Morgunblaðið - 18.10.2017, Blaðsíða 46

Morgunblaðið - 18.10.2017, Blaðsíða 46
VIÐTAL Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Samanborið við kvikmyndatökur er leikhúsvinnan þægilegri innivinna og dagarnir ekki eins langir. En að öllu gamni slepptu á vinnan það sameig- inlegt að maður þarf á endanum að skila af sér góðu verki,“ segir Ragnar Bragason, höfundur og leikstjóri leiksýningarinnar Risaeðlanna, sem frumsýnd verður á Stóra sviði Þjóð- leikhússins á föstudaginn kemur. Risaeðlurnar eru þriðja sviðsverkið í þríleik um afkima íslensks samfélags og fólk á jaðrinum sem hófst með Gullregni árið 2012 og Óskasteinum 2014. Fyrri sýningarnar tvær voru sýndar í Borgarleikhúsinu. Hvernig kemur það til að þú klárar þríleikinn í Þjóðleikhúsinu? „Hugmyndirnar að öllum þremur verkunum kviknuðu á svipuðum tíma og ég skrifaði frumdrögin að Risaeðl- unum fyrir rúmum tveimur árum. Upphaflega ætlaði ég að frumsýna verkin þéttar, en eins og svo oft er maður með fleiri bolta á lofti,“ segir Ragnar og bendir á að gerð Fanga, sem hann leikstýrði og var meðhöf- undur að, hafi tekið hálft annað ár í vinnslu og slegið allri leikhúsvinnu á frest. „Ari Matthíasson kom að máli við mig stuttu eftir að hann tók við sem þjóðleikhússtjóri og spurði hvort ég hefði áhuga á að koma niður í Þjóð- leikhús og gera eitthvað. Út frá efni verksins kitlaði það mig að vinna Risaeðlurnar fyrir Stóra svið Þjóð- leikhússins, sem er musteri íslenskr- ar tungu.“ Inntur eftir innihaldi verksins seg- ir Ragnar leikritið í stuttu máli fjalla um yngra par, myndlistarkonu (Birgitta Birgisdóttir) og sambýlis- mann hennar (Hallgrímur Ólafsson), sem mæta í hádegisverðarboð hjá ís- lensku sendiherrahjónunum í Wash- ington (Pálmi Gestsson og Edda Björgvinsdóttir). Útverðir lands og þjóðar bjóða upp á þríréttað úr ís- lensku hráefni, borið fram af ungri kínverskri húshjálp (María Thelma Smáradóttir). Smám saman kemur í ljós að undir glæsilegu yfirborðinu leynast óþægileg leyndarmál. Í gestahúsi við sendiráðsbústaðinn er fullorðinn sonur hjónanna (Guðjón Davíð Karlsson) falinn eins og fjöl- skylduskömm. Þegar hann, óboðinn, gerir sig heimakominn í boðinu fara beinagrindurnar að hrynja úr skápn- um ein af annarri. Jaðrar við firringu Hvernig kviknaði hugmyndin að verkinu? „Hún kviknaði smám saman eftir heimsóknir mínar í íslensk sendiráð og sendiráðsbústaði hér og þar um heiminn í tengslum við hina ýmsu menningarviðburði. Heimur utanrík- isþjónustunnar vakti hjá mér mikla forvitni, því mér leið alltaf eins og ég væri að stíga aftur í tímann, en á sama tíma kviknaði áhuginn á þessu fólki sem velur sér að starfa á er- lendri grundu fyrir land og þjóð. Ég lagðist í heilmikla rannsóknarvinnu og áttaði mig strax á því að þetta er einn afkimi íslensks samfélags,“ seg- ir Ragnar og bendir á að sendiherra- hjón verksins hafi áhugaverðar og rómantískar skoðanir á hver við Ís- lendingar erum og hvert hlutverk okkar sé. „Mér sýnist að því fjær sem Ís- lendingar fara landinu þeim mun rómantískari verði hugmyndir þeirra um land og þjóð, sem jaðrar við að vera firring. Við erum að mörgu leyti stórmerkileg þjóð, en sú rómantíska mynd böðuð dýrðarljóma sem sumir vilja draga upp af okkur á ekki við nein rök að styðjast. Í þeirri mynd er ekkert pláss fyrir minningar um sveltandi landsmenn í torfkofum með skyrbjúg og sull. Sendiherrahjónin í verkinu hafa dvalið langdvölum erlendis og eru þannig orðin utanveltu á Íslandi. Þetta er eins og skipstjórinn sem er í brúnni allt árið og upplifir að hann missi status sinn í landi og vill því helst alltaf vera úti á sjó. Verkið beinir líka sjónum að öllum alkóhól- ismanum og meðvirkninni í utanrík- isþjónustunni.“ Ber að sjá verkið sem einhverja allegoríu eða táknsögu? „Nei, alls ekki. Maður byrjar oft- ast með einhverjar stórar hug- myndir, eitthvert konsept sem er há- leitara en verkið í endanlegri mynd. Á endanum snýst þetta alltaf samt bara um að búa til áhugaverðar þrí- víðar persónur af holdi og blóði og segja góða sögu. Upphaflega langaði mig bara að skoða tímann og ólíkar kynslóðir. Inn í heim utanríkisþjón- ustunnar stígur nútímafólk í formi unga parsins sem hefur allt aðrar hugmyndir um lífið og tilveruna. Mig langaði að skoða gamla og nýja tím- ann, en titilllinn vísar í tímann, því risaeðlurnar dóu út.“ Eins og fokhelt hús Þú talar stundum um að persónur verks taki það yfir í vinnuferlinu. Geturðu útskýrt betur hvað þú átt við með því? „Grunnhugmyndin að persónu- galleríinu og framvindunni liggur alltaf fyrir þegar ég legg af stað í ferðalagið. Ég lýsi þessu oft sem svo að þegar við byrjum vinnuna er ég búinn að gera húsið fokhelt en inn- rétting þess er unnin í samvinnu við leikhópinn. Ég byrjaði að hitta leik- arana hvern fyrir sig í janúar til að ræða persónur verksins og ýmsa nú- ansa, en við það breytist mjög mikið í smáatriðunum þótt framvindan hald- ist óbreytt. Þegar þú gefur leikar- anum frelsi til að víkka út persónuna þá ósjálfrátt aðlagar leikarinn per- sónuna að sjálfum sér og sinni reynslu og þekkingu, sem er ómetan- legt.“ Hvað getur þú sagt mér um leik- aravalið? „Um leið og ljóst varð hvenær leik- ritið myndi fara á fjalirnar fór ég að máta leikara í hlutverk. Það eru bara sex persónur á sviðinu og því þurfti ég að fá fólk sem ég treysti 100% til að skila hlutverkunum sem skyldi. Ég lagði upp með að það væru engin aðal- eða aukahlutverk, heldur sögur sex persóna. Það væri því hæglega hægt að sjá sýninguna oftar en einu sinni og einbeita sér að því að fylgj- ast með ólíkum persónum og sjá þeirra sögu í gegnum verkið. Mig hefur lengi langað að vinna með Pálma, en það hefur strandað á því að ég er oft á tíðum að skrifa verk fyrir yngra fólk eða konur. Halli er eini leikarinn sem leikur í öllum verkum þríleiksins. Allar persónur hans eiga það sammerkt að dreyma um að lifa venjulegu lífi. Persóna Birgittu hefur orðið fyrir barðinu á hinu karllæga í samfélag- inu, en í verkinu er ég líka mjög mik- ið að skoða samskipti kynjanna og hvernig feðraveldið þráast við. Birg- itta er einstaklega skapandi leikona og það hafa verið forréttindi að fá að vinna með henni. Ég er mikill aðdá- andi Eddu, en hún lék drykkfellda miðaldra konu hjá mér í Villiljósi fyr- ir um 15 árum og það gerir enginn betur. Edda er jafnvíg á drama og kómedíu. En eins og svo oft áður er ég í Risaeðlunum bæði að leika mér með hláturinn og grátinn. María Thelma, sem er tiltölulega nýút- skrifuð og stórefnileg leikkona, smellpassar í hlutverk sitt. Mér þótti mjög áhugavert að fá Góa í hádrama- tískt hlutverk sonarins. Ég er mikill aðdáandi hans og finnst hann ekki hafa fengið nægilega krefjandi dramatísk hlutverk.“ Gullregn nú eða aldrei Þegar við ræddum saman í að- draganda frumsýningar Óskasteina talaðir þú um að þig langaði til að festa Gullregn á filmu og aðlaga Óskasteina að sjónvarpsmiðlinum. Hvar ertu staddur með þau áform? „Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá hefur kvikmyndaútgáfan af Gull- regni ekki hlotið náð hjá Kvikmynda- miðstöð Íslands, en ég er búinn að sækja um þrisvar án árangurs. Í ljósi þess að leikarar sviðsuppfærslunnar eldast fer ég bráðum að brenna inni með aðlögunina. Það er núna eða ekki. Ég er mjög ánægður með kvik- myndahandritið að Gullregni sem er útvíkkun á sögunni sem sögð var á sviðinu. Gullregn hentar mjög vel í kvikmynd að því leyti að hún gerist á löngum tíma en Óskasteinar og Risa- eðlurnar eru aðstæðuverk að því leyti að þau gerast nánast í rauntíma á einum stað og myndu því henta betur fyrir sjónvarpsmiðilinn.“ Hvað er svo fram undan hjá þér? „Eftir frumsýningu einhendi ég mér í að klára handritsferlið á Föng- um 2 ásamt meðhöfundum mínum. Megnið af þeim samstarfsaðilum sem komu að framleiðslu og gerð Fanga hefur lýst yfir áhuga á fram- haldinu. Ef fjármögnunin gengur upp ættum við að geta hafið tökur síðla næsta árs,“ segir Ragnar og tekur fram að áhugavert hafi verið að upplifa hversu sterkt innihald Fanga kallaðist á við samtímann. „Þegar við vorum að gera Fanga ákváðum við strax að við vildum fjalla um kynbundið ofbeldi og höfð- um þar til hliðsjónar ýmis mál sem verið höfðu í gangi um þöggun og hvernig kerfið tekst á við þessi mál, sem er stórt samfélagslegt mein. Við veltum því stundum fyrir okkur hvort við værum að draga upp of ýkta mynd, en staðreyndin er sú að raunveruleikinn er alltaf ýktari en skáldskapurinn. Við aðstandendur Fanga höfum fengið svakalega mikil viðbrögð frá áhorfendum sem þakka okkur fyrir að segja þessa sögu. Það fyllir mann stolti að geta á einhvern hátt haft jákvæð áhrif á fólk og sam- félag sitt. Jákvæð viðbrögð frá áhorfendum eru mikilvægari en öll heimsins verðlaun.“ „Orðin utanveltu á Íslandi“  Þjóðleikhúsið frumsýnir Risaeðlurnar eftir Ragnar Bragason í leikstjórn höfundar  Þriðja sviðs- verkið í þríleik um afkima íslensks samfélags  Ragnar langaði að skoða tímann og ólíkar kynslóðir Morgunblaðið/Kristinn Magnússon Viðbrögð „Jákvæð viðbrögð frá áhorfendum eru mikilvægari en öll heimsins verðlaun,“ segir Ragnar Bragason. 46 MENNING MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 18. OKTÓBER 2017 IMAC HERRA LEÐUR VETRARSKÓR 14.995 ST. 41-46

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.