Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2012, Qupperneq 95
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS94
líkt og einkafyrirtæki, og einnig var talið nauðsynlegt að menningastofnanir
mættu væntingum breiðari hóps fólks en áður hafði tíðkast um leiðir til
menntunar, skemmtunar og afþreyingar. Einn viðmælandi okkar, sem er
forsvarsmaður sagnaverkefnis, sagði meðal annars að einn helsti hvatinn fyrir
stofnun þess hafi verið sá að „minjasöfn væru rykfallin og óspennandi.“15 Af
þessum orðum má sjá hvernig eldri safnastofnanir gegndu því hlutverki að
vera hvati til breytinga.
Safnastarf á Íslandi er samofið etnógrafískri söfnun, sem hefur tekið á sig
ýmsar myndir á þeim hundrað og fimmtíu árum frá því að formlegt safnastarf
hófst með stofnun Forngripasafnsins 1863. Fram að þeim tíma höfðu
ferðalangar frá erlendum ríkjum safnað etnógrafísku efni í landinu og flutt
með sér til erlendra safna eða fyrir sín eigin persónulegu söfn. Ísland var dönsk
hjálenda (biland) fram til ársins 1944, þegar lýðveldi var stofnað, og höfðu
Danir flutt töluvert af munum frá Íslandi eins og matarílát, klæðnað og reiðtygi
og komið fyrir í danska Þjóðminjasafninu. Stofnendur Forngripasafnsins, sem
síðar breytti um heiti og varð Þjóðminjasafn Íslands, lögðu á það áherslu að
efnislegum minjum, sem bæru vitni um menningarástand fólksins í landinu,
væri safnað og þær sýndar í heimalandinu sjálfu. Þjóðminjasafnið leitaðist við
að sinna söfnun á heimildum sem bæru íslenskum stofnunum, helgisiðum,
hefðum og venjum vitni, og hafði að fyrirmynd starf safna í Evrópu á
etnógrafískum heimildum.16 Fram á miðja tuttugustu öldina var öllum
fornum minjum og öðru sem taldist gamalt og verðugt að varðveita, komið
til varðveislu á Þjóðminjasafni Íslands. Það fyrirkomulag breyttist hins vegar
fyrir tilstuðlan safnstjóra Þjóðminjasafnsins sem hvatti til þess að yfirvöld
stæðu fyrir varðveislu gamalla torfbygginga og að þær fengju hlutverk sem
byggðasöfn. Árið 1947 var sú fyrirætlan lögfest og kváðu lögin á um að líta
bæri á byggðasöfn, sem væri komið fyrir í byggingum í eigu ríkisins, sem
sjálfstæðar deildir innan Þjóðminjasafns Íslands. Í lögunum var einnig kveðið
á um að stjórnvöld veittu sjálfsprottnum byggðasöfnum fjárstyrk til byggingar
safnhúss og einnig til reksturs þeirra.17
Með tilkomu laganna varð vakning um allt land, þar sem fólk bast
samtökum um söfnun minja í sínum byggðalögum. Ungmennafélög beittu
sér einnig fyrir söfnun minja18 og á sumum stöðum höfðu sveitastjórnir
frumkvæði að því að söfnun væri hafin. Mismunandi aðferðum var beitt. Til
að mynda var hverju heimili á Akranesi og nærsveitum sent erindi þar sem fólk
var hvatt til að gefa muni til væntanlegs byggðasafns.19 Búnaðarfélag Íslands
lagði sitt einnig af mörkum, með því að ráða sérstakan byggðasafnaráðunaut
á sjötta og sjöunda áratugnum, en hann safnaði þúsundum gripa víða um