Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2012, Page 104
103ETNÓGRAFÍSK ENDURNÝJUN ÍSLENSKRA SAFNA
fremst fyrir það sem þótt hefur almennt í íslenskri menningu. Viðfangsefni
setranna hafa því verið gagnrýnd. Biskup Íslands, sr. Karl Sigurbjörnsson, vék
til að mynda að Draugasetrinu í prédikun sem hann hélt stuttu fyrir opnun
þess og sagði:
Draugasetrið finnst mér vera minning um myrkrið, um hindurvitni og fáfræði,
ógn og ótta. Er það ekki makalaust hvað það selur, hið ljóta, illa, óhamingja
og ógn. Það selur, því miður. En mér finnst Stokkseyri lítill greiði gerður með
því að gera út á Móra og Skottu og annað það sem læsti helgreipum ótta og
myrkurs um hús og hjörtu hér í eina tíð, og matreiða það sem skemmtiefni
fyrir túrista.49
Ekki voru allir á eitt sáttir um mat biskups, en því var til að mynda andmælt
með þeim rökum að „fáfræði, myrkur og einangrun [séu] hluti af daglegu lífi
margra forfeðra [Íslendinga].“50
Um mitt sumar 2011 var opnað svokallað Spákonuhof á Skagaströnd
í húsi sem hafði áður gegnt því hlutverki að hafa verið samkomustaður
Skagstrendinga um langt árabil og síðar notað sem áhaldahús bæjarins.
Spákonuhof er rekið af félagi sem nefnist Spákonuarfur og hefur það að
markmiði að gera grein fyrir fyrsta nafngreinda íbúa Skagastrandar sem var
uppi á 10. öld. Hún hét Þórdís51 og er sögð hafa búið yfir spádómsgáfu.
Eftir að hugmyndin fæddist gekkst félagið fyrir íbúafundum á svæðinu þar
sem verkefnið var kynnt og sótt var um fjárstyrk til fjárlaganefndar Alþingis,
Atvinnusjóðs kvenna og Menningarráðs Norðurlands vestra. Að sögn eins
forsvarsmanns verkefnsins hefur verkefnið hlotið góðan stuðning fólks í
heimabyggð, en í byrjun mátti greina efasemdaraddir um gagnsemi þess og
var það aðallega eldra fólk sem hélt því fram að ekkert ætti að hreyfa við
þessari sögu af Þórdísi „galdrakerlingu.“52 Félagið hefur gengist fyrir margs
konar viðburðum í tengslum við Þórdísi, en auk þess að hafa tekið í notkun
sýningarhúsnæði, hefur félagið staðið fyrir uppsetningu leikrits sem byggt
var á sögu Þórdísar, sérstakar göngur hafa einnig verið farnar upp að fjalli í
nágrenninu sem nefnist Spákonufell og skrifuð hefur verið söguleg skáldsaga
um ævi Þórdísar.53 Ætlunin er að kynna fyrir gestum spár og spáaðferðir, bæði
á sýnilegan hátt en einnig með óáþreifanlegum hætti. Sem dæmi má nefna
að á sýningu hofsins hefur verið búin til sílikonútgáfa af Þórdísi í fullri stærð
og henni stillt upp í viðeigandi klæðum fyrir framan bæjardyr. Spáaðferðirnar
sem sýndar eru eru t.d. bollaspár, lófalestur og spilaspár. Starfið beinist ekki
síst að því að fræða börn um þessi efni og hefur Spákonuhof einnig útbúið
námsefni sem er sérstaklega sniðið að þeim sem vilja kynna sér spár og hvernig