Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2012, Page 205
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS204
algeng á Íslandi fyrr en um miðja 19. öld2, og eins og margt annað í húsagerð
og samsetningu gripasafnsins eru þessir snemma tilkomnu leirgripir til marks
um háa stöðu Reykholts og hinn mikla mun sem er á höfðingjasetrum og
venjulegum býlum. Þegar sá munur er hafður í huga hefði verið góð viðbót
við bókina ef fjallað hefði verið almennt um keramiksafnið úr Reykholti
og hvernig þessir leirgripir voru notaðir í daglegu lífi á bænum. Voru
tilteknar gerðir íláta algengari en aðrar, eða ílát til sérstakra nota, og er safnið
sambærilegt við fundi frá sama tíma annars staðar á Norðurlöndum?
Á sama hátt og með leirgripina er langmest af textílum frá 16. öld og
síðar, þó að dálítið af garni og vefnaðarleifum sé meðal funda frá víkingaöld
og miðöldum. Nákvæm greining Penelope Walton Rogers og skrár þær
sem hún birtir eru í raun útgáfa á gripasafni til samanburðar við aðra staði.
Þessi bókarkafli, ásamt nýlegum rannsóknum Michele Hayeur Smith,3 eru
ný og velkomin viðbót við þennan þátt efnismenningarinnar sem oft liggur
óbættur hjá garði. Þarna verður sá samanburður fornminja og ritheimilda
sem reynt er að gera í ritinu öllu einmitt til að hvor þátturinn um sig styður
við hinn og hægt er að tengja saman þá þróun sem hvor um sig sýnir. Einnig
er athyglisverður ítarlegur kafli um leifar skordýra sem Paul C. Buckland,
Phil Buckland, Eva Panagiotakopulu, Jon P. Sadler og Kim Vickers skrifa.
Greiningar taka til mismunandi hluta og mismunandi tímabila á býlinu. Þótt
þær láti lítið yfir sér sýna skordýraleifarnar nærmynd af lífinu í Reykholti
og varpa ljósi á margvíslegar hliðar daglegrar iðju og hversdagslífs á bænum.
Til dæmis má álykta að reglulega hafi verið mokað út úr fjósi til að bera
úrganginn á tún og einnig fundust óvenjulega margar líkamslýs, og má af
þessu ráða ýmislegt um það á hvaða stigi persónulegt hreinlæti var á bænum.
Höfundarnir bera niðurstöður saman við aðra uppgrefti og benda á að mun
meira fannst af kornbjöllum í miðaldalögum á Bessastöðum en í Reykholti.
Ásamt þessu benda frjókorn og plöntuleifar sem setja má í samband við
kornrækt til að jafnvel höfðingjasetur á miðöldum hafi haft mismikinn
aðgang að influttum varningi. Þessar leifar voru greindar af Agli Erlendssyni,
Garðari Guðmundssyni og Gordon Hillman.
Á vissan hátt kemur textinn fyrir eins og vel myndskreytt og ítarleg
uppgraftarskýrsla með skrám, og í raun getur verið að það hafi verið nálægt því
sem að var stefnt. Þegar öllu er á botninn hvolft standa fornleifarnar á bænum
ekki einar. Þó að finna megi á staðnum einstæð dæmi um timburbyggingar
og jarðhitanýtingu stjórnast áhuginn á minjunum í Reykholti eftir sem
áður af hinu sögulega samhengi þeirra. Til dæmis er mjög lítið fjallað um
merkingu timburbygginganna og hvernig þær tengjast öðrum breytingum