Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2012, Síða 84
83KUMLIN Í SALTVÍK
í átt til Saltvíkur, var lítil grunn hola ofan í hólkollinn. Hún var aflöng, um
120 cm löng, og um 60 cm breið, sneri SSA-NNV og var dýpst um 30-40
cm í suðurenda. Fast við norðurenda hennar vottaði fyrir grunnri skál eða
dæld á yfirborði, um 100 cm í þvermál.
Opnað var svæði sem náði út fyrir dældirnar báðar, 4 m langt (N-S)
og 2 m breitt. Þegar torf og lyng var fjarlægt kom í ljós dökk mold, og þar
undir þykkt lag af dökkleitri gjósku, sem reyndist vera gjóskulagið V~1477.
Þessi gjóska, sem áður var kunn sem „a“ lagið, er vel þekkt á Norður- og
Norðausturlandi og er rakin til eldgoss í Veiðivötnum á seinni hluta 15.
aldar.5 Þar sem dældin var dýpst hafði safnast um 20 cm þykkt moldarlag yfir
gjóskulagið.
Til samanburðar voru óhreyfð jarðlög skoðuð í blásnum rofabörðum á
hólnum og nærri uppgraftarreit. Þar var moldin aðeins 8 cm djúp niður
á sömu gjósku (V~1477). Undir gjóskulaginu frá Veiðivötnum var óhreyft,
ljósleitt moldarlag sem náði niður (14-20 cm) að forsögulegri gjósku úr
Heklu (H3, um 900 f.Kr.) sem var um 4 cm þykk. Þar undir var moldarlag
og neðst annað forsögulegt gjóskulag úr Heklu (H4, um 2500 f.Kr). Undir
því var ljós mold og þá grá möl.
Gjóskulagið V~1477 lá óslitið yfir allri gröfinni, um 2-3 cm þykkt, en lá í
skafli syðst í dældinni, og var þar um 5 cm þykkt. Undir gjóskunni var mjög
blandað uppmoksturslag, með dökkri og ljósri mold, ljósum gjóskuflekkjum
(H3), torfsneplum, og fínkornóttri möl sem komið hefur úr gráa malarlaginu.
Athyglisvert var að sjá hve reglulega V~1477 gjóskan lá yfir öllu. Virðist hún
hafa fallið skömmu eftir að rótað hafði verið í holunni, enda ekki sýnilegt
áfokslag á milli gjósku og uppmoksturs. Þegar uppmoksturslagið var hreinsað
burt kom í ljós mjög óregluleg gryfja eða skurður. Var hún breiðust syðst
(147 cm), með óreglulegum brúnum, mjóst fyrir miðju (38 cm), en síðan
breiðari, eða allt að 100 cm, við norðurenda. Engin regluleg steinlögn lá yfir
þessum niðurgrefti, en í brúnum hans voru gisnar raðir af steinum. Allt voru
það fremur litlir steinar, rúmlega hnefastórir. Ekki vottaði fyrir því að þar
hafi verið upphlaðið leiði eða haugur, heldur líklegra að breiða af hnefastóru
grjóti hafi verið lögð yfir í öndverðu.
Augljóst var að niðurgröfturinn sem við blasti var ekki hin upprunalega
gröf, heldur skurður þess sem rjálað hafði við legstaðinn, einhverntíma eftir
að honum hafði verið lokið aftur og áður en gjóskulagið V~1477 féll. Við
raskið hefur efri brún hinnar upprunalegu grafar skemmst mikið og sennilegt
að maðurinn sem rótinu olli hafi heldur ekki hirt um að moka aftur ofaní
skurðinn eftir minjaspjöllin. Þegar leifar fyllingarinnar höfðu verið fjarlægðar