FLE blaðið - 01.07.2010, Blaðsíða 27

FLE blaðið - 01.07.2010, Blaðsíða 27
tima. Svo loksins þegar fjármunir voru í sjónmáli fyrir þrjár stöður endurskoðenda og planið á borðinu þá gekk ekki vel að manna þær. Margir sýndu áhuga á að flytjast, en fjölskyldubönd og öruggt líf í New York héldu í fólk. Þetta átti ekki síst við um fólk frá þróunarlöndununum, sem var oft að bíða eftir að fá „græna kortið". Fídjieyingur, af indverskum uppruna, var tilvonandi yfirmaður skrifstofunnar í Nairobi, en gugnaði þegar hann frétti af óöryggi sem minnihlutahópar frá Indlandi og Pakistan bjuggu við í Austur-Afríku. Skrifstofan var opnuð í janúar 1982 og ég mætti fyrstur á staðinn. Annar kollegi frá New York kom svo óvænt i mars. Hann entist ekki árið, lenti í útistöðum við yfirvöldin og var sendur til baka. Vandræði hans voru persónuleg, en hann var af indverskum uppruna og mjög óöruggur með sig og fjölskyldu sína. Ótti hans náði hámarki þegar uppreisnartilraun var gerð 1. ágúst 1982 og margir af asískum uppruna urðu fórnarlömb átakanna. Yfirmaður minn kom til Nairobi um vorið. Hann var einn mesti „séntilmaður" sem ég hef kynnst. Hann var Líberíumaður og hafði unnið í endurskoðunardeildinni í New York, en fluttist heim um 1975 til að taka við starfi ríkisendurskoðanda. Ég er viss um að hann skilaði starfi sínu vel, en hann var hnepptur í fangelsi þegar Samuel Doe rændi völdum. Kollegi minn vildi ekki tala um árið í fangelsinu, en sagði að það eina sem þeir sóttust eftir voru peningar eða eignir. Svo þegar sannreynt var að hann átti enga falda peninga var honum sleppt. Ári seinna fékk hann þessa stöðu í Nairobi. Hann fór aldrei aftur til Líberíu. Jafnvel þegar faðir hans dó, var hann ekki við útförina. Fjölskyldan I Nairobi Upphaflega stóð til að ég yrði tvö ár í Kenya, en fjölskyldunni leið vel, börnin voru ung og með einfaldar þarfir. Engin vandamál. Eftir rúm þrjú ár fór ég að líta í kringum mig. Við fluttumst að heiman til að vera eitt til tvö ár í New York. Nú var komið að því að snúa aftur. Mér stóð til boða starf í Genf í Sviss, á Evrópuskrifstofu SÞ. Okkur þótti í lagi að stoppa þar, í ár eða svo, á leiðinni heim. Við fluttumst frá Nairobi í júlí 1985. Ferðasögur í Genf var allt í föstum skorðum uppá Svissneska vísu. Engin lausung, ókláruð mál og óvissa; ekki ósvaraðar spurningar eins og í Afríku. Yfirmaður minn var frá Austurríki og gamall í hettunni. Hann var skemmtilegur og góður innan við skelina. Við náðum vel saman og lentum í ýmsu. Einu sinni vorum við á ferð í Senegal, nærri landamærum Malí. Við höfðum hossast í Toyota Pickup hundruð kílómetra á lélegum vegum í steikjandi hita og vorum þreyttir eftir langan dag. Þegar við komum á hótelið var bara eitt herbergi laust með einu rúmi, sem við urðum að deila. í Genf endurskoðaði ég aðallega verkefni Flóttamannahjálparinnar (UNHCR). Verkefni þeirra voru um allan heim og mikil ferðalög fylgdu þessu. Ég fór í allar heimsálfur, nema Mið- og Suður Ameríku. Starfið í þessum ferðum var að sannreyna bókhald og uppgjör í aðal- og undirskrifstofum og ekki síst á stöðu mála í flóttamannabúðum. Stærsta verkefni Flóttamannahjálparinnar var að fjármagna og leiða starf alþjóðlegra og innlendra hjálparsamtaka. Staða mín veitti aðgang að bókhaldi hjálparsamtaka, sem Flóttamannahjálpin hafði fjármagnað. Það var stundum skrautleg nálgun við endurskoðun. Ég skoðaði fyrst það sem til var með því hugarfari að allt væri í lagi. Það var ekki alltaf svo, og þá breyttist vinnuaðferðin í að leita bara að einhverju haldbæru. Oft höfðu innfæddir starfsmenn lítilla hjálparstofnana verið ráðnir í vinnu vegna enskukunnáttu eingöngu. Ég hitti til dæmis bókara sem var dýralæknir og túlkurinn hans var efnafræðingur. Það reyndi oft á þolinmæðina, en frosið brosið hjálpaði alltaf. Langmenntaða starfsmenn hitti ég helst í gömlu Júgóslavíu, Rússlandi og austurblokkinni. Þeir áttu yfirleitt erfitt með að skilja orðið „endurskoðandi" en túlkarnir notuðu orðið „skattalögregla" og þá skildu allir hversu alvarleg málin voru. Þjóðerni mitt var hjálplegt á ferðalögum. Fyrsta ferð mín til Irans kom til af því að við vorum bara tveir á skrifstofunni í Genf sem gátum gert okkur vonir um að fá vegabréfsáritun þangað. Ég þurfti reyndar að fá nýjan passa því ekki máttu sjást áritanir til íraks og Bandaríkjanna. Venjulega, þegar sótt var um áritun til múslimaríkis, þurfti að gefa upp fullt nafn, og líka föður og föðurafa. Þetta voru nöfn sem ég hafði sjaldan þurft að skrifa á ævinni. í fyrstu ferð minni til írans í byrjun júní 1989 dó Ayatollah Khomeini. Sama dag féllu kínverskir mótmælendur á torgi hins himneska friðar og heimurinn nötraði í nokkra daga. Þetta voru erfiðir dagar í Teheran. Allir bjuggust við að við yrðum að flýja land, en loks tókst að jarða klerkinn, og ástandið róaðist. f anddyri hótels míns hafði bandaríski fáninn verið málaður á gólfið og enginn komst inn eða út úr byggingunni án þess að traðka á honum. Erfiðustu vinnuverkefnin voru í löndum og á svæðum þar sem stríð höfðu geisað. Ég kynntist því að allt það versta sem til er í mannskepnunni kemur fram í stríði. Ég var stundum fluttur á milli í brynvörðum bílum eða þyrlu, klæddur í skothelt vesti og með hjálm, spyrjandi svo um bókhald og einhverja pappíra með óyggjandi undirskriftum. Verstu tilfellin sem ég lenti í voru í Júgóslavíu, Afghanistan, Líberíu og Sri Lanka. Að sjá hörmungarnar í Afríku og Asíu snertu mig mun minna en þegar FLE blaðið júlí2010 • 27

x

FLE blaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: FLE blaðið
https://timarit.is/publication/1259

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.