Morgunblaðið - 25.02.2017, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 25.02.2017, Blaðsíða 14
14 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 25. FEBRÚAR 2017 Morgunblaðið/Emilía Í Hæstarétti Þórður Björnsson ríkissaksóknari flytur mál sitt í Guðmundar- og Geirfinnsmáli í janúar 1980. Frá vinstri eru Björn Helgason hæstaréttarritari og dómararnir Þór Vilhjálmsson, Logi Einarsson, Björn Sveinbjörnsson, Benedikt Sigurjónsson og Ármann Snævarr. Dómur var kveðinn upp mánuði síðar og voru allir sakborningar sakfelldir og dæmdir til fangelsisvistar. Sönnunarmat ekki í samræmi við meginreglu réttarfar  Ný gögn höfðu áhrif á niðurstöðu endurupptökunefndar í Guðmundar- og Geirfinnsmáli Guðm. Sv. Hermannsson gummi@mbl.is Endurupptökunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að fallast beri á beiðni þeirra sem Hæstiréttur dæmdi árið 1980 fyrir að verða Guðmundi Einarssyni og Geirfinni Einarssyni að bana, um endurupptöku dómsins. Nefndin féllst hins vegar ekki á beiðni um endurupptöku sama dóms vegna rangra sakargifta sem bornar voru á fjóra nafngreinda menn í mál- inu. Í úrskurðum sínum segir endur- upptökunefnd að samanburður á nýj- um gögnum og upplýsingum, þar á meðal um málsmeðferð við rannsókn og dómsmeðferð, og þeim gögnum sem lágu fyrir Hæstarétti hafi varpað nýju ljósi á svo mörg atriði í sönn- unarmati að telja verði að hin nýju gögn hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu kom- ið fram áður en dómur gekk. Segist nefndin telja að leiddar hafi verið að því verulegar líkur að sönn- unarmat hafi ekki verið í samræmi við þá meginreglu opinbers réttar- fars sem fram kom í 109. gr. laga um meðferð opinberra mála á þessum tíma, að dómari meti hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé komin fram um hvert það atriði sem varðar sekt ákærðu. Þá segir nefndin að verulegar líkur séu á að áhrif óvenju- lega langrar og harðneskjulegrar ein- angrunar dómfelldu, rannsóknarað- ferða, ónákvæmra skráninga framburða, takmarkaðs aðgengis dómfelldu að verjendum, annarra brota á málsmeðferðarreglum og annarra atriða á trúverðugleika framburða hafi ekki verið metin með réttum hætti í dómi Hæstaréttar. Ný gögn Endurupptökunefnd hefur undir höndum frumrit dagbóka Síðumúla- fangelsisins frá þeim tíma sem sak- borningar sátu í gæsluvarðhaldi á tímabilinu frá 1976 til 1980. Segir nefndin að þessar bækur varpi skýr- ara ljósi á þær rannsóknaraðgerðir sem aðrar heimildir séu til um. Einn- ig fékk nefndin í hendur dagbækur Tryggva Rúnars Leifssonar og Guð- jóns Skarphéðinssonar, sem þeir skrifuðu þegar þeir voru í gæsluvarð- haldinu. Segir nefndin að þótt ekkert verði fullyrt um sannleiksgildi þess sem ritað sé í bækurnar sé afar margt í þeim sem samrýmist og styðji það sem komi fram í dagbókum Síðu- múlafangelsisins, lögregluskýrslum og öðrum fyrirliggjandi gögnum. Endurupptökunefnd féllst í gær á beiðni erfingja Tryggva Rún- ars Leifssonar um að dómur Hæstaréttar árið 1980, hvað varðar sakfellingu Tryggva Rúnars fyrir manndráp af gá- leysi, verði tekinn upp aftur. Tryggvi Rúnar, sem lést árið 2009, var sakfelldur fyrir að hafa, ásamt öðrum, orðið Guð- mundi Einarssyni að bana árið 1974. Hann var einnig dæmdur fyrir brennu, nauðgun og þjófn- aði en ekki var óskað eftir að sá þáttur dóms Hæstaréttar yrði tekinn upp að nýju. Tryggvi Rúnar var dæmdur í 13 ára fangelsi. Í úrskurði endurupptöku- nefndar er m.a. fjallað um dag- bækur, sem Tryggvi Rúnar skrifaði í þegar hann sat í gæslu- varðhaldi. Telur nefndin, að dagbókarfærslurnar veiti vís- bendingu um að játningar Tryggva Rúnars hjá lögreglu og fyrir dómi á rannsóknarstigi hafi verið til komnar sökum þess að hann hafi talið skynsamlegt við þessar aðstæður að játa á sig rangar sakir og treysta á rétt- láta málsmeðferð fyrir dómi þar sem hið sanna yrði leitt í ljós. Þá sé það til þess fallið að valda nokkrum vafa um trúverð- ugleika játninga Tryggva Rún- ars, að hann virðist að jafnaði aðeins hafa fallist á atriði sem aðrir dómfelldu höfðu þegar borið um og fátt lagt til málanna um atburðarásina. Þá dró hann játningu sína formlega til baka við fyrsta tækifæri eftir að dómsmeðferð hófst en nokkru áður hafði hann upplýst verj- anda sinn og rannsóknarlög- reglumann um að hann hygðist gera það. Endurupptökunefnd taldi þóknun Lúðvíks Bergvinssonar, talsmanns erfingja Tryggva Rúnars, hæfilega ákveðna 6.138.000 krónur en þóknunin greiðist úr ríkissjóði. Taldi skynsamlegt að játa rangar sakargiftir Tryggvi Rúnar Leifsson Endurupptökunefnd hefur fallist á ósk setts ríkissaksóknara um að dómur yfir Kristjáni Viðari Viðars- syni í svonefndu Guðmundar- og Geirfinnsmáli verði tekinn upp að nýju hvað varðar sakfellingu um tvö manndráp af gáleysi. Kristján Viðar var sakfelldur fyr- ir að hafa ásamt öðrum orðið Guð- mundi Einarssyni og Geirfinni Ein- arssyni að bana árið 1974. Hann var einnig fundinn sekur um rangar sakargiftir og þjófnaðarbrot og dæmdur í 16 ára óskilorðsbundið fangelsi. Fram kemur í úrskurði endur- upptökunefndar, að settur rík- issaksóknari hafi óskað eftir því við nefndina í desember 2015, að mál Kristjáns yrði tekið upp aftur, hon- um til hagsbóta. Kristján Viðar hafi innt eftir stöðu málsins í maí á síð- asta ári en að öðru leyti ekki látið það til sín taka. Hann afþakkaði einnig að fá skipaðan talsmann. Í úrskurði nefndarinnar kemur m.a. fram það mat nefndarinnar, að verulegar líkur séu á að andlegt ástand Kristjáns hafi verið orðið svo bágborið síðustu mánuði ársins 1976 og framan af árinu 1977, vegna langrar einangrunarvistar og persónubundinna eiginleika hans, að vafasamt sé hvort skýrslur frá þeim tíma um yfirheyrslur yfir honum hjá lögreglu og fyrir dómi hafi haft nokkurt sönnunargildi. Til marks um slæma andlega heilsu hans megi nefna tvær sjálfs- vígstilraunir á þessum tíma og framburð hans um að hafa orðið tveimur mönnum til viðbótar að bana og að amma hans hafi tekið þátt í að hluta annað líkið í sundur. Í dómi Hæstaréttar sé ekki vikið að áhrifum fjölmargra, mótsagna- kenndra og ólíkindalegra fram- burða Kristjáns og bágborins and- legs ástands hans á mat á trúverðugleika framburða hans. Virðist hann ekki hafa fengið að njóta þess vafa sem að þessu leyti var til staðar um sönnunargildi játninga hans. Kristján Viðar Viðarsson Vafasamt að yfirheyrslur hafi haft sönnunargildi Endurupptökunefnd telur að fullnægt sé skil- yrðum laga um að dómur yfir Sævari Marinó Ciesielski, hvað varðar sakfellingu fyrir tvö manndráp af gáleysi, sé tekinn til meðferðar og dómsuppsögu að nýju í Hæstarétti. Nefndin féllst hins vegar ekki á að sakfelling Sævars fyrir rangar sakargiftir yrði tekin til meðferðar að nýju. Sævar var árið 1980 í Hæstarétti dæmdur fyrir að hafa, ásamt öðrum, orðið Guðmundi Einarssyni að bana að Hamarsbraut 11 í Hafn- arfirði 27. janúar 1974 og fyrir að hafa, ásamt öðrum, aðfaranótt 20. nóvember 1974 orðið Geirfinni Einarssyni að bana í Dráttarbrautinni í Keflavík. Þá var Sævar dæmdur fyrir að hafa á árinu 1976, ásamt öðrum, gerst sekur um rangar sakargiftir með því að bera á fjóra nafngreinda menn, að þeir hefðu átt hlut að dauða Geirfinns. Sævar var jafnframt dæmdur fyrir þjófnaði, áfengislagabrot, skjalafals, fjársvik og fíkni- efnalagabrot. Ekki var óskað endurupptöku dóms Hæstaréttar hvað það varðaði. Sævar var dæmdur í 17 ára óskilorðsbundið fangelsi. Erf- ingjar hans fóru fram á endurupptöku dómsins, en Sævar lést árið 2011. Í úrskurði endurupptökunefndar segir m.a. að vissulega hafi legið fyrir ýmsar sterkar vís- bendingar um að framburðir Sævars og ann- arra dómfelldu um aðild þeirra að hvarfi Geir- finns Einarssonar hafi átt við rök að styðjast. Hafa verði í huga að almennt séð verði að telja ólíklegt að svo margir einstaklingar játi rang- lega aðild að atlögu að manni sem leitt hafi hann til dauða og að tvö vitni beri ranglega á sama veg. En endurupptökunefnd telur að í ljósi þess að Sævar hvarf fyrir dómi frá játningu sinni hafi skort á að hann hafi fengið að njóta þess vafa sem ónákvæm skráning, þess sem gerðist í yfir- heyrslum yfir dómfelldu öllum hjá lögreglu og skortur á skýrslum um fjölmargar yfirheyrslur, viðtöl og samprófanir, skapaði um rannsóknar- aðferðir og um þróun framburða. Fjölmargar og ósamrýmanlegar frásagnir dómfelldu og vitna af meintri atburðarás og fjöldi ein- staklinga og bifreiða sem nefnd voru til sög- unnar, hafi gefið tilefni til að draga trúverð- ugleika framburða þeirra í heild í efa. Þá þykja sterkar vísbendingar vera fram komnar um að framburðir einstaka dómfelldu og vitna í mörgum og löngum yfirheyrslum hafi, fyrir tilstuðlan rannsóknarmanna, litað framburði annarra dómfelldu og ásamt harð- neskjulegri einangrun haft áhrif á framburði þeirra allra. Endurkröfunefnd ákvað að þóknun Lúðvíks Bergvinssonar héraðsdómslögmanns, sem var talsmaður erfingja Sævars, skyldi vera 12.276.000 krónur og greiðast úr ríkissjóði. Sævar Marinó Ciesielski Harðneskjuleg einangrun hafði áhrif Endurupptaka í Guðmundar- og Geirfinnsmáli

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.