Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2012, Page 117
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS116
en þá hóf trúboðinn Hans Egede leit að Eystribyggð norrænna manna á
Grænlandi. Hann hóf ferð sína frá nýlendunni við Godthåb, þar sem nú
er Nuuk, og ferðaðist um firðina á Suður-Grænlandi. Í þessari ferð fann
hann allnokkrar rústir eftir norræna menn en ekki gerði hann sér grein fyrir
því að hann hafði fundið hina fornu Eystribyggð, enda bjóst hann við að
hana væri að finna annarstaðar. Nokkrum áratugum síðar, eða árið 1751,
ferðaðist Peder Olsen Walloe um Suður-Grænland í leit að minjum eftir
norræna menn. Á ferðum sínum um Tunulliarfik lýsti hann svæði sem líklega
er Narsarsuaq-dalurinn, þó svo að staðarlýsingar hans séu ónákvæmar. Hann
lýsti stórum rústasvæðum með tveimur kirkjum en því miður gaf hann ekki
nægilega góðar staðarlýsingar á þessum rústum eða kirkjunum tveimur til að
hægt sé að fullyrða með vissu að hann hafi átt við rústirnar í Quassiarsuk.5
Á árunum 1832–1848 fór fram fornleifakönnun á nokkrum stöðum á
Suður-Grænlandi, þ. á m. á rústasvæðinu við Quassiarsuk. Í kjölfarið var ráðist
í lítinn fornleifauppgröft og staðfest að ein rústanna hefði verið kirkja. Árið
1880 hóf Gustav Holm skipulega fornleifaskráningu á minjum norrænna
manna og var því verki fylgt eftir af fornfræðingnum Daniel Bruun. Bruun
skráði bæði minjar í Eystri- og Vestribyggð og við þá vinnu bjó hann til
númerakerfi sem enn í dag er stuðst við. Hann gaf minjum í Eystribyggð
bókstafinn Ø, Vestribyggð V og Miðbyggðin fékk stafinn M. Við bókstafinn
var síðan bætt tölustaf til nánari aðgreiningar. Bruun gaf minjunum í
Quassiarsuk númerið Ø29 sem síðan var skipt í Ø29a (norðurbærinn), Ø29b
(fjallabærinn), Ø28a (suðurbærinn) og Ø28b (búðasvæðið).6
Árið 1932, í kjölfar rannsókna á Görðum/Igaliku og á Herjólfsnesi/Ikigaat,
hófust rannsóknir í Quassiarsuk. Rannsóknina framkvæmdu Poul Nørlund,
prófessor frá Þjóðminjasafni Danmerkur og Mårten Stenberger, prófessor við
Uppsalaháskóla í Svíþjóð. Meginmarkmið rannsóknanna var uppgröftur á Ø29a
en einnig voru grafnir skurðir í Ø28b. Aðaláherslan var á byggingarnar sjálfar
en öskuhaugur, sem var fyrir framan íveruhúsið á Ø29a, var einnig grafinn upp
að hluta. Uppgröfturinn í öskuhauginn hófst á því að 35 metra langur skurður
var grafinn fyrir framan íveruhúsið, þ.e. frá suðvesturhorni kirkjugarðsins að
norðausturhorni íveruhússins. Síðan var hvert húsið grafið upp á fætur öðru
og í lok uppgraftarins höfðu verið rannsakaðar 18 byggingar, meðal þeirra
íveruhús, kirkja, hlöður, fjós, geymsluhús og önnur óþekkt hús.7
Á árunum 1961–1964 rannsökuðu fornleifafræðingarnir Jørgen Meldgaard
og Knud J. Krogh frá Þjóðminjasafni Danmerkur litla kirkju sem kölluð hefur
verið Þjóðhildarkirkja. Á sama tíma gerðu þeir nokkra könnunarskurði í
kringum bæjarstæðið sjálft. Einn þessara skurða var grafinn norðvestan megin