Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2012, Page 213
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS212
Í öðrum kafla þar sem rakin er saga Skriðuklausturs segir SK að ekki séu
samtímaheimildir til um óánægju með klaustrið á Skriðu en að frá lútherskum
tíma séu til „þjóðsögur af ágengni yfirmanna kaþólsku klaustranna“ og í
framhaldinu segir að sögur af peningagræðgi reglubræðra séu „sennilega
afleiðing áróðurs af hálfu lúthersku kirkjunnar“ (bls. 51). Þessi söguskilningur
er ekki skýrður frekar í bókinni en vekur furðu, því að í almennum
söguritum er því haldið fram eftir áreiðanlegum heimildum að andóf gegn
ásælni yfirmanna kirkjunnar eftir jarðneskum auði hafi átt áhrifamikinn
þátt í siðskiptum í Norður-Evrópu. Leiðarhólmsskrá sem samþykkt var af
helstu áhrifamönnum norðan lands og vestan árið 1513 er skýrt dæmi um
að landsmönnum ofbauð ásælni klerkdómsins í eignir og völd. – Reyndar
er til ótvírætt dæmi um uppsteyt gegn Stefáni Jónssyni Skálholtbiskupi,
yfirtilsjáanda Skriðuklausturs, þegar hann var á vísitasíureið austanlands 1512
og vígði kirkjuna að Skriðuklaustri. Höfðu þeir feðgar Marteinn Ólafsson og
Ísleifur sonur hans veist að mönnum biskups þegar hann reið á þeirra garð,
gert á þá högg og slög, veitt þeim skemmdar- og lemstrarsár og fulla hindran
og farartálman í sinni ferð. Voru þeir feðgar dæmdir af prestadómi í Skálholti til
að greiða kirkju og biskupi stórfé í sektir árið sem Leiðarhólmsskrá var gerð.8
Liggur beint við að greina uppsteyt feðganna sem austfirska bændauppreisn
á borð við þær sem urðu með ósköpum í umróti siðskipta í Norður-Evrópu
á 16. öld.
Túlkun SK á hlut Sesselju Þorsteinsdóttur í sögu stofnunar Skriðuklausturs
er álitamál. SK telur að með því að Sesselja og seinni maður hennar,
Hallsteinn Þorsteinsson, gáfu jörðina Skriðu til klausturhalds með bréfi 8.
júní 1500, hafi Sesselja forðað sér undan kvalafullum hreinsunareldi sem
yfir henni vofði fyrir þá sök að fjórmenningsmeinbugir höfðu verið á fyrra
hjónabandi hennar með Einari Ormssyni. Álítur SK að Sesselja hafi barist í
áratugi fyrir réttindum barna sinna til þess að gera þau arfgeng (bls. 52). Þetta
álit virðist stafa af misskilningi á orðalagi í úrskurði Sveins Skálholtsbiskups
um hjónaband þeirra Sesselju og Einars sem gerður var 8. maí 1471, um ári
eftir fráfall Einars. Í úrskurðinum segir að þótt Einar heitinn og Sesselja hafi
opinberlega „bundið hjúskap sín í millum í meinbugum greinds fjórmennings
skuldligleika, þá lagði þó oft greind Cecilia sitt mál og sinna barna undir þann
dóm eður úrskurð sem vér yfir segðum ...“.9 Skáletruðu orðin merkja hér
„fyrrnefnd Cecilia“ en eru skilin í Skriðuklaustursrannsókn svo að „nefnd
Cecilia hafi oft“ lagt mál sitt og barna sinna undir dóm. Þessi skilningur
orðanna fær ekki staðist, hvorki þetta mál né börn þeirra Einars og Sesselju
eru nefnd í varðveittum skjölum eftir þetta og jafnvel hefir þess verið getið til