FLE blaðið - 01.07.2010, Blaðsíða 41

FLE blaðið - 01.07.2010, Blaðsíða 41
vanrækt en áherslan var ef til vill minni sem kemur fram í því að flest námskeið sem haldin voru á vegum félagsins voru á sviði reikningsskila og skattaréttar. Væntingar til endurskoðenda á þessum tíma voru fyrst og fremst á þessum tveim sviðum. Sett voru ný lög um endurskoðendur nr. 67/1976. Talsverðar breytingar voru gerðar á menntunarkröfum til endurskoðenda með þessum lögum enda var starfsumhverfi endurskoðenda orðið ólíkt því sem áður hafði verið. Hér er þess í fyrsta sinn krafist að þeir sem vilja þreyta löggildingarpróf í endurskoðun skuli hafa lokið prófi frá viðskiptadeild Háskóla íslands með endurskoðun sem kjörsvið. Lögin eru sett til þess að tryggja réttindi og skyldur löggiltra endurskoðenda en ekkert er vikið að því hvað felst í hugtakinu endurskoðun. I lögum nr. 32/1978 um hlutafélög er, eftir því sem ég kemst næst, í fyrsta sinn getið um það í lögum hvað felist í störfum endurskoðenda. Þar segir í 83. gr. laganna: „Endurskoðendur skulu endurskoða ársreikninginn og í því sambandi kanna bókhaldsgögn félagsins og aðra þætti, er varða rekstur þess og stöðu, í samræmi við góða endurskoðunarvenju." Þetta ákvæði fór sem næst óbreytt yfir í 63. gr. laga nr. 144/1994 um ársreikninga. Mér er ekki kunnugt um að hugtakið „góð endurskoðunarvenja" hafi áður komið fyrir í lögum en það er athyglivert að þetta hugtak er ekki skýrt nánar. Góð endurskoðunarvenja var því lengi óskilgreint hugtak í lögum. Þrátt fyrir að vísað sé til góðrar endurskoðunarvenju í ýmsum sérlögum er það fyrst í 42. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að finna má ákvæði um að Fjármálaeftirlitið skuli í samráði við Félag löggiltra endurskoðenda og aðra hlutaðeigandi aðila sjá til þess að á hverjum tíma liggi fyrir skilgreining á góðri endurskoðunarvenju. Þessi skilgreining skuli þó sérstaklega eiga við um endurskoðun hjá lífeyrissjóðum. Samsvarandi ákvæði er svo að finna í 93. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. í athugasemdum með frumvarpinu sem varð að hlutafélagalögum nr. 32/1978 er vísað til þess að góð endurskoðunarvenja taki mið af fræðilegum aðferðum og venjum eins og þær eru skilgreindar á hverjum tíma. Fræðilegar skilgreiningar á aðferðum og framkvæmd endurskoðunar liggi fyrir meðal löggiltra endurskoðenda í nágrannalöndum okkar og hér á landi hafi löggiltir endurskoðendur unnið að hliðstæðum skilgreiningum. Félag löggiltra endurskoðenda gaf út fyrstu leiðbeinandi reglur um endurskoðun í mars 1979 og brást þannig strax við þörfinni á faglegri skilgreiningu á því hvað felst í hugtakinu góð endurskoðunarvenja. Þessar leiðbeinandi reglur báru yfirskriftina „Grundvallaratriði endurskoðunar á ársreikningum hlutafélaga". Ég tel að með þessum reglum hafi félagið markað viss tímamót þar sem gera má ráð fyrir að framkvæmd endurskoðunar hafi þegar verið farin að mótast með ólíkum hætti, annars vegar hjá þeim endurskoðendum, sem voru farnir að starfa samkvæmt starfsreglum alþjóðlegra fyrirtækja sem þeir voru í samstarfi við og hins vegar hjá þeim, sem ekki nutu slíks samstarfs. í þessum reglum er gerð mjög góð grein fyrir því sem felst í hugtakinu góð endurskoðunarvenja og óhætt er að fullyrða að þrátt fyrir allar þær breytingar sem orðið hafa með nýjum alþjóðlegum endurskoðunarstöðlum eigi þessar grundvallarreglur ennþá við. Á grundvelli þeirra laga sem vísað er til hér að ofan gaf Fjármálaeftirlitið út reglur um endurskoðun. Annars vegar voru gefnar út reglur um endurskoðun lífeyrissjóða nr. 685/2001 og hins vegar reglur um endurskoðun fjármálafyrirtækja nr. 532/2003. Báðar þessar reglur byggðust að verulegu leyti á þeim grundvallarreglum sem Félag löggiltra endurskoðenda hafði gefið út um áratug fyrr. Endurskoðunarstaðlar Þróun alþjóðlegra staðla um endurskoðun hófst á áttunda áratugnum og voru í fyrstu leiðbeiningar sem ætlaðar voru til þess að samræma störf endurskoðenda innan alþjóðasamtaka endurskoðenda og reikningsskilafræðinga IFAC (International Federation of Accountants). Þegar fyrirtæki fóru að sækja fjármagn utan heimalands (cross-border financing) var Ijóst að þörf væri fyrir alþjóðlega staðla um endurskoðun. Til þess að mæta þessum kröfum fjármálamarkaðarins voru á árinu 1994 gefnir út alþjóðlegir staðlar um endurskoðun (International Standards on Auditing) á vegum IFAC í stað leiðbeinandi reglna og var áherslan á endurskoðun reikningsskila. Alþjóðlegu endurskoðunarstaðlarnir höfðu ekki mikil áhrif hér á landi til að byrja með enda íslensk fyrirtæki ekki farin að taka þátt í alþjóðlegum fjármálamarkaði eins og síðar varð. Helst gætti áhrifanna í gegnum endurskoðunarfyrirtæki sem höfðu stofnað til alþjóðlegra tengsla en þar var það fylgni við staðlana sem almennt féll undir hugtakið góð endurskoðunarvenja. Segja má að Félag löggiltra endurskoðenda hafi tekið fyrsta skrefið í því að marka stefnu í fylgni félagsmanna almennt við alþjóðlegu endurskoðunarstaðlana með útgáfu gæðahandbókar árið 2002. Þar er rakinn ferill endurskoðunar með tilvísun í þá staðla sem voru í gildi á þeim tíma. Gæðahandbókinni var ætlað að samræma störf endurskoðenda og uppfylla þörf minni endurskoðunarfyrirtækja sem ekki bjuggu við samræmt kerfi við endurskoðun. Jafnframt var með handbókinni lagður grunnur sem gæðaeftirlit félagsins hefur byggt á. Áttunda félagatilskipun Evrópuráðsins sem innleidd var með nýjum lögum um endurskoðendur nr. 79/2008 gerir ráð fyrir að alþjóðlegum endurskoðunarstöðlum sé fylgt við endurskoðun hér á landi frá og með gildistöku laganna. Þó svo staðlarnir hafi ekki verið þýddir á íslensku leiðir af bráðabirgðaákvæði laganna að endurskoða skuli í samræmi við þá. Áhættugrunduð endurskoðun Áhætta er einn af grunnþáttum endurskoðunar og felst í hættunni á því að áritun endurskoðanda á reikningsskil sé röng. Reikningsskil eru samkvæmt lögum á ábyrgð stjórnar og er endurskoðandi því ekki ábyrgur fyrir gerð og framsetningu reikningsskila. Ábyrgð endurskoðanda felst hins vegar í því áliti á reikningsskilunum sem hann lætur í Ijós í áritun sinni og felst áhætta hans þess vegna í því að veita fyrirvaralausa áritun á reikningsskil sem í verulegum atriðum eru röng eða víkja frá fyrirvaralausri áritun á reikningsskil sem eru án verulegra annmarka. Hvort tveggja getur haft tjón í för með sér fyrir FLE blaðið júlí2010 • 41

x

FLE blaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: FLE blaðið
https://timarit.is/publication/1259

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.