Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2012, Síða 34
33GJÖF SESSELJU OG KLAUSTRIÐ Á SKRIÐU
ferðalöngum – þá hélt vígt klausturfólk markmiði sínu um einlífi með Guði
með skýrri skiptingu klausturbygginga sinna í misheilög svæði. Afar strangar
reglur giltu um aðgang að þeim. Óvígðir máttu ekki fyrir nokkurn mun
fara að vild um helgari rými klaustranna, ekki frekar en viðskiptavinur í
banka – hann má aðeins halda sig innan rýmis almennings nema annað sé
sérstaklega ákveðið. Varðveitt skjöl frá Bretlandi, Danmörku og baltnesku
löndunum sýna einmitt að stofnendur og gefendur þar voru sífellt að skipta
sér af rekstri þeirra klaustra sem þeir styrktu og kvörtuðu, ef tilefni var til,
yfir því ef reglur voru ekki virtar, eins og t.d. ef óvígðir fóru um helgari hluta
klausturhúsanna. Gjöf þeirra þurfti að vera vel varið og tryggt að góðverkið
dragi úr hugsanlegum kvölum í komandi hreinsunareldi.26
Klaustrið á Skriðu
Fornleifauppgröfturinn á Skriðuklaustri sýnir einmitt að reynt hefur verið
af fremsta megni að fylgja klausturhefðinni í byggingum, innviðum og
rekstri klaustursins þar og gera það þannig eins trúverðugt og kostur var.
Byggingin líktist þess vegna ekki hefðbundnum sveitabæ af stærri gerðinni,
þrátt fyrir að vera gerð úr torfi, grjóti og rekaviði eins og allflest önnur hús
á þessum tíma á Íslandi. Hún líktist öðru fremur öðrum klausturbyggingum,
enda breytir byggingarefnið ekki rótgrónum gildum um innra starf klaustra.
Formið grundvallaðist nefnilega á starfinu innan þeirra sem var allt annað en
á hefðbundnu sveitabýli. Þannig átti það að vera. Uppgröftur á um helmingi
grafa í kirkjugarði klaustursins sýndi ennfremur að á Skriðuklaustri var rekin
sjúkrastofnun í líkingu við þær sem finna má í mörgum öðrum klaustrum
utan Íslands. Í gröfunum fundust bein sem báru merki alvarlegra, langvinnra
sjúkdóma, slysa eða meðfæddra galla og einmitt þá sömu og einkenna
beinasöfn úr öðrum samtíma klausturspítölum í Evrópu.
Klausturbyggingin á Skriðu samanstóð af kirkju, kirkjugarði og fjórtán
samliggjandi rýmum sem öll höfðu ákveðnum hlutverkum að gegna í
klaustur starfinu. Mestu skipti þó að byggingunni var skipt í tvo aðgreinda
hluta, þ.e. rými sem voru opin almenningi og rými sem aðeins voru ætluð
þeim vígðu (mynd 2).
Í hinum helgari hluta klausturbyggingarinnar á Skriðu, þ.e. vestast í
húsunum, var yfirbyggður gangur, svokölluð næturtrappa27, sem tengdi
klausturkirkju og hús saman. Næturtrappa var í öllum klaustrum en um hana
gengu reglubræðurnir – munkarnir – til tíða og annars helgihalds í kirkjunni
dag sem nótt án þess að fara undir bert loft. Vinstra megin gangsins sem