Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2012, Page 211
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS210
hafi verið óþekkt fylgikona hans. SK tekur hér ekki dæmi úr kirkjugörðum
klaustra erlendis um að klaustramönnum hafi verið búin hinsta hvíla með
fylgikonum sínum, enda er frillulífi vígðra manna lagt að jöfnu við höfuðsynd
í erkibiskupaskipunum sem hingað komu úr Noregi.
Trúlegt má vera að GAD sé fangamark Guðrúnar Árnadóttur, konu
klausturhaldarans Eiríks Árnasonar, en hún lést á Skriðuklaustri 1576. Móðir
Eiríks var Úlfheiður Árnadóttir sem andaðist 1569. Eiríkur sonur hennar
lét gera legstein yfir gröf hennar í kirkjugarðinum að Hofi í Vopnafirði með
myndum og áletrunum og stendur hans eigið fangamark, EA, innan í tveimur
samliggjandi hringum á steininum.3 Mjög svipaðir samliggjandi hringir eru
á kistulokinu utan um fangamark konunnar GAD. SK leitar þó í annan
Grundarstólinn að hliðstæðu skrautsins utan um fangamarkið, líklega til þess
að geta tímasett gröf konunnar „á klausturtíma“ eða um 1530, en um það
leyti er stóllinn gerður og það ár lést Þorvarður ábóti sem SK giskar á að
sé sá sem hringinn bar og lá við hlið konunnar. Meinið er þó að skreytið á
Grundarstólnum eru einfaldar kringlur, en ekki tveir hringir þar sem annar
liggur utan um hinn eins og eru um fangamörkin EA og GAD. Það hefði mátt
vekja athygli SK að í minningarljóði um konu sína Guðrúnu Árnadóttur segir
Eiríkur klausturhaldari á Skriðu: „kunni hún leið á krankra fund/caritatis
amica [vina kærleikans]“ og ennfremur: „kunni lækningar lindin rjóð/á lífsins
krankleik kenna“.4 Þetta er líklega eina vísbending í ritheimildum um að
lækningar kynnu að hafa verið stundaðar að Skriðuklaustri fyrr á öldum.
SK telur líklegt að jurtagarður hafi verið á Skriðuklaustri, slíkt hafi tíðkast í
klaustrum erlendis. Á staðnum fundust frjókorn af ræktuðum plöntum en ekki
nefnir SK aldursgreiningu á frjókornunum. Án óyggjandi aldursgreiningar
kann sá grunur að vakna að frjókornin stafi frá ræktunartilraunum Vísa-Gísla
sem hélt Skriðuklaustur um miðja 17. öld.
SK virðist helst til fastbundin við að tengja mannvistarleifar við
„klausturtíma“ eða þau 60 ár sem klausturhald var að Skriðu. Hún
horfir fullmikið framhjá þeirri staðreynd að eftir þann tíma erjaði fólk
jörð á Skriðuklaustri og hlaut kirkjulega þjónustu í heimiliskirkjunni á
Kirkjuvellinum allt til 1792 að hún var aflögð með konungsbréfi. Fram til
þess tíma var kirkjan endurbyggð og henni viðhaldið svo sem sést í vísitasíum
og hvergi í heimildum kemur fram að kirkjugarðurinn hafi verið aflagður.
Hann vígði Stefán Jónsson biskup árið 1496 með þeim skilmála „að þar sé
heimamanna gröftur og þeirra pílagríma sem þar kunna að sýkjast og Kristur
kallar þar og þeirra sem þangað kjósa sér leg“.5 Samkvæmt manntali 1703
voru þá 19 manns í heimili að Skriðuklaustri. Þeirra á meðal voru þrjú fátæk