda löggildingu sinni og starfsréttindum. Endurskoðendur höfðu vissulega orðið sér úti um nýja þekkingu og færni með skipulegum námskeiðum og fræðslufundum áður en þessi lög tóku gildi, en með þeim var endurmenntun fest í lög og tengd starfsleyfi löggiltra endurskoðenda. Því marka þessi lög nýtt skeið í menntamálum fagstéttarinnar. Ákvæði um menntun löggiltra endurskoðenda mótuð 1928-1929 Fyrstu íslensku lögin um endurskoðendur frá sumrinu 1926 voru helst til fáorð um það hvaða undirbúnings væri krafist til þess að hljóta löggildingu. Áskilið var að menn hefðu náð lögaldri, væru fjárráða og hefðu óflekkað mannorð og ekki máttu löggiltir endurskoðendur stunda atvinnu sem ekki samræmdist endurskoðunarstarfinu að mati ráðherra. Um Björn E. Árnason i hópi endurskoðenda 1966 menntun þeirra og annan undirbúning var það eitt í lögunum að endurskoðandi skyldi: „... sanna fyrir ráðuneytinu, eða fyrir nefnd, sem atvinnumálaráðherra skipar, að hann hafi þá þekkingu á viðskiftum og reikningshaldi, sem krafist verður í reglugjörð sem ráðherra setur." Málefnum löggiltra endurskoðenda var komið fyrir í atvinnumálaráðuneytinu með fyrrgreindum lögum. Nokkurtími leið frá gildistöku þeirra þar til embættismenn ráðuneytisins tóku að undirbúa reglugerðina sem boðuð var í lögunum, en sumarið 1928 var kominn skriður á það verk. Atvinnumálaráðuneytið leitaði til Jóns Þ. Sívertsen, skólastjóra Verslunarskóla Islands, um aðstoð við reglugerðarsmíðina og lagði hann fram all ítarlega greinargerð um stöðu endurskoðenda í nokkrum Evrópulöndum og Bandaríkjunum og kröfur sem þeir þyrftu að uppfylla til að hljóta löggildingu, þar sem um hana var að ræða. Var greinargerð Jóns sýnilega að miklu leyti unnin upp úr athugun sem gerð hafði verið í Danmörku þegar lög um löggilta endurskoðendur þar í landi voru undirbúin veturinn 1908-1909. í bréfi til ráðuneytisins lýsti Jón þeirri skoðun sinni að lög um löggilta endurskoðendur væru helst til ófullkomin samanborið við sambærileg lög nágrannalandanna, Danmerkurog Noregs, og reglugerðardrög ráðuneytisins einnig. I sama streng tók Verslunarráð íslands sem lagði til að lögunum yrði breytt áður en lengra væri haldið og færð nær dönskum lögum um sama efni en gert hafði verið. Hvorki Jón Þ. Sívertsen né Verslunarráðið gerðu nákvæma grein fyrir því í hverju þeim þætti lögum um löggilta endurskoðendur einkum áfátt. Björn E. Árnason, lögfræðingur og endurskoðandi, lét það hins vegar skýrt uppi þegar atvinnumálaráðuneytið leitaði álits hans að hann teldi þær kröfur sem lögin gerðu um þekkingu og reynslu endurskoðenda ganga allt of skammt. Vildi Björn því að í reglugerðinni yrðu ítarleg ákvæði um tilhögun prófa þannig að tryggt yrði að þau skæru úr um það hvort verkleg reynsla og þekking prófmanns væri nægileg til þess að hann verðskuldaði löggildingu. Þessu var Jón Þ. Sívertsen ósammála og taldi að betur færi á því að væntanleg prófnefnd mótaði slíkar reglur heldur en að þær væru hluti reglugerðar. Skömmu fyrir jól árið 1928 skipaði atvinnumálaráðuneytið Jón Þ. Sívertsen, Björn E. Árnason og Jón Guðmundsson endurskoðanda í prófnefnd löggiltra endurskoðenda og var þeim jafnframt falið að gera lokatillögu að reglugerð um löggilta endurskoðendur. Þremenningarnir luku því verki í mars árið eftirog afhentu ráðuneytinu afrakstur verka sinna. Reglugerðin tók gildi nokkrum dögum síðar og ber það með sér að Björn hafði náð nokkrum árangri í þeirri viðleitni sinni að tryggja að í reglugerðinni væru fyrirmæli um tilhögun og markmið löggildingarprófa. Þó verður að segjast að útkoman var allfjarri því sem hann hafði ritað um verkleg próf í einu bréfa sinna til atvinnumálaráðuneytisins er hann komst svo að orði: Jeg skal taka það fram, að jeg tel að starf það, sem hjer er að ræða um löggildingu til, mikið ábyrgðarstarf, og því mjög mikilsvarðandi, að til þess veljist ekki aðrir menn en þeir, sem sýna að þeir sjeu starfinu fyllilega vaxnir. Hefi jeg því reynt að haga ákvæðunum um prófið þannig, að full vissa fáist um hæfileika umsækjandans til starfsins, og legg sjerstaka áherslu á, að verkleg þekking og reynsla viðkomandi sje fullomin. Tel jeg að hverjum þeim, sem á annað borð er trúandi fyrir löggildingu, sje vorkunnarlaust að leysa af hendi prófið á þann hátt, sem ráðgert er í uppkasti mínu, sem sniðið er að nokkru eftir ákvæðum þeim, sem nú gilda í Danmörku um þetta efni. Samkvæmt 5. grein reglugerðarinnar skyldu próf vera í tvennu lagi; bóklegt og verklegt. Bóklega prófið var bæði munnlegt og skriflegt og skyldi prófað í almennri viðskiptafræði, verslunarrétti og verslunarreikningi. Var nánar til tekið í reglugerðinni hvaða þekkingu leitað skyldi eftir með prófunum. Undanþegnir prófskyldu í bóklegum prófum voru einstaklingar sem höfðu lokið laga- eða hagfræðinámi. Verklega prófið gegndi því hlutverki að leiða í Ijós hvort prófmenn hefðu „... nauðsynlega verklega þekkingu í bókhaldi og endurskoðun". Prófið var þannig upp byggt að umsækjandi um löggildingu skyldi senda prófnefnd „... a.m.k. 4 skýrslur um atriði snertandi bókhald og endurskoðun, sem komið hafa fyrir hann í praktísku lífi við FLE blaðið júlí2010 • 7

x

FLE blaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: FLE blaðið
https://timarit.is/publication/1259

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.