Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2012, Page 30
29GJÖF SESSELJU OG KLAUSTRIÐ Á SKRIÐU
betlimunkareglur (e. mendicant orders) og reglur sem byggðu rekstur sinn
eingöngu á spítalahaldi (e. hospital orders) eða herþjónustu (e. military orders).
Reglur Dóminíkana og Fransiskana, sem voru betlimunkareglur, áttu raunar
erfitt uppdráttar í Noregi vegna þess hve strjálbýlt landið var. Þær náðu
samt fótfestu í stærstu bæjum Noregs, en urðu aldrei jafn áhrifamiklar og í
Danmörku.7 Þannig stóð fámennið á Íslandi á miðöldum umfram annað í
vegi fyrir því að fleiri reglur störfuðu hér. Klaustur Ágústínusar og Benediktína
voru hins vegar alhliða þjónustustofnanir sem þrifust hvar sem var.8
Útbreiðsla og þróun klaustra var að öðru leyti lík í allri álfunni. Saga
klausturstofnana hér á landi líkist eigi að síður einna helst sögu klausturstofnana
í Noregi og Danmörku, sem Ísland tilheyrði jú enda lengst af. Útbreiðslunni
þar sem og annars staðar innan kaþólskrar heimsmyndar er venjulega skipt í
þrjú afmörkuð tímabil eftir að klausturlifnaður efldist að nýju og víkingarnir
heyrðu sögunni til. Að baki klaustrunum stóðu biskupar og konungar eða
valdamiklir höfðingjar en einnig einkaaðilar, einkum á þriðja og síðasta skeiði
klausturstofnana. Þeir sáu þeim fyrir jörðum og öðrum verðmiklum eignum.9
Á Íslandi var fyrsta klaustrinu komið á fót á Þingeyrum árið 1133 og
fram til 1186 voru samtals sex klaustur stofnuð; Munkaþverárklaustur,
Þykkvabæjarklaustur, Hítardalsklaustur, Helgafellsklaustur, sem fyrst var
rekið í Flatey á Breiðafirði, og Kirkjubæjarklaustur. Á næsta tímaskeiði,
sem stóð frá 1225 til 1296, voru þrjú ný klaustur stofnuð; Viðeyjarklaustur,
Reynistaðarklaustur og Möðruvallaklaustur. Þetta samsvarar öðru skeiði
klausturstofnana í Evrópu. Frá lokum 13. aldar varð langt hlé á stofnun
klaustra en því lauk hérlendis með stofnun Skriðuklausturs fyrir tilstuðlan
einkaaðila og biskups.10 Svíþjóð sker sig reyndar úr í þessu tilliti eitt landa í
Norður-Evrópu því þar voru hin svokölluðu Birgittuklaustur stofnuð þegar
hlé var á klausturstofnunum annars staðar en Birgitta var sænsk.11
Víðast í Vestur-Evrópu þreifst ennfremur einsetuform klausturlifnaðar alla
tíð samhliða stærri klaustrunum. Á það jafnt við heiðna og kristna tíma.12 Í
heimildum er getið um yfir tíu einsetumunka og -nunnur sem voru búsett á
Íslandi frá landnámi til 1298.13 Þetta einfalda form klausturlifnaðar kann þess
vegna vel að hafa þrifist hérlendis einnig en engin markviss rannsókn hefur
farið fram á því. Áberandi er eigi að síður að bakgrunnur þeirra sem nefndir
eru til sögunnar í þessu sambandi hér á landi líkist mjög bakgrunni þeirra
sem kusu að lifa einlífi í nágrannalöndunum. Sem dæmi má nefna dætur og
syni biskupa eða höfðingja.14
Kaþólskur klausturlifnaður var síðan afnuminn í danska konungdæminu,
þ.m.t. Skálholtsumdæmi, þegar lútherskri kirkjuskipan var komið á þar árið