Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2012, Side 41
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS40
miðöldum. Í krafti embættis síns bar Stefáni einnig að gæta hagsmuna allra
þegna samfélagsins, og klaustrin voru þær stofnanir sem miðaldasamfélög
þurftu sérstaklega á að halda þegar neyðin varð stærst.
Lokaorð
Ekkert bendir til annars en að náðarverkin sjö hafi verið höfð að leiðarljósi
í lífi og starfi reglubræðranna á Skriðuklaustri. Þar höfðust þeir við og dóu
sem vildu fá fyrirgefningu synda sinna eða voru þurfandi fyrir mat, klæði,
húsaskjól og hjálp gegn andlegum og líkamlegum meinum. Stofnendum
klaustursins, biskupi og yfirmönnum, hefur greinilega tekist ætlunarverk sitt
og þeir gert Skriðuklaustur að svo eftirsóknarverðum dvalarstað sem raun ber
vitni. Lokun þess árið 1554 í kjölfar siðaskiptanna hlýtur að hafa verið mikill
skaði og missir fyrir allt samfélag eystra en engin sambærileg stoðþjónusta tók
við af þeirri sem klaustrið veitti.
Siðaskiptin urðu vegna guðfræðilegrar endurskoðunar og gengu út á
það að siðbæta kirkjuna sem stofnun. Endurskoðunin varð meðal annars til
þess að almenningur hætti að trúa á að hreinsunareldurinn væri til. Það var
enginn til frásagnar um tilvist hans. Kaþólska kirkjan var þannig vænd um
óheilindi og græðgi, að yfirbótaverk og gjafir væru ekki til neins nema til þess
eins að færa reglufólki veraldlegt ríkidæmi og völd á silfurfati.47 Um leið varð
rekstrargrundvöllur klaustranna, jafnt fjárhagslegur og trúarlegur, að engu.
Það má hins vegar færa rök fyrir því að við siðaskiptin um 1550 hafi hinu
félagslega stoðkerfi hér á landi verið umbylt til hins verra. Þannig var það í
Danmörku og Noregi, þar sem glundroði ríkti lengi á eftir. Var það einkum
vegna lokunar klaustranna sem sinntu þessum fjölbreytta málaflokki með því
að reka skóla, spítala og hvers konar þjónustu við almenning. Þau voru auk
þessa opinberir vinnustaðir og framleiðsla mikil á vefnaði, bókum og öðrum
verðmætum innan þeirra. Tölur sýna að mikill fjöldi fólks fór á vergang og
ljóst að hagur almennings versnaði til mikilla muna. 48
Danakonungur, Kristján III, fyrirskipaði raunar stofnun skóla við íslensku
biskupsstólana tvo þegar árið 1552 en líka spítala í hverjum landshluta þremur
árum síðar, í stað þeirra sem lokað var með klaustrunum. En enda þótt
rekstur skólanna hafi gengið ágætlega, þá fóru áform um stofnun spítalanna
hins vegar um þúfur og ljóst að sjúkir og fátækir áttu í fá eða engin hús að
venda.49 Þá var jafnframt ákveðið skerða biskupstíundina sem var fjórðungur
allrar tíundar í landinu. Hún rann áður að hluta til fátækraframfærslu á
vegum hreppanna en með lúterskri kirkjuskipan rann helmingur hennar til