Morgunblaðið - Sunnudagur - 05.03.2017, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - Sunnudagur - 05.03.2017, Blaðsíða 20
VIÐTAL 20 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 5.3. 2017 Þ etta er einn af þessum dögum þeg- ar íslensk veðrátta sýnir öll til- brigði. Þegar blaðamaður keyrir austur að Búrfellsvirkjun skiptast á slydda, snjókoma, súld og þoka en þegar nálgast áfangastað er bjart yfir öllu og sólin skín. Það er líka bjart yfir Ásbjörgu Kristinsdóttur, yfirverkefnisstjóranum, og síða ljósa hárið leggst niður bakið undan hjálminum í langri fléttu. Lopapeysa og boms- ur ásamt dúnvesti er klæðnaður sem hentar vel í þessu starfi. Framkvæmdaverkefni heilla Skólaganga Ásbjargar hefur verið löng og krefjandi. Hún kláraði Verzlunarskólann og hélt svo í Háskóla Íslands í véla- og iðnaðar- verkfræði þar sem hún útskrifaðist með BS- gráðu. Þaðan lá leiðin í vinnu hjá Landsvirkjun þar sem hún starfaði við hermilíkön. „Þetta var árið 2002. Á þeim tíma var verið að velja mannskap til að sinna verkefnastjórnun vegna margvíslegra verkefna fyrir Kárahnjúkavirkj- un,“ segir Ásbjörg sem var valin til verksins. „Þá heillaðist ég alveg af framkvæmdaverk- efnum. Það varð ekki aftur snúið,“ segir hún en Ásbjörg starfaði í verkefnisstjórn Kára- hnjúkavirkjunar í fjögur ár. Að því loknu hélt hún utan í framhaldsnám til Massachusetts Institute of Technology (MIT) í Boston og lauk þar á tveimur árum samhliða meistaragráðu í byggingarverkfræði og MBA-gráðu. Þaðan lá leiðin í doktorsnám í verkfræði á fullum skóla- styrk, sem hún lauk árið 2012. „Þegar kom að því að velja framhaldsnám fannst mér mikil- vægt að leggja áherslu á gott verkfræðinám sem myndi efla mig í framkvæmdastjórnun. Það lá því beint við að tengja námið við við- skiptafræði, enda þarf slíkt starf að geta brúað vel þessi tvö svið. Margir af bestu skólum Bandaríkjanna buðu upp á áhugavert nám af þeim toga. Ég sótti um og komst inn í sjö þeirra en þegar inngöngubréfið frá MIT barst var engin spurning hvert ég myndi fara,“ segir Ásbjörg en sá skóli hefur um áraraðir verið metinn einn besti verkfræðiskóli í heiminum. „Skólastyrkurinn í doktorsnáminu veitti mér svo sveigjanleika til að hanna rannsóknarverk- efni alfarið á mínu áhugasviði. Ég tók því fyrir ákvarðanatökur við nýja virkjanakosti og greindi hvernig hægt væri að byggja það ferli á áhættugreiningu verkefna að gefnu áhættu- þoli framkvæmdaraðila.“ Ásbjörg segist alltaf hafa haft gaman af námi og verið iðin við að læra. Sex ára gömul var hún farin að hjálpa kennaranum að kenna hinum krökkunum lestur. „Ég hef alltaf haft gaman af skóla. Mér hefur þótt mikilvægt að leggja mig hart fram við nám og hefur hvatn- ing foreldra minna verið mitt leiðarljós. Þótt námsferlinum sé nú lokið hef ég hvergi nærri sagt sagt skilið við akademíuna enda kem ég að kennslu af og til og finnst það afskaplega gefandi,“ segir hún og brosir en hún hóf fyrst kennslu á meistarastigi við Háskólann í Reykjavík samhliða doktorsnámi sínu. Síaukin eftirspurn eftir rafmagni Landsvirkjun ákvað að ráðast í framkvæmdir við stækkun Búrfellsvirkjunar á 50 ára afmæli fyrirtækisins árið 2015 en núverandi Búrfells- stöð, sem er skammt frá framkvæmdasvæð- inu, var reist í kjölfar stofnunar fyrirtækisins árið 1965. Ásbjörg starfar nú sem yfirverkefnisstjóri við byggingu stækkunarinnar og stýrir teymi verkefnisstjóra Landsvirkjunar sem bera ábyrgð á rekstri og eftirfylgni þeirra fjöl- mörgu samninga við alla þá verktaka sem koma að byggingu virkjunarinnar fyrir fyr- irtækið. „Við höfum kallað verkefnið stækkun Búr- fellsvirkjunar þó um sé að ræða stór- framkvæmd með nýju stöðvarhúsi, smíði vél- búnaðar og byggingu aðrennslis- og frárennslisskurða. Það vill þannig til að þessi nýja virkjun samnýtir marga af innviðum nú- verandi Búrfellsvirkjunar,“ útskýrir Ásbjörg og bætir við að ekki hafi þurft að búa til nýtt lón eða nýja stíflu. „Hér fyrir ofan okkur er Bjarnalón þegar til staðar. Á ákveðnum tíma ársins rennur svo mikið vatn til lónsins að virkjunin sem er fyrir ræður ekki við það. Eins og staðan er núna náum við ekki að nýta rúmlega 400 gígavatt- stundir að jafnaði á ári hverju með núverandi Búrfellsstöð. Stækkun Búrfellsvirkjunar mun nýta það vatn sem er hvort sem er að renna til lónsins, en fer framhjá gömlu stöðinni á ári hverju. Við erum mjög ánægð með fram- kvæmdina þar sem hún er í anda stefnu fyrir- tækisins um að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem okkur er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi.“ Er þörf á þessu aukna rafmagni? „Það er síaukin eftirspurn eftir rafmagni á íslenska markaðinum og mun stækkun Búr- fellsvirkjunar anna bæði aukinni eftirspurn eftir afli og orku á hinum almenna markaði. Virkjunin er ekki byggð fyrir einhvern einn stóran viðskiptavin, eins og tíðkast hefur við ýmsar aðrar stórframkvæmdir, þegar til að mynda var sett upp flutningskerfi beint til við- komandi orkukaupanda,“ segir Ásbjörg. „Frá þessu svæði liggur nú þegar mjög öflugt flutn- ingskerfi og með tilkomu nýrrar virkjunar þarf ekki að leggja neinar nýjar flutnings- línur.“ Spurð um raforkumál á Íslandi segist Ás- björg telja mikilvægt að huga að framtíðinni og gæta þurfi þess að aldrei verði skortur á raforku. „Á Íslandi er raforkukerfið ein- angrað, sem þýðir að við þurfum að passa sjálf upp á okkar raforkuvinnslu og höfum ekki stuðning ef skortur verður á rafmagni í land- inu. Einn af kostunum við vatnsaflsvirkjanir er að þær hjálpa til í þessum efnum. Við reisum stíflu og byggjum upp lón sem safnar vatns- forðanum saman á einn stað svo við getum stjórnað nýtingunni yfir árið. Það má líta á miðlunarlónin okkar sem risastórar raf- hlöður.“ Lítið rask á umhverfinu Verður mikið umhverfisrask við þessa nýju virkjunarbyggingu? „Stækkun Búrfellsvirkjunar var einmitt álitin mjög góður kostur, sér í lagi út frá um- hverfissjónarmiðum því svæðinu hafði að nokkru leyti verið raskað áður en fram- kvæmdir við stækkunina hófust. Upp úr 1980 voru uppi áform um að fara í þessar stækk- unarframkvæmdir og þá hófust framkvæmdir á svæðinu. Það var byrjað að grafa fyrir frá- rennslisskurðinum sem flytur vatnið frá virkj- uninni og út í ána aftur. Meðal annars þess vegna var ekki talin þörf á því að fara með þetta svæði í hefðbundið mat á umhverfisáhrif- um. Þessu til viðbótar verður stöðvarhúsið neðanjarðar, þannig að það eina sem verður sýnilegt að byggingu lokinni er aðrennslis- skurður við lónið sem fellur ofan í fjallið og svo opnast munni á fjallinu og þar rennur vatnið um frárennslisskurð aftur út í ána.“ Hversu stór er stækkun Búrfellsvirkjunar miðað við Kárahnjúkavirkjun? „Í stöðvarhúsinu erum við að gera ráð fyrir einni vél sem er 100 megavött að stærð en við erum einnig að undirbúa að geta stækkað hana með annarri vél um allt að 40 megavött í fram- tíðinni. Til samanburðar er Kárahnjúkavirkj- un með sex vélar og er uppsett afl þeirra sam- tals 690 megavött. Þannig að það er töluverður stærðarmunur á þessum tveimur virkjunum.“ Augnablik sem ekki gleymist Ásbjörg er ekki á ókunnugum slóðum í vinnunni því hún vann í Búrfellsvirkjun sem unglingur við gróðursetningu og aðra garð- vinnu. Einnig fengu krakkarnir af og til að vinna inni í virkjuninni ef fólk vantaði til verka. „Ef það var eitthvað í gangi inni í virkjuninni vorum við sumarstarfsmennirnir kallaðir til að aðstoða við hitt og þetta. Þá komst maður nær því að vera inni í sjálfri virkjuninni, ekki bara í umhverfinu í kringum hana. Það var verið að taka upp eina vélina og þá opnaðist niður í þar sem hún venjulega sat. Þannig að þarna sá ég stærðina á þessu öllu og ég held að það hafi verið ákveðið augnablik fyrir mig sem ég gleymi aldrei! Að komast svona nálægt þessu, ég hef líklega verið skíthrædd en þetta var ógleymanlegt,“ segir hún. Ásbjörg á góðar minningar frá unglingsár- unum við Búrfellsvirkjun og segir að hópur unglinga hafi unnið þarna sumar eftir sumar og góður vinskapur hafi myndast hjá krökk- unum. „Þetta var algjört ævintýri. Ég er svo mikil útivistarmanneskja þannig að þetta hentaði mér rosalega vel,“ segir Ásbjörg og lýsir því hvernig krakkarnir keyrðu um sveitirnar á kvöldin eftir vinnu eða fóru í fjallgöngur. „Ég á ofboðslega sælar minningar frá þessu svæði. Þegar ég kom hingað aftur tuttugu árum síðar sögðu gömlu samstarfsmennirnir við mig: vel- komin heim,“ segir hún og hlær. Kviknaði hugmyndin að vinna við virkjanir á þessum unglingsárum í sumarvinnunni? „Ég held það alveg hiklaust. Bæði kviknaði áhuginn og einnig lærði ég að bera virðingu fyrir virkjunum og virkjanaframkvæmdum. Þetta er að mörgu leyti svo mikið tæknilegt undur. Við erum að gera þetta á svipaðan hátt núna og við höfum gert síðustu öldina. Við er- um að nýta það að vatnið detti niður, látum það falla niður í vél og framleiðum rafmagn. Það er hægt að gera það í góðri sátt við umhverfið,“ segir hún. Eitt verkefni í einu! Um hundrað manns vinna á verkstað við stækkun Búrfellsvirkjunar en mun fjölga í tvö hundruð þegar mest lætur. Ásbjörg dvelur í sveitinni hluta af tímanum. „Ég þarf að svara fyrir verkefnið gagnvart höfuðstöðvunum og yfirstjórninni hjá Landsvirkjun þannig að það hjálpar mjög mikið ef ég er dugleg að fara út á verkstað og fylgja þessu eftir á staðnum. Það hjálpar mér að hafa betri tilfinningu fyrir framkvæmdinni. Ég hef ekki fasta viðveru hér á staðnum en sæki hingað fundi og þarf að hafa yfirsýn yfir heildarverkið.“ Er þetta ennþá karlastarf? „Það er nú ennþá svo að það eru einkum karlmenn sem starfa í svona framkvæmda- verkefnum. Það sést reyndar hér á þessum verkstað, auk hjúkrunarfræðinga og kvenna sem starfa við mötuneytin og ræstingar eru tvær konur á skrifstofu Landsvirkjunar og svo eru tvær á skrifstofu byggingarverktakans. Í Komin heim í Búrfellsvirkjun Ásbjörg Kristinsdóttir hefur alla tíð verið metnaðargjörn og mikil námsmanneskja og er bæði með MBA-próf og doktorsgráðu í verkfræði frá MIT í Bandaríkjunum. Að loknu doktorsnámi hóf Ásbjörg aftur störf hjá Landsvirkjun, þar sem hún hefur starfað með hléum frá árinu 2002. Ásbjörg starfar nú sem yfirverkefnisstjóri stækkunar Búrfellsvirkjunar og stjórnar þar her manna og verktaka. Er það í fyrsta sinn í sögu Landsvirkjunar sem kona er yfirverkefnisstjóri við byggingu nýrrar aflstöðvar. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.