Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2012, Page 212
211RITDÓMUR: SAGAN AF KLAUSTRINU Á SKRIÐU
prestsbörn forsorguð og víst er að þar hafa haft skemmri og lengri viðkomu
fleiri eða færri af þeim ríflega 70 manneskjum sem þá voru settar niður á
Fljótsdalshrepp og höfðu umferð um hann. Af þeim áttu margar bágt; einn
maðurinn var spítelskur og karlægur, margar persónur veikar, ein vitgrönn,
önnur höfuðveik, ein níræð kona sjónlaus.6 Hvað varð um líkami alls þessa
fólks þegar líf þess var á enda? Hver kostaði útfarir þess og hvar? Og hvar
var Sunnefa jarðsett sem lést í varðhaldi klausturhaldarans Hans Wíum að
Skriðuklaustri vorið 1757?
Enginn legsteinn kom fram í uppgreftinum á kirkjugarðinum né krossar
á kistum. Af 242 gröfum sem opnaðar voru hafði 91 manneskja fengið
kistuleg, aðrar voru jarðaðar án kistu, sumar í einni kös. Því virðist svo að
margir sem þar voru jarðsettir hafi verið óríkir einstæðingar sem dáið hafi
náttúrulegum dauða af sjúkleikum sínum. Til er gömul alþingissamþykkt sem
segir að öreigar skuli ekki gjalda legkaup en prestar og bændur skyldugir að
leggja til graftrartól.7 Meðal muna klausturkirkjunnar að Skriðu í vísitasíu
1641 er talinn járnkarl en það verkfæri var nauðsynlegt þegar gröf var tekin.
Það þarf óyggjandi rök til þess að halda því fram að heimamannagröftur og
gröftur sjúklinga á hreppsframfæri er dvöldu að Skriðuklaustri lengur eða
skemur hafi verið aflagður þegar regluhald var tekið þar af með siðskiptum.
Þrátt fyrir þau umskipti hélt „klausturs kirkja hins dýra blóðs“ áfram að vera
heimiliskirkja að Skriðuklaustri svo sem fram kemur í vísitasíum. Eitt sem
kynni að benda til þess að jarðað hafi verið í garðinum eftir að klaustrið var
aflagt, er að jarðað var þétt við djúpan brunn innangarðs sem klausturbræður
hafa líklega notað, en mokað hefir verið yfir þegar klaustrið var aflagt (bls.
130). Fæstir þeir efnuðu fyrirmenn sem héldu klaustrið eftir siðskipti sátu þar
til æviloka og þess því ekki að vænta að bein þeirra kæmu upp úr garðinum í
veglegum kistum undir líksteinum. Í þessu samhengi væri fróðlegt að vita til
samanburðar hvort gamlir legsteinar séu í Valþjófsstaðakirkjugarði – og hvort
sjúkdómseinkenni fyndust á líkamsleifum þeirra sem þar hvíla í sama mæli og
fundust á beinaleifum í kirkjugarðinum að Skriðuklaustri.
Bylting yrði í klaustrasögu Íslands ef tækist að fá úr því skorið með
haldbærum rökum að þeir 295 einstaklingar sem báru beinin í kirkjugarðinum
að Skriðu hafi verið jarðsettir þar á um 60 ára tímabili klausturhalds eða frá
um 1496 til um 1554. Þá verður tekin gild sú niðurstaða SK sem leidd er af
ástandi beinanna úr kirkjugarðinum að Skriðuklaustur hafi verið sjúkrastofnun
á evrópska vísu þar sem langlegusjúklingar máttu vænta ríkulegs fæðis og
umhyggju til hinstu stunda. Þeir hafi komið víðsvegar að af Austurlandi og
víðar, jafnvel á skipum utan úr löndum (bls. 213, 228, 246).