Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2012, Síða 37
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS36
sýnir að um 130 einstaklingar unnu við klaustrið á rekstrartímanum, sem
leikmenn eða voru þar á próventu, og um 150 til viðbótar leituðu þangað
vegna alvarlega veikinda sinna. En það voru umfram annað bein hinna
sjúku sem staðfestu að í klaustrinu var rekin sjúkrastofnun eða spítali. Þessir
sjúklingar hefðu ekki leitað þangað ef þar var ekkert að sækja. Það er nefnilega
ljóst að reynt var að lina kvalir hinna sjúku og hugsanlega lækna einhverja
með lyfjum úr heimaræktuðum grösum og jafnvel með kvikasilfri, auk þess
sem búið var um beinbrot. Merki um slíkt fannst við uppgröftinn. Nokkrir
bíldar fundust auk þessa en þeir voru notaðir jafnt til hreinsunar á sál sem og
til lækninga á ýmsum kvillum.33
Fæðið var jafnframt ríkulegt í klaustrinu ef marka má niðurstöður
greininga á dýrabeinum og sýnum sem tekin voru við uppgröftinn. Það var
ekki aðeins mikilvægur þáttur í lækningaferlinu, heldur einnig í helgihaldinu
en allar máltíðir dagsins voru samofnar því.34 Bein úr bæði nautgripum og
sauðfé fundust, sem og sjávar- og vatnafiski, auk þess sem kál, rófur og næpur
voru á borðum. Og líka innflutt, þurrkuð villiepli.35 Þá voru þar sjaldséðir
innfluttir munir, eins og hollenskt líkneski af heilagri Barböru sem verndaði
alla sem á hana trúðu gegn sótthita.36
Klaustrin voru annars afar stéttskipt samfélög. Það endurspeglaðist ekki
aðeins í byggingum þeirra og starfi, heldur skipti einnig máli hvar hver
hlaut leg miðað við stöðu innan þeirra. Þessi skipting kemur skýrt fram í
kirkjugarði Skriðuklausturs, ekki síður en í byggingunni sjálfri. Greina má
fjögur mismunandi svæði innan hans en áberandi er að allflestir þeirra sem
þar hlutu leg voru jarðaðir sem einstaklingar en ekki í fjölskyldureitum eins
og gert var – og er enn – í sóknarkirkjugörðum víðast hvar innan hins kristna
heims (mynd 3). Á Skriðu var aldrei sóknarkirkja, aðeins klausturkirkja og
síðar heimakirkja sem var aflögð árið 1792. Við hana var aldrei jarðað.37
Sóknarkirkja var alla tíð á Valþjófsstað, næsta bæ við Skriðu, og er enn.
Eitt af svæðunum fjórum í klausturskirkjugarðinum var ætlað langveikum
íbúum klaustursins – skjólstæðingum reglubræðanna en þar fundust bein
sem báru merki alvarlegra, langvinnra sjúkdóma eða slysa. Svæðið lá næst
klausturhúsunum og náði frá innganginum í kirkjuna að vestanverðu, norður
með langvegg hennar og allt austur fyrir kór. Austan við kórinn var annað
svæði ætlað vígðum íbúum klaustursins en þar var íburður áberandi meiri í
grafarumbúnaði en annarsstaðar. Í gröf karlmanns sem jarðaður var þar fannst
gullhringur en slíkt skart báru fyrst og fremst hinir vígðu því að þeir voru
giftir klaustri sínu.38 Að sunnanverðu hlutu þeir leg sem störfuðu við klaustrið
sem leikmenn eða voru þar á próventu. Á því svæði fundust ekki merki um