Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2012, Side 134
133MYNDIR: LAGERHÚSIÐ VIÐ SÍLDARSTÖÐINA Á EYRI
verkfæri, tæki, matarbirgðir, húsgögn, skjöl og bækur. Sú von rættist aldrei og
grotnuðu því hús og hlutir smám saman niður. Alltaf var þó einhver umgangur
um húsin, fólk átti leið um og enn var búið á bæjum í nágrenninu, meðal
annars á Eyri handan árinnar. Nýir hlutir bættust því við kost Lagerhússins
í gegnum tíðina, sumir ef til vill til geymslu, öðrum var líklega fargað þar til
gleymsku, og einhverjir ultu kannski óvart úr vasa og týndust. Eftir því sem
veður og vindar unnu á húsinu áttu fuglar og ferfætlingar líka greiðari aðgang
að húsakynnunum sem þeir nýttu til skjóls og hreiðurgerðar en skildu eftir
úrgang og annað heimsóknum sínum til vitnis. Enda þótt margt hafi bæst
við safnið í Lagerhúsinu hafa margir hlutir líklega horfið þaðan einnig, sumir
til nýtingar á nýjum stöðum, aðrir hafa fokið og enn aðrir hreinlega verið
étnir. Af þessum sökum öllum var safn Lagerhússins haustið 2011 ekki aðeins
vitnisburður um síldarútgerð á Eyri um miðja síðustu öld heldur einnig
torkennilegt samsafn hluta og úrgangs, bæði kunnuglegt og ókennilegt, sem
vitnaði um það líf sem oft vill gleymast en þrífst á yfirgefnum, óbyggðum og
auðum stöðum.
Lagerhúsinu var fargað með leyfi þáverandi umsýslumanna húsafriðunar-
mála, enda húsið orðið hættulegt mönnum og skepnum og engin tök á að
viðhalda því. Höfundur hafði þá unnið að rannsóknum í húsinu um tveggja
sumra skeið, grafið í gólf, ljósmyndað, mælt og safnað gögnum. Ýmsir hlutir
sluppu því undan brunanum í október 2011 (og margir hlutir lifðu hann
vissulega af).
Þótt hér sé með engum hætti ætlunin að gagnrýna þá ákvörðun að
farga húsinu er áhugavert að leiða hugann að því hvernig við aðgreinum
menningarverðmæti frá rusli og arfleifð frá úrgangi, og er myndaþættinum
sem hér fylgir á eftir ætlað að kynda undir slíkri hugleiðingu.