Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2012, Side 31
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS30
1541. Á Íslandi störfuðu klaustrin hins vegar áfram á undanþágu í báðum
biskupsdæmunum fram til hinna formlegu siðaskipta hérlendis um 1550.15
Hvað er klaustur?
Nauðsynlegt er að skoða og greina nánar tilgang klaustra áður en lengra er
haldið. Klaustrin voru – og eru því þau eru enn til meðal kaþólskra – samfélög
karla og kvenna sem kjósa að lifa sem þjónar Guðs og stuðla að bættu lífu
mannanna á jörðu niðri. Í upphafi fóru umbæturnar fram, eins og getið
var hér á undan, með bænahaldi í einveru en þegar fram liðu stundir varð
hlutverk þeirra sífellt fjölþættara. Áhersla var í æ ríkara mæli lögð á áþreifan-
legar umbætur, eins og lækningar, hjúkrun og líkn en líka bænahald og kristi-
lega uppfræðslu hvers konar, enda markmiðið ætíð að þjóna almenningi og
boða kristna trú.16 Meðal kaþólskra var talað um sjö náðarverk sem þeir
höfðu að leiðarljósi. Þau voru að gefa hungruðum mat, að gefa þyrstum að
drekka, að gefa klæðlausum föt, að vitja syndugra, að hýsa heimilislausa, að
hjúkra sjúkum og að grafa dauða.17
Og samfara auknum umsvifum eftir að klausturlifnaður efldist á ný á 11.
öld urðu klaustrin opnari óvígðum íbúum sem tóku virkan þátt í starfinu
innan þeirra í krafti umbóta, jafnt sinna eigin sem samfélagsins alls. Í kaþólskri
trú er nefnilega litið svo á að við andlátið gangi sálin í gegnum hreinsunareld
áður en komið er til himnaríkis. Sálin þurfti sumsé að vera hrein af syndum
þegar þangað var komið. Átti hreinsunin að vera kvalafyllri eftir því sem
drýgðar syndir á jörðu niðri voru fleiri og meiri. Syndir gátu verið hvað sem
var, allt frá illri hugsun til kaldrifjaðs morðs. Syndlaus maður fór hins vegar
kvalalaust í gegnum hreinsunareldinn.18
Aftur á móti var það svo að hver og einn gat haft áhrif á örlög sálar sinnar
eftir dauðann í lifanda lífi með því að iðrast af einlægni. Hefði maður syndgað
var þannig hægt að bæta fyrir syndirnar með því að skrifta í klaustri eða
kirkju, signa sig reglulega með vígðu vatni, ganga til altaris, stunda bænalestur
fyrir framan viðeigandi líkneski og krossa, fasta á mat eða stunda önnur
meinlæti, gefa ölmusu, fara í pílagrímsferðir og píslargöngur, eða stuðla með
virkum hætti að hvers konar samfélagsumbótum með gjöfum og góðum
verkum í formi vinnuframlags eða annars. Hvers konar yfirbætur voru því
hinar eiginlegu refsingar við yfirsjónum mannanna þótt önnur viðurlög hafi
að vísu verið til, eins og fjársektir, eignaupptaka, húðstrýkingar og einangrun
sem beitt var ef þurfa þótti.19 Enginn mátti taka líf nema Guð einn enda
leggjast kaþólskir gegn fóstureyðingum líka. Dauðarefsingar koma því fyrst