Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2012, Page 94
93ETNÓGRAFÍSK ENDURNÝJUN ÍSLENSKRA SAFNA
Í sama viðtali lagði Björn einnig sérstaka áherslu á að íslensk menning væri
ekki jaðarmenning heldur alþjóðleg menning,10 en sú áhersla hafði það að
markmiði að innleiða breytingar á mati á því hvað teldist íslensk menning og
við munum koma betur að hér á eftir. Samhliða þessu gerðu stjórnmálamenn
sér mat úr framandleika íslenskrar menningar og hvatti menningarstefnan
til að hann væri nýttur til efnahagslegrar uppbyggingar. Eftirmaður Björns
Bjarnasonar í embætti menntamálaráðherra, Tómas Ingi Olrich, benti til dæmis
á að á sama tíma og „samræmdar viðskiptareglur og heimsvæðing viðskipta
drægju úr sérkennum þjóða [...] væri menningarleg sérstaða einmitt eftirsótt
og í raun viðskiptavara...“.11 Sérstaklega var höfðað til menningararfleifðar
á söfnum og hvatt til nýsköpunar við framsetningu arfleifðarinnar. Í þriðja
lagi var lögð rík áhersla á skemmtigildi menningar og með þeim rökum
réttlætt uppbygging á menningarstofnunum sem hafa verið nefndar setur,
safnvísar og sýningar. Opinber stuðningur við slíka uppbyggingu beindist að
því kerfi sem fyrir var, þar sem menningarstofnanir á vegum hins opinbera
þóttu leiðinlegar, kerfisbundnar og skorta frumkvæði og sveigjanleika í starfi
og rekstri. Með áherslu á skemmtun var álitið að verið væri að höfða til
breiðari þátttöku fólks og tók Þjóðminjasafn Íslands meðal annars þátt í
þessari breytingu með opnun safnsins árið 2004, þar sem boðið var uppá
„skemmtimenntun“ fyrir gesti.12 Í fjórða lagi var lögð áhersla á mælanlegan
árangur og þá fyrst og fremst í aðsóknartölum. Menningarstofnanir komu til
móts við þessa kröfu með ýmsum hætti, s.s. eins og að bjóða upp á sýningar
alþjóðlegra listamanna í von um að þær yrðu vinsælar og vel sóttar. Aðrar
leiðir voru einnig farnar, s.s vakin athygli á starfsemi stofnana í fjölmiðlum,
en talning á opinberri umfjöllun var álitinn marktækur mælikvarði á gæði
stofnanastarfs. Þessum áherslubreytingum í menningarpólitíkinni var fengið
aukið vægi með tilvísan til hnattvæðingarferla, þar sem breytingarnar voru
sagðar óhjákvæmilegar og um leið tækifæri til eflingar á menningarstarfsemi.
Lögð var áhersla á að draga úr stofnanavaldi og ryðja úr vegi „gamaldags“
hugmyndum um söfn sem „kyrrstæðar heildir“ sem miðli sögunni „í
tímaröð.“ Var litið svo á að slík viðhorf væru hluti af „hámenningarstefnu“
safna sem höfðu kennivald í túlkun á gripum og sýningum og að því þyrfti
að breyta.13 Sumir safnstjórar tóku undir þessi sjónarmið og gerðu tilkall
til þess að söfn á Íslandi endurmætu hlutverk sitt út frá markaðslegum
sjónarmiðum og höfðuðu til breiðari hóps fólks.14 Hvatningin til
þeirrar áherslu liggur í gildum nýfrjálshyggju þar sem lögð er áhersla á
einstaklingsmiðað frelsi til skoðanaskipta og athafna. Samfélagslegar
stofnanir urðu að geta sýnt rekstrarlegan og stjórnunarlegan sveigjanleika